Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1127  —  505. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um hönnunarrétt.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti og Borghildi Erlingsdóttur frá Einkaleyfastofunni. Umsagnir bárust um málið frá Landssambandi hugvitsmanna, SVESI Samtökum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, og Samtökum iðnaðarins. Ekki bárust fleiri umsagnir þrátt fyrir að frumvarpið væri sent út til á annan tug aðila.
    Frumvarpinu er ætlað að laga íslenska löggjöf um hönnunarrétt að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um lögvernd hönnunar, nr. 98/71/EB, og jafnframt að lögleiða ákvæði sem gera ráð fyrir aðild Íslands að Genfarsamningnum frá 2. júlí 1999 um breytingu á Haag- samningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að íslensk löggjöf á þessu sviði verði samræmd sams konar löggjöf annars staðar á Norðurlöndum.
    Frumvarpið er ekki mjög frábrugðið gildandi lögum um hönnunarvernd þó svo að með því sé lagt til að sett verði ný heildarlög um hönnun og rétt á henni. Þetta stafar af því að í gildandi lög um hönnunarvernd var þegar búið að taka ýmis ákvæði EB-tilskipunarinnar. Helstu efnisbreytingar frumvarpsins eru þær að ekki er lengur gert ráð fyrir óskráðri hönnunarvernd og að unnt verður að sækja um alþjóðlega skráningu hönnunar hér á landi að því tilskildu að Ísland gerist aðili að Genfarsamningnum frá 2. júlí 1999 um breytingu á Haag-samningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar. Nefndin bendir á að þó svo að ákvæði núgildandi laga um óskráða hönnunarvernd falli brott samkvæmt frumvarpinu verður áfram fyrir hendi vernd á óskráðum hugverkum samkvæmt ákvæðum höfundalaga og samkeppnislaga. Nefndin ítrekar jafnframt að frumvarpið tekur eingöngu til vöru í efnislegum skilningi.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í fyrsta lagi leggur nefndin til að 1. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að talað verði um einkarétt á hönnun í stað einkaréttar til hönnunar. Sú breyting er málfarsleg en ekki efnisleg.
     2.      Í öðru lagi leggur nefndin til að við tilvísun í Genfarsamninginn frá 2. júlí 1999 um breytingu á Haag-samningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar í 54. og 60. gr. frumvarpsins verði bætt orðunum „á sviði iðnaðar“, en heiti samningsins misritaðist við vinnslu frumvarpsins. Nefndin leggur jafnframt til orðalagsbreytingu á 60. gr. frumvarpsins og að í stað þess að sérstaklega sé tilgreint að iðnaðarráðherra skuli birta auglýsingu um aðild Íslands að Genfarsamningnum verði látið nægja að tilgreina „ráðherra“, sem getur þá jafnt verið utanríkisráðherra sem iðnaðarráðherra.
     3.      Þá leggur nefndin til að heiti frumvarpsins verði breytt þannig að það verði að frumvarpi til laga um hönnun. Þetta er til samræmis við heiti annarra laga á sviði hugverkaréttar, svo sem lög um vörumerki og lög um einkaleyfi. Þá er breytingin til samræmis við hugtakanotkun í frumvarpinu sjálfu, en þar er einkum talað um hönnun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 24. apríl 2001.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Drífa Hjartardóttir.



Svanfríður Jónasdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Pétur H. Blöndal.



Ólafía Ingólfsdóttir.


Árni Steinar Jóhannsson.


Árni R. Árnason.