Ferill 602. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 971  —  602. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar:
    Grænt bókhald er efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga.
    Skýrsla um grænt bókhald merkir niðurstöður græns bókhalds fyrir hvert bókhaldstímabil þess.

2. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, 17. tölul., svohljóðandi: færslu græns bókhalds, form og framsetningu skýrslna um grænt bókhald, upplýsingar sem þar skulu koma fram, skilafresti á skýrslum um grænt bókhald, aðila sem heimilt er að skila grænu bókhaldi án þess að þeim sé það skylt og endurskoðun þess og birtingu.

3. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
    Færa skal grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi skv. 5. gr. og nánar greinir í fylgiskjali II með lögum þessum.
    Í grænu bókhaldi skulu koma fram upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, þ.m.t. tölulegar upplýsingar um meginnotkun hráefnis, orku og vatns til starfseminnar, sem og helstu tegundir og magn mengandi efna sem losuð eru í loft, láð eða lög, koma fram í framleiðsluvöru eða falla til sem úrgangur. Ekki er þó skylt að setja í skýrslu um grænt bókhald upplýsingar sem starfsleyfishafi telur vera framleiðsluleyndarmál, enda séu slík atriði tilgreind og ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu útgefanda starfsleyfis.
    Starfsleyfishafi ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald. Skýrsla um grænt bókhald skal endurskoðuð á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja.
    Senda skal útgefanda starfsleyfis árlega skýrslu um grænt bókhald. Útgefandi starfsleyfis skal kanna hvort skýrsla um grænt bókhald fullnægi þeim formkröfum sem gerðar eru til skýrslna um grænt bókhald. Sé heilbrigðisnefnd útgefandi starfsleyfis skal hún því næst senda skýrsluna áfram til Hollustuverndar ríkisins.
    Hollustuvernd ríkisins annast birtingu skýrslna um grænt bókhald og gerð leiðbeininga um grænt bókhald. Birting skýrslu um grænt bókhald felur ekki í sér viðurkenningu Hollustuverndar ríkisins á þeim upplýsingum sem þar koma fram.

4. gr.

    Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Starfi að minnsta kosti fimm heilbrigðisfulltrúar á viðkomandi eftirlitssvæði í fullu starfi er heimilt að víkja frá því skilyrði að framkvæmdastjóri hafi réttindi sem heilbrigðisfulltrúi, enda sé hann í fullu starfi sem framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits og hafi, auk háskólaprófs, staðgóða þekkingu á heilbrigðiseftirliti.

5. gr.

    4. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: Í þeim tilvikum þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlit fer um valdsvið og þvingunarúrræði stofnunarinnar í samræmi við þennan kafla laganna.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fyrsta bókhaldsár græns bókhalds skal vera árið 2003.
    Ráðherra getur með reglugerð heimilað Hollustuvernd ríkisins að semja við starfsleyfishafa sem skuldbinda sig til að taka upp viðurkennd umhverfisstjórnunarkerfi um frest til að taka upp grænt bókhald. Fyrsta bókhaldsár skal þó eigi verða síðar en árið 2006.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, svohljóðandi:

Starfsemi sem færa skal grænt bókhald.


1.     Orkuiðnaður.
1.1.     Brennslustöðvar með meiri nafnhitaafköst en 50 MW.
1.2.     Jarðolíu- og gashreinsunarstöðvar.
1.3.     Koksverksmiðjur.
1.4.     Iðjuver þar sem kolagösun og þétting fer fram.

2.     Framleiðsla og vinnsla málma.
2.1.     Álframleiðsla.
2.2.     Kísiljárnframleiðsla.
2.3.     Kísilmálmframleiðsla.
2.4.     Kísil- og kísilgúrframleiðsla.
2.5.     Járn- og stálframleiðsla.
2.6.     Sinkframleiðsla.
2.7.     Framleiðsla á magnesíum og efnasamböndum sem innihalda magnesíum.

3.     Jarðefnaiðnaður.
3.1.     Sements- og kalkframleiðsla.
3.2.     Stöðvar þar sem vinnsla asbests og framleiðsla vara sem innihalda asbest fer fram.
3.3.    Glerullarframleiðsla. Stöðvar þar sem framleiðsla glers, einnig glertrefja, fer fram og sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.4.    Steinullarframleiðsla. Stöðvar þar sem bræðsla jarðefna, einnig steinullartrefja, fer fram og sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.5.    Stöðvar þar sem framleiðsla leirvara fer fram með brennslu, einkum þakflísa, múrsteina, eldfastra múrsteina, flísa, leirmuna eða postulíns, sem geta framleitt meira en 75 tonn á dag og/eða rúmtak ofns er meira en 4 m³ og setþéttleiki hans er meiri en 300 kg/m³.

4.     Efnaiðnaður.
    Með framleiðslu í starfsemi sem fellur undir þennan þátt er átt við mikla framleiðslu með efnafræðilegri vinnslu efna eða flokka efna sem er getið í liðum 4.1–4.6.
4.1.     Efnaverksmiðjur sem framleiða lífræn grunnefni, svo sem:
    a)     einföld vetniskolefni,
    b)    vetniskolefni með súrefni, svo sem alkóhól, aldehýð, ketón, karboxýlsýrur, estera, asetöt, etera, peroxíð, epoxýresín,
    c)     brennisteinsvetniskolefni,
    d)    köfnunarefnisvetniskolefni, svo sem amín, amíð, nítursambönd, nítrósambönd eða nítratsambönd, nítríl, sýanöt, ísósýanöt,
    e)    vetniskolefni með fosfór,
    f)     halógenvetniskolefni,
    g)     lífræn málmsambönd,
    h)     plastefni,
    i)     gervigúmmí,
    j)     litarefni og dreifuliti,
    k)     yfirborðsvirk efni.
4.2.     Efnaverksmiðjur sem framleiða ólífræn grunnefni, svo sem:
    a)    gös, svo sem ammóníak, klór eða vetnisklóríð, flúor eða vetnisflúoríð, koloxíð, brennisteinssambönd, köfnunarefnisoxíð, vetni, brennisteinsdíoxíð, karbónýlklóríð,
    b)    sýrur, svo sem krómsýru, flúorsýru, fosfórsýru, saltpéturssýru, saltsýru, brennisteinssýru, óleum, brennisteinstvísýrling,
    c)     basa, svo sem ammóníumhýdroxíð, kalíumhýdroxíð, natríumhýdroxíð,
    d)    sölt, svo sem ammóníumklóríð, kalíumklórat, kalíumkarbónat, natríumkarbónat, perbórat, silfurnítrat,
    e)    málmleysingja, málmoxíð eða önnur ólífræn sambönd, svo sem kalsíumkarbíð, kísil, kísilkarbíð.
4.3.    Áburðarframleiðsla. Efnaverksmiðjur sem framleiða áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur).
4.4.    Efnaverksmiðjur sem framleiða grunnvörur fyrir plöntuheilbrigði og sæfiefni.
4.5.    Stöðvar þar sem notaðar eru efnafræðilegar og líffræðilegar aðferðir við framleiðslu grunnlyfjavara.
4.6.     Efnaverksmiðjur sem framleiða sprengiefni.
4.7.     Kítín- og kítosanframleiðsla.
4.8.     Lím- og málningarvöruframleiðsla.

5.    Úrgangsstarfsemi.
5.1.     Stöðvar fyrir meðhöndlun, förgun eða endurnýtingu spilliefna.
5.2.    Stöðvar fyrir sorpbrennslu sem geta afkastað meira en 3 tonnum á klukkustund.
5.3.    Stöðvar fyrir förgun úrgangs annars en spilliefna sem geta afkastað meira en 50 tonnum á dag.
5.4.    Urðunarstaðir sem taka við meira en 10 tonnum á dag eða geta afkastað meira í heild en 25.000 tonnum af óvirkum úrgangi.

6.    Önnur starfsemi.
6.1.     Pappírs- og trjákvoðuframleiðsla. Iðjuver sem framleiða:
    a)     deig úr viði eða önnur trefjaefni,
    b)     pappír og pappa og geta framleitt meira en 20 tonn á dag.
6.2.    Stöðvar þar sem fram fer formeðferð eða litun trefja eða textílefna og vinnslugeta er meiri en 10 tonn á dag.
6.3.     Sútunarverksmiðjur. Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum og vinnslugeta er meiri en 12 tonn af fullunninni vöru á dag.
6.4.     Matvælavinnsla:
    a)     Sláturhús sem geta framleitt meira en 50 tonn af skrokkum á dag.
    b)     Meðferð og vinnsla fyrir matvælaframleiðslu úr:
         –    hráefnum af dýrum, öðrum en mjólk, þar sem hægt er að framleiða meira en 75 tonn af fullunninni vöru á dag,
         –    hráefnum af jurtum þar sem hægt er að framleiða að meðaltali meira en 300 tonn af fullunninni vöru á dag.
    c)    Meðferð og vinnsla mjólkur, tekið er á móti meira en 200 tonnum af mjólk á dag miðað við meðaltal á ársgrundvelli.
6.5.    Stöðvar þar sem förgun eða endurvinnsla skrokka og úrgangs af dýrum fer fram og afkastageta er meiri en 10 tonn á dag.
6.6.     Stöðvar þar sem þauleldi alifugla eða svína fer fram með fleiri en:
    a)     40.000 stæði fyrir alifugla,
    b)     2.000 stæði fyrir alisvín yfir 30 kg eða
    c)     750 stæði fyrir gyltur.
6.7.    Stöðvar þar sem fram fer yfirborðsmeðferð efna, hluta eða afurða með lífrænum leysiefnum, einkum pressun, prentun, húðun, fituhreinsun, vatnsþétting, meðhöndlun eða þakning með límvatni, málun, hreinsun eða gegndreyping og meira en 150 kg eru notuð á klukkustund eða meira en 200 tonn á ári.
6.8.    Stöðvar þar sem fram fer framleiðsla kolefna eða rafgrafíts með brennslu eða umbreytingu í grafít.
6.9.    Fiskimjölsverksmiðjur með meiri framleiðsluafköst en 400 tonn á sólarhring.
6.10.    Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera þar sem ársframleiðsla er meiri en 200 tonn og fráveita til sjávar eða ársframleiðsla er meiri en 20 tonn og fráveita í ferskvatn.
6.11.    Olíumalar- og malbikunarstöðvar með fasta staðsetningu.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta kveður á um nýmæli í íslenskri löggjöf. Með því er rekstraraðilum starfsemi, sem háð er starfsleyfi skv. 5. gr. laganna og nánar greinir í nýju fylgiskjali með lögunum, gert skylt að vinna árlega efnisuppgjör fyrir starfsemina á svipaðan hátt og gert er með fjármuni fyrirtækja. Gera skal grein fyrir streymi hráefnis, orku og vatns til starfseminnar, sem og streymi mengandi efna frá henni. Þannig skal, aðallega með tölulegum upplýsingum, gera grein fyrir því hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi. Búist er við að slíkt efnisuppgjör hafi áhrif á stjórnendur við val á aðföngum og starfsaðferðum og auki vitund starfsmanna, sem og almennings, um umhverfismál fyrirtækja. Grænt bókhald ætti, þegar fram í sækir, að gera rekstraraðilum kleift að fylgjast með helstu umhverfisþáttum starfseminnar og hvort þróunin er jákvæð eða neikvæð í umhverfislegu tilliti og gæti jafnvel orðið skref í þá átt að fyrirtæki taki upp umhverfisstjórnunarkerfi. Færsla græns bókhalds getur einnig í mörgum tilvikum leitt til fjárhagslegrar hagræðingar.
    Gert er ráð fyrir að skýrslur um grænt bókhald verði aðgengilegar almenningi en almennt er viðurkennt að vöktun almennings og miðlun upplýsinga sé hluti umhverfisverndar með sama hætti og m.a. lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, nr. 21/1993, og lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
    Þá er gert ráð fyrir að ákvæði um grænt bókhald verði framvegis í starfsleyfum viðkomandi starfsemi þegar þau verða endurnýjuð og þegar ný starfsleyfi verða veitt.
    Við samningu frumvarpsins hefur verið stuðst við ákvæði um grænt bókhald í dönskum lögum (lov om miljøbeskyttelse). Ákvæði um grænt bókhald kom inn í dönsk lög árið 1995. Frumvarp þetta tekur mið af því ákvæði, aðallega að því er varðar þær upplýsingar sem koma skulu fram í grænu bókhaldi. Í dönskum lögum er gert ráð fyrir að skýrslur um grænt bókhald séu sendar til umhverfiseftirlitsaðila og sérstakrar atvinnumálastofnunar sem annast birtingu þeirra. Fyrir danska þinginu liggur nú frumvarp til laga um breytingu á ákvæði um grænt bókhald þar sem gert er ráð fyrir að skýrslur um grænt bókhald verði sendar til eftirlitsaðila sem veiti umsögn um það, síðan sendi eftirlitsaðili viðkomandi fyrirtæki umsögnina og loks sendi fyrirtækið skýrsluna ásamt umsögninni til birtingaraðila sem gert er ráð fyrir að verði sá sami og áður.
    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að starfsleyfishafi beri sjálfur ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald. Jafnframt er gert er ráð fyrir að skýrsla um grænt bókhald verði send endurskoðað til útgefanda starfsleyfis. Eðlilegt þykir að útgefandi starfsleyfis taki við skýrslum um grænt bókhald og hafi þar af leiðandi aðgang að þeim upplýsingum sem þar koma fram og geti fylgt eftir skilum á skýrslum um grænt bókhald. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri umsögn útgefanda starfsleyfis, en hins vegar að Hollustuvernd annist gerð leiðbeininga og sjái um að birta skýrslur um grænt bókhald.
    Í 7. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er að finna heimild ráðherra til að veita undanþágu frá einstökum greinum reglugerða sem settar eru skv. 4. eða 5. gr. laganna þegar sérstaklega stendur á og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti með þessum hætti veitt fyrirtækjum undanþágu frá skyldu til að færa grænt bókhald.
    Auk þessa eru lagðar til þrjár breytingar á lögunum í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd þeirra undanfarin ár. Hér er um að ræða 4., 5. og 6. gr. frumvarpsins sem varða hæfisskilyrði framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits, staðgengil forstjóra Hollustuverndar ríkisins og beitingu þvingunarúrræða þegar Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlit.
    Við undirbúning frumvarps þessa hefur verið haft samráð við Hollustuvernd ríkisins, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag löggiltra endurskoðenda og Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa. Með vísun til 17. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir voru drög að frumvarpi þessu kynnt og lögð fyrir hollustuháttaráð. Umsögn ráðsins barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. febrúar 2001.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að hugtökin grænt bókhald og skýrsla um grænt bókhald verði skilgreind á sama hátt og gert er með önnur hugtök sem fjallað er um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Grænt bókhald á aðallega að sýna mælanleg áhrif viðkomandi starfsemi á umhverfið. Skilið er á milli bókhaldsins sjálfs og skýrslu um grænt bókhald á sama hátt og skilið er á milli færslu fjárhagsbókhalds og ársreiknings. Þó að orðið skýrsla sé hér notað er við það miðað að unnt verði að skila skýrslu um grænt bókhald á rafrænu formi ef tæknilegir möguleikar reynast fyrir hendi.

