Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 904  —  476. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar, Bryndísar Hlöðversdóttur og Guðjóns A. Kristjánssonar um minnisblað til starfsnefndar ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hljóðaði minnisblað sem vísað er til í erindisbréfi sem starfsnefnd ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu fékk frá forsætisráðherra eða ríkisstjórninni í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 19. desember sl.?

    Minnisblað þetta var samið að tilhlutan forsætisráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra af starfsmönnum þriggja hinna fyrsttöldu og ríkislögmanni til að undirbúa umfjöllun og ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar um fyrstu viðbrögð við dómi Hæstaréttar í málinu nr. 125/2000: Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands og gagnsök. Í minnisblaðinu var gerð grein fyrir niðurstöðu dómsins og reifuð ýmis þau álitaefni sem beint lá við að leysa þyrfti úr. Í því skyni var lagt til að skipaður yrði sérstakur starfshópur til að greina með sem nákvæmustum hætti hvaða leiðir væru færar til að bregðast við dómi Hæstaréttar og stýra vinnu við undirbúning á frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar sem stefnt yrði að því að lögfesta svo fljótt sem verða mætti. Jafnframt yrði starfshópnum falið að stýra greiningu á hvort þær meginreglur sem dómurinn byggðist á kynnu að hafa víðtækari áhrif en kveðið væri á um í dóminum.
    Forsætisráðherra lagði minnisblað þetta fyrir ríkisstjórnina á fundi hennar 22. desember sl. og tók hún ákvörðun um skipun sérstaks starfshóps til að fjalla um málið og undirbúa framangreindar aðgerðir á grundvelli þess. Í samræmi við þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar skipaði forsætisráðherra umræddan starfshóp sama dag og gerði í skipunarbréfum grein fyrir verkefni hans með sama hætti og fram kom í minnisblaðinu, sbr. framangreint. Til að þeim trúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar sem völdust í þennan starfshóp væri ljóst á hvaða grundvelli ákvörðun um skipun hans var tekin var í skipunarbréfum til þeirra jafnframt vísað til umrædds minnisblaðs og það látið fylgja þeim sem fylgiskjal. Minnisblaðið hefur hins vegar ekki verið sýnt eða sent öðrum en þeim sem völdust til þessara trúnaðarstarfa í þágu ríkisstjórnarinnar.
    Skýrsla starfshópsins var lögð fyrir yfirstandandi þing sem fylgiskjal III með frumvarpi því er varð að lögum nr. 3/2001, um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117 20. desember 1993, með síðari breytingum, sbr. þskj. 624. Í inngangi að skýrslunni var auk þess sem þegar er komið fram vitnað um verkefni starfshópsins til minnisblaðsins og það skilgreint sem þríþætt. Í fyrsta lagi að hann ætti að kanna hvort leiðrétta þyrfti bætur til bótaþega aftur í tímann og þá hversu langt, í öðru lagi að hann skyldi athuga að hvaða marki þyrfti að endurskoða þau lagaákvæði sem dómurinn fjallaði um og í þriðja lagi að hann ætti að huga að mögulegri endurskoðun gagnvart öðrum hópum en þeim sem dómurinn fjallaði beint um.
    Samkvæmt framansögðu hefur Alþingi þegar verið gerð grein fyrir efni títtnefnds minnisblaðs í öllum meginatriðum og lagt fyrir það öll þau gögn sem nauðsynleg voru til að fram gæti farið upplýst umræða um dóm Hæstaréttar frá 19. desember sl. og viðbrögð við honum.
    Að því er varðar efni minnisblaðs þessa að öðru leyti er ástæða til að árétta að það var undirbúið fyrir ríkisstjórnina og sérstaklega tekið saman fyrir fund hennar um málið. Alþingi hefur bæði í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og upplýsingalögum, nr. 50/1996, talið ástæðu til að verja gögn sem sérstaklega eru tekin saman fyrir slíka fundi aðgangi annarra. Enda þótt þessum lögum verði vitaskuld ekki sem slíkum beitt við úrlausn beiðna um aðgang að upplýsingum frá þinginu er þó til þess að líta að fundir þingsins eru háðir í heyranda hljóði og gögn, sem þar eru lögð fram eru almenningi aðgengileg. Í raun er því enginn eðlismunur á þeim aðgangi sem almenningi er veittur á grundvelli upplýsingalaga og þeim aðgangi sem þingmönnum er veittur á grundvelli stjórnarskrárvarins fyrirspurnarréttar þeirra um opinber málefni. Í því ljósi hlýtur mat á inntaki upplýsingaréttar þingsins og takmarkana sem hann sætir að mörgu leyti að byggjast á sams konar sjónarmiðum og þær takmarkanir sem lögfestar hafa verið gagnvart upplýsingarétti almennings. Er sú nálgun málsins í samræmi við þær ábendingar sem fram komu í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda sem lögð var fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi, sbr. þskj. 376. Þar var jafnframt á það bent að æskilegt væri að inntak þessa réttar yrði nánar afmarkað í þingskapalögum, þar á meðal hvaða upplýsingar ráðherra væri heimilt að undanþiggja í svörum við fyrirspurnum frá Alþingi. Meðan þingið hefur hins vegar engan reka að því gert að endurskoða þingsköp í þessu skyni verður mat þetta ekki byggt á öðrum sjónarmiðum en þeim sem þingið hefur sjálft lagt til grundvallar í framangreindum lögum. Að öðrum kosti væri grafið undan þeirri vernd sem þingið hefur sjálft fest í lög, að tiltekin gögn eigi að njóta og felld sú skjaldborg sem þingið hefur sjálft slegið um þá starfsemi sem fram fer á vettvangi ríkisstjórnarinnar.
    Forsætisráðuneytið hefur þegar synjað beiðni sem fram var borin á grundvelli upplýsingalaga um aðgang að umræddu minnisblaði á grundvelli heimildar til að undanþiggja aðgangi gögn sem tekin hafa verið saman fyrir fundi ríkisstjórnarinnar, sbr. 1. tölul. 4. gr. s.l. Ákvörðun ráðuneytisins var kærð til sjálfstæðrar og óháðrar úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem starfrækt er á grundvelli V. kafla upplýsingalaga til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang að upplýsingum hjá stjórnvöldum og var hún staðfest þar á sams konar forsendum og ráðuneytið hafði lagt afstöðu sinni til grundvallar.
    Þegar til þess er litið að Alþingi hefur þegar verið gerð grein fyrir efni minnisblaðs þessa í öllum meginatriðum og ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi öll nauðsynleg gögn til að upplýst umræða geti farið fram um viðbrögð við dómi Hæstaréttar frá 19. desember sl. verða í ljósi þessarar niðurstöðu ráðuneytisins sem staðfest hefur verið á kærustigi, og með skírskotun til þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan ekki veittar frekari upplýsingar um efni umrædds minnisblaðs en þegar hafa komið fram.