Ferill 676. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1055  —  676. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir gegn ofbeldi.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.

    
    Alþingi ályktar að skorin verði upp herör gegn ofbeldi á götum úti og innbrotum á höfuðborgarsvæðinu, fyrst og fremst með eflingu löggæslu og bættum réttarúrræðum. Settur verði á fót starfshópur á vegum dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra sem meti stöðu þessara mála og móti tillögur til úrbóta.

Greinargerð.

    Órækur vitnisburður er um að ofbeldi og innbrot á höfuðborgarsvæðinu séu komin á annað og alvarlegra stig en var fyrir tiltölulega fáum árum. Telja margir borgarbúar að þeir geti ekki lengur gengið um borgina að kvöld- og næturlagi án þess að eiga á hættu að verða fyrir tilefnislausum árásum. Foreldrar hafa vaxandi áhyggjur af börnum sínum sem náð hafa lögaldri og sækja skemmtistaði eða eru af öðrum ástæðum á ferð að kvöld- og næturlagi. Þá eru innbrot í heimahús og bíla orðin tíð og valda oft miklu tjóni og vekja óhug meðal almennings.
    Flest bendir til þess að samhliða breyttu borgarsamfélagi og auknu og harkalegra ofbeldi hafi löggæsla ekki fylgt þróuninni og sé bæði of fámenn og aðbúnaður löggæslufólksins ekki fullnægjandi.
    Nauðsynlegt er að stemma stigu við þessu ástandi áður en það verður landlægt og hluti af því borgarlífi sem nú er að mótast á höfuðborgarsvæðinu. Því er lagt til að dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra setji á fót starfshóp sem meti stöðu þessara mála og móti tillögur í framhaldi af því. Leitað verði eftir mikilli samvinnu við sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu og aðra þá aðila sem best þekkja til svo komast megi að rótum vandans. Jafnhliða slíkri undirbúningsvinnu verði löggæsla efld á höfuðborgarsvæðinu.