Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1166  —  562. mál.




Svar


heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um eingreiðslur tekjutryggingar.

    Hinn 1. apríl sl. greiddi Tryggingastofnun ríkisins út leiðrétta tekjutryggingu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í samræmi við lög nr. 3/2001 sem breyttu 17. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Þessi lagabreyting var gerð í kjölfar dóms Hæstaréttar í svokölluðu öryrkjamáli.
    Hér er um að ræða endurreikning tekjutryggingar fyrir tímabilið 1. janúar 1997 – 31. desember 2000 og fara hér á eftir nánari útskýringar á því hvað breytingar þessar fela í sér, hvaða reglur gilda um útreikning, hvernig brugðist hefur verið við þeim af hálfu Tryggingastofnunar o.fl.
    
Hvað er verið að greiða?
    Greidd er tekjutrygging ásamt 5,5% vöxtum auk orlofs- og desemberuppbótar. Til frádráttar koma greiðslur tekjutryggingar og orlofs- og desemberuppbóta sem þegar hafa verið greiddar á árunum 1997–2000. Tryggt er að greiðslur lækka ekki í kjölfar endurreiknings.
    Greiðslur þessar eru skattskyldar, þ.e. bæði tekjutrygging og vextir. Staðgreiðsla skatta er hins vegar einungis dregin af fjárhæðum tekjutryggingar og orlofs- og desemberuppbóta. Vextir af þessum fjárhæðum koma hins vegar til skattlagningar við álagningu opinberra gjalda á næsta ári.
    Í tengslum við þessar leiðréttingar nú sendir Tryggingastofnun viðkomandi lífeyrisþegum greiðsluseðil og sérstakt yfirlit þar sem fram koma mánaðarlegar greiðslur eins og þær voru á tímabilinu, hver rétturinn er nú samkvæmt lagabreytingunni, fjárhæð mismunar þeirra greiðslna og vextir af síðastnefndu fjárhæðinni til 1. apríl nk. Leiðrétting fyrir allt tímabilið auk vaxta er tilgreind neðst á yfirlitinu. Þar koma fram brúttótölur, þ.e. heildargreiðsla fyrir staðgreiðslu skatta.

Hverjir geta fengið greiðslu?
    Þeir sem metnir hafa verið til 75% örorku á tímabilinu 1. janúar 1997 – 31.desember 2000 eða hluta þess tímabils. Einungis þeir sem hafa verið í hjónabandi eða skráðri óvígðri sambúð á þessu tímabili eða hluta þess fá greiðslu að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Eftirlifandi makar og aðrir erfingjar þeirra lífeyrisþega sem hafa látist á árunum 1997–2000 og hafa átt rétt á hærri greiðslum á tímabilinu fá sent bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um bankareikninga viðkomandi til að unnt verði að inna greiðsluna af hendi.

Hvaða reglur gilda um greiðslur?
    Um er að ræða fjögurra ára tímabil en ekki gilda sömu reglur fyrir árin 1997 og 1998 annars vegar og 1999 og 2000 hins vegar. Skal vikið stuttlega að þeim reglum sem gilda á hvoru tímabili fyrir sig.
    Á árunum 1997 og 1998 hafa tekjur maka örorkulífeyrisþega engin áhrif á greiðslur tekjutryggingar lífeyrisþegans.
    Á árunum 1999 og 2000 eru öryrkjum tryggðar lágmarkstekjur að upphæð 25.000 kr. á mánuði, auk grunnlífeyris. Ekki er verið að greiða tekjutryggingu að lágmarki 25.000 kr. á mánuði heldur er tekjutryggingunni ætlað að bæta upp það sem á vantar að aðrar tekjur lífeyrisþegans, utan grunnlífeyris, nái þeirri fjárhæð. Samanlögð eigin tekjuöflun örorkulífeyrisþega og tekjutrygging hans verða þannig aldrei lægri en 25.000 kr. á mánuði, auk grunnlífeyris. Tveir þriðju hlutar tekna öryrkjans hafa áhrif á hina nýju reglu. Sem dæmi má nefna örorkulífeyrisþega sem fær 30.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði og eru það einu tekjur hans. Tveir þriðju af 30.000 kr. eru 20.000 kr. Til að ná 25.000 kr. lágmarkinu fær hann greidda tekjutryggingu sem svarar mismuninum á 20.000 kr. og 25.000 kr., þ.e. 5.000 kr.

     1.      Hver er heildarupphæð eingreiðslna (tekjutrygging auk vaxta) samkvæmt bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 3/2001, um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/ 1993, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir 1. apríl nk.?
    Heildarfjárhæð eingreiðslna fyrir árin 1997–2000 nemur alls 1.294.670.269 kr., þar af vextir 180.081.673 kr. Af fyrrgreindri fjárhæð fara 418.533.718 kr. í staðgreiðslu skatta. Nettógreiðsla nemur því 876.136.551 kr.

     2.      Hversu mörg heimili fá eingreiðslur?
    
Alls fá 3.937 einstaklingar greidda eingreiðslu.
    Af þessum 3.937 einstaklingum eru 2.982 konur og 955 karlar.
    Taflan sýnir aldursdreifingu þeirra sem fengu eingreiðslu.

Aldur

Fjöldi

20–29 ára     103
30–39 ára     427
40–49 ára          743
50–59 ára     935
yfir 60 ára 1.729

     3.      Hversu háar eru eingreiðslurnar að meðaltali?
    Að meðaltali nemur eingreiðslan 328.847 kr. en 222.539 kr. eftir staðgreiðslu skatta.
    Heildarfjárhæð fyrir tímabilið 1997 og 1998 nemur 1.007.658.605 kr. og heildarfjárhæð tímabilsins 1999 og 2000 nemur 287.011.664 kr.
    Hæstu greiðslur námu rétt tæplega 1,5 millj. kr. en alls fengu 69 einstaklingar eingreiðslu að upphæð 1.400.000 kr. eða meira. Eingreiðslu að upphæð 1.000.000 kr. og hærri fengu 273 einstaklingar.

     4.      Hvernig dreifast eingreiðslurnar að fjölda til eftir upphæð þeirra og mánaðartekjum (viðmiðunartekjum) hjóna/sambýlisfólks? Eingreiðslunum verði skipt í: undir 250.000 kr., 250.000–500.000 kr., 500.000–750.000 kr., 750.000–1.000.000 kr., 1.000.000– 1.250.000 kr., 1.250.000–1.500.000 kr., yfir 1.500.000 kr. Mánaðartekjum (viðmiðunartekjum) hjóna/sambýlisfólks verði skipt í: undir 100.000 kr., 100.000–150.000 kr., 150.000–200.000 kr., 200.000–300.000 kr., 300.000–400.000 kr., 400.000–500.000 kr., yfir 500.000 kr. Með mánaðartekjum (viðmiðunartekjum) er átt við síðustu þekktar viðmiðunartekjur.
    Taflan sýnir dreifingu eingreiðslna skipt eftir upphæð greiðslnanna, fjölda greiðsluþega og viðmiðunartekjum þeirra, fjárhæðir í þús. kr.

Fjