Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1045  —  667. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    4. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Skólanefnd gerir tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi.

2. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir honum faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.

3. gr.

    2. mgr. 24. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
    Starfstími nemenda í grunnskóla skal á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Kennsludagar skulu ekki vera færri en 170.

5. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Í grunnskóla skal miðað við að jólaleyfi nemenda sé frá og með 21. desember til og með 3. janúar og páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði í skólanámskrá, enda sé þess gætt að hvíldartími nemenda sé ekki skertur á skólaárinu.

6. gr.

    2. mgr. 36. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í íslensku í 4. og 7. bekk. Jafnframt er heimilt að veita nemendum með annað móðurmál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í stærðfræði í 4. og 7. bekk hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagðar til breytingar á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum. Óskaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því við menntamálaráðherra með bréfi, dags. 14. og 29. mars 2001, að hann beitti sér fyrir breytingu á grunnskólalögunum í samræmi við sameiginlegar tillögur launanefndar sveitarfélaga, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands, dags. 13. mars 2001, í tengslum við nýgerðan kjarasamning sveitarfélaganna og Kennarasambands Íslands.
    Helstu nýmæli þessa frumvarps eru eftirfarandi:
     1.      Ákvæði er lúta að umboði skólastjóra og ábyrgð gagnvart sveitarstjórn á starfsemi grunnskóla eru gerð skýrari.
     2.      Í stað afdráttarlauss ákvæðis um að starfstími grunnskóla sé níu mánuðir á ári verði kveðið á um níu mánaða lágmarksstarfstíma nemenda á hverju skólaári.
     3.      Heimilað verði að víkja frá ákvæðum um lögbundnar dagsetningar jóla- og páskaleyfa nemenda sem eru frá og með 21. desember til og með 3. janúar og páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Ef vikið verður frá þessum dagsetningum ber að kveða á um slíkt í skólanámskrá og er við slík frávik ekki heimilt að skerða lögboðinn hvíldartíma nemenda á skólaárinu.
     4.      Heimilað verði að veita nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í íslensku í 4. og 7. bekk og undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í stærðfræði í 4. og 7. bekk hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár. Samkvæmt núgildandi lögum er einungis heimilt að veita nemendum með annað tungumál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt lokapróf í íslensku, en þau próf eru nú orðin valfrjáls og er því núgildandi undanþáguheimild vegna samræmdra lokaprófa í íslensku óþörf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með breytingu þessari er lagt til að tvímæli um rétt skólanefndar að gera tillögur til skólastjóra eða eftir atvikum sveitarstjórnar um úrbætur í skólastarfi. Er þessi breyting í samræmi við ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga, launanefndar sveitarfélaga, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að tekin verði af tvímæli um ábyrgð sveitarstjórnar á starfseminni og að staða og umboð skólastjóra verði skilgreint með skýrum hætti. Er þessi breyting í samræmi við ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga, launanefndar sveitarfélaga, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að heimildarákvæði fyrir skólastjóra til þess að fela kennara árgangastjórn, fagstjórn og leiðsögn nýliða falli brott. Telur Samband íslenskra sveitarfélaga að forsendur fyrir þessu lagaákvæði séu brostnar með nýjum kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands og að óeðlilegt sé að þessum málum sé skipað með lögum.
    Við yfirfærslu reksturs grunnskólans til sveitarfélaganna var miðað við að sveitarfélög héldu a.m.k. uppi svipuðu umfangi þessara starfa og verið hafði fyrir yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga. Hefur Samband íslenskra sveitarfélaga staðfest að í nýgerðum kjarasamningi aðila sé tryggt að þessum störfum verði sinnt svo sem verið hefur. Árganga- og fagstjórn sé hluti af verkstjórnartíma skólastjóra og leiðsögn nýliða sé hluti af faglegum störfum kennara. Af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið upplýst að í fyrirhugaðri „Handbók“ sem samningsaðilar hyggjast gefa út standi: „Nauðsynlegt er að styðja sérstaklega nýja kennara í starfi. Það er skylda skólans að taka vel á móti nýjum kennurum og setja þá inn í starfið. Mikilvægt er því að skólar komi sér upp skipulögðu kerfi við móttöku nýliða. Nýliðum skal tryggð leiðsögn hjá reyndum kennara.“

Um 4. gr.