Um 2. gr.

    Ljóst er að útfæra þarf nánar reglur um færslu græns bókhalds, framsetningu skýrslna um grænt bókhald, upplýsingar sem þar skulu koma fram, skilafresti á skýrslum um grænt bókhald, aðila sem heimilt er að skila grænu bókhaldi án þess að þeim sé það skylt og endurskoðun þess og birtingu. Gera þarf ráð fyrir möguleika á sérstakri framsetningu til verndar upplýsingum um viðkvæm samkeppnismál. Einnig er gert ráð fyrir að það sé mismunandi eftir tegundum fyrirtækja hvaða upplýsingar er eðlilegt að fara fram á að tilgreindar verði í skýrslu um grænt bókhald. Þessi atriði verða útfærð nánar, annars vegar í reglugerð og hins vegar með leiðbeiningum, sbr. 3. gr. Haft verður samráð við hagsmunaaðila við undirbúning reglugerðarinnar.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. segir að færa skuli grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi skv. 5. gr. laganna og nánar greinir í nýju fylgiskjali með lögunum, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Fylgiskjal þetta gerir fyrst og fremst ráð fyrir að stóriðja og önnur starfsemi sem telst umfangsmikil og fellur m.a. undir tilskipun 96/61/EB um samþættar mengunarvarnir, sbr. og I. viðauka í reglugerð um mengunarvarnaeftirlit, nr. 786/1999, færi grænt bókhald.
    Í 2. mgr. eru tilgreindar í meginatriðum þær upplýsingar sem fram skulu koma í grænu bókhaldi. Hlutverk græns bókhalds er að sýna hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi. Með grænu bókhaldi er ekki lögð skylda á bókhaldsskylda aðila að framkvæma frekari mælingar en skylt er samkvæmt starfsleyfi og viðeigandi reglugerðum sem settar eru skv. 4. tölul. 5. gr. laganna. Nánari reglur um upplýsingar sem færa skal í grænu bókhaldi verða settar með reglugerð, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Í 2. mgr. kemur einnig fram að með grænu bókhaldi er ekki ætlunin að krefja fyrirtæki um að birta upplýsingar um framleiðsluleyndarmál. Hafi útgefandi starfsleyfis athugasemdir við framsetningu starfsleyfishafa þarf að tilkynna starfsleyfishafa um það. Slík ákvörðun er jafnframt kæranleg samkvæmt stjórnsýslulögum.
    Í 3. mgr. segir að starfsleyfishafi beri ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald. Jafnframt er kveðið á um endurskoðun græns bókhalds. Í málsgreininni segir að skýrsla um grænt bókhald skuli endurskoðuð á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja. Með þessu, útgáfu reglugerðar og leiðbeininga er leitast við að tryggja áreiðanleika þeirra upplýsinga sem tilgreina skal í skýrslu um grænt bókhald.
    Í 4. mgr. kemur fram að skýrslum um grænt bókhald skuli skilað til útgefanda starfsleyfis. Hann skal kanna hvort skýrslan fullnægi þeim formkröfum sem gerðar eru til skýrslna um grænt bókhald. Þegar útgefandi starfsleyfis er heilbrigðisnefnd skal hún senda skýrsluna áfram til Hollustuverndar ríkisins sem annast birtingu hennar. Rétt þykir að tengja grænt bókhald starfsleyfi með þessum hætti þannig að útgefandi starfsleyfis hafi aðgang að þessum upplýsingum og geti fylgt því eftir að skýrslum sé skilað.
    Í 5. mgr. kemur fram að gert er ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins annist birtingu skýrslna um grænt bókhald og gerð leiðbeininga um grænt bókhald. Stofnunin mun semja leiðbeiningarnar í samráði við hagsmunaaðila eins og venja er.

Um 4. gr.

    Þau sjónarmið hafa komið fram að á heilbrigðiseftirlitssvæðum þar sem heilbrigðiseftirlit er umfangsmikið og starf framkvæmdastjóra er fyrst og fremst stjórnunarstarf sé eðlilegt að gerð sé krafa um að framkvæmdastjóri fullnægi sambærilegum hæfisskilyrðum og forstjóri Hollustuverndar ríkisins. Ekki sé því gerð undantekningarlaus krafa um að framkvæmdastjóri hafi réttindi sem heilbrigðisfulltrúi. Ljóst er að þar sem framkvæmdastjóri hefur ekki réttindi sem heilbrigðisfulltrúi verða stjórnunarheimildir hans að vissu leyti takmarkaðar, sbr. t.d. 26. gr. laganna þar sem fram kemur að heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi geti beitt þvingunarúrræðum laganna. Því er lagt til að heimild þessi eigi eingöngu við þar sem um verulega stjórnun er að ræða og þar sem fjöldi heilbrigðisfulltrúa er nægilegur til að framkvæmdastjóri þurfi ekki að sinna heilbrigðisfulltrúastörfum þannig að á slíkar takmarkanir reyni.

Um 5. gr.

    Í lokamálslið 2. mgr. 20. gr. segir að einn forstöðumanna Hollustuverndar ríkisins skuli gegna starfi staðgengils forstjóra. Litið er svo á að það sé hlutverk forstjóra að ákveða hver skuli gegna hlutverki staðgengils hans.

Um 6. gr.

    Hér er lögð til lítils háttar breyting á 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna til að taka af tvímæli um túlkun ákvæðisins. Lagt er til að orðinu „stofnunarinnar“ verði bætt inn í ákvæðið. Nauðsynlegt er að ákvæði um íþyngjandi ráðstafanir séu skýr. Ekki er talið að um efnisbreytingu sé að ræða.

Um 7. gr.

    Í greininni er bráðabirgðaákvæði um fyrsta bókhaldsár græns bókhalds. Þar sem viðurkennd umhverfisstjórnunarkerfi fela m.a. í sér þá grundvallarþætti sem gert er ráð fyrir að grænt bókhald feli í sér þykir eðlilegt að græna bókhaldið sé vottað um leið og umhverfisstjórnunarkerfið er vottað. Slík kerfi fela í sér mun fleiri þætti en grænt bókhald og eru umfangsmeiri. Þykir nauðsynlegt að gefa fyrirtækjum sem hyggjast taka upp slík kerfi svigrúm til þess að samþætta grænt bókhald og umhverfisstjórnunarkerfi en æskilegt þykir að sem flest fyrirtæki taki slík kerfi upp.

Um 8. gr.

    Sjá athugasemdir um 3. gr.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta kveður á um nýmæli í íslenskri löggjöf og er tilgangur þess að leiða betur í ljós hvernig umhverfismálum er háttað í starfsemi sem fellur undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Rekstraraðilum sem undir lögin falla yrði skylt að halda sérstakt bókhald, svokallað grænt bókhald sem innihéldi m.a. tölulegar upplýsingar um orku- og efnisnotkun starfseminnar og helstu tegundir og magn mengandi efna sem til verða við starfsemina. Upp úr slíku bókhaldi yrðu síðan unnin árleg endurskoðunarskyld efnisuppgjör, líkt og hefðbundin fjárhagsuppgjör sem unnin eru úr fjárhagslegu bókhaldi.
    Eftir er að semja reglugerð og nánari leiðbeiningar um tilhögun og innihald bókhaldsins, þar á meðal nákvæmlega hvaða upplýsingar skuli færðar í það og hvernig. Í umhverfisráðuneytinu hefur verið tekin saman áætlun um kostnað ríkissjóðs, við upptöku og eftirlit græns bókhalds. Sú áætlun gerir ráð fyrir 6,5 m.kr. upphafskostnaði sem felst í samningu reglugerðar, gerð nákvæmra leiðbeininga um tilhögun bókhaldsins og hugbúnaðar til rafrænna skila. Þá er og gert ráð fyrir 1 m.kr. árlegum kostnaðarauka Hollustuverndar ríkisins við eftirlit og umsjón frá og með árinu 2003.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs við innleiðingu græns bókhalds verði 6,5 m.kr., auk 1 m.kr. árlegs rekstrarkostnaðar frá og með árinu 2003. Auk kostnaðar ríkissjóðs má ætla að kostnaður komi til með að falla á heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, en líkast til verður ekki um verulegan kostnað að ræða þar. Kostnaður atvinnulífsins við færslu græns bókhalds og aðkeypta þjónustu löggiltra endurskoðenda verður að líkindum talsvert meiri.