    Breyting sú sem Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til að gerð verði á 1. mgr. 26. gr. grunnskólalaga felur það í sér að í stað orðalags greinarinnar um að starfstími grunnskóla skuli vera níu mánuðir verði kveðið á um níu mánaða lágmarksstarfstíma nemenda í grunnskólum. Þessi breyting á 1. mgr. 26. gr. felur ekki í sér breytingu á lágmarksréttindum nemenda til kennslu, þ.e. að kennsludagar skuli eigi vera færri en 170, og lágmarkskennslustundafjölda nemenda á viku sem hver nemandi á rétt á í einstökum námsgreinum skv. 27. gr. grunnskólalaganna.
    Í greinargerð launanefndar sveitarfélaga, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands með tillögum um breyting á 1. mgr. 26. gr. grunnskólalaga segir: „Launanefnd sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands hafa með kjarasamningi ákveðið að skóladagar nemenda skuli vera 180 dagar. Sveitarfélögin hafa með þessum kjarasamningi sett markið hærra en lögin gera ráð fyrir en orðalag lagagreinarinar á ekki að hindra þá eflingu skólastafs sem launanefnd sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands hafa komið sér saman um.“ Þá segir enn fremur í greinargerðinni: „Skóladögum verði fjölgað um tíu og 180 skóladagar nemenda skulu rúmast á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Tilgangurinn með fleiri skóladögum er fyrst og fremst sá að auka fjölbreytni skólastarfsins, t.d. til að fylgja eftir nýrri aðalnámskrá, en líka til að gefa skólum tækifæri til að laga skólastarfið enn frekar að þörfum skólasamfélagsins og síbreytilegum og auknum kröfum þess þjóðfélags sem við lifum í. Einnig er þörf á að fjölga skóladögunum vegna þess að 170 lögbundnir dagar rúma ekki þá starfsemi sem skólarnir bjóða uppá.“ Óskaði menntamálaráðuneytið eftir nánari greinargerð um þessa lengingu skólaársins: „Í bréfi ráðuneytisins dags. 27. mars sl. er spurst fyrir um hvernig þeir 10 viðbótarskóladagar sem kjarasamningurinn kveður á um geti verið notaðir. Samningsaðilar hafa sameiginlega svarað opinberlega fyrirspurn sama efnis með eftirfarandi hætti: „10 viðbótardagar eru skóladagar nemenda, sem eiga að nýtast til að auka fjölbreytni skólastarfs. Þeir eru þó ekki endilega bundnir við hefðbundna kennslu heldur getur skólinn ákveðið í skóladagatali að þeir verði notaðir t.d. undir jólatrésskemmtun, foreldraviðtöl eða annað óhefðbundið skólastarf ef sveitarstjórnin samþykkir þá tilhögun með staðfestingu á skóladagatali.““

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að heimilað verði að víkja frá ákvæðum um lögbundnar dagsetningar jóla- og páskaleyfa nemenda sem eru frá og með 21. desember til og með 3. janúar og frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Verði kveðið á um slíkt í skólanámskrá og hvíldartími nemenda á skólaárinu ekki skertur. Er þessi tillaga að breytingu í samræmi við óskir Sambands íslenskra sveitarfélaga en um þetta efni segir í bréfi sambandsins, dags. 29. mars 2001: „Með nýjum kjarasamningi er frelsi skóla til að hagræða skólastarfi aukið verulega. Skóli getur hafist 20. ágúst og staðið til 10. maí. Skóladagar verða þó aldrei fleiri en 180 á hverju skólaári. Skólum er með þessu skipulagi gefinn kostur á að taka upp vetrarfrí eins og tíðkast í nálægum löndum. Vegna aukins sveigjanleika í skólastarfi er talið æskilegt að geta vikið frá lögbundnu upphafi og lokum jóla- og páskafría. Þegar t.d. 21. desember ber upp á föstudag getur verið hagkvæmt í starfi skólans að ljúka fullri vinnuviku nemenda án þess þó að skólaárið sé lengt. Ákvörðun um slíka breytingu verður að koma fram á skóladagatali sem fjallað er um af kennurum skólans, það borið undir foreldraráð og að lokum staðfest af skólanefnd í umboði sveitarstjórnar.“
    Í hverjum skóla skal árlega gefa út skólanámskrá sem unnin er af kennurum skólans og er skólastjóri ábyrgur fyrir gerð hennar, sbr. 31. gr. grunnskólalaga. Skólanámskrá ber að leggja fyrir skólanefnd og foreldraráð til umsagnar ár hvert. Skólanámskrá er starfsáætlun skóla, þar sem m.a. er gerð grein fyrir skólatíma, skóladagatali, kennsluskipan, markmiðum og inntaki náms, námsmati, mati á skólastarfi, slysavörnum, félagslífi í skólanum og öðru því sem varðar starfsemi skólans.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að heimilað verði að veita nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í íslensku í 4. og 7. bekk og undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í stærðfræði í 4. og 7. bekk hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár. Samkvæmt núgildandi lögum er einungis heimilt að veita nemendum með annað tungumál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt lokapróf í íslensku. Samræmd lokapróf úr grunnskóla eru nú orðin valfrjáls og er því núgildandi undanþáguheimild vegna lokaprófa í íslensku óþörf.
    Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að fyrir hendi sé heimild í lögum til þess að veita nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku undanþágu frá samræmdum prófum í 4. og 7. bekk. hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum nr. 66/1995,
um grunnskóla, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á ákvæðum er lúta að stjórnun grunnskóla, starfstíma þeirra og samræmdum prófum sem lögð eru fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku.
    Sveitarfélög kosta rekstur grunnskóla en ríkið útgáfu námsbóka vegna kennslu samkvæmt aðalnámskrá ásamt gerð og yfirferð samræmdra prófa. Að mati fjármálaráðuneytisins felur frumvarpið ekki í sér breytingu á útgjöldum ríkisins og að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga leiðir það ekki til aukins kostnaðar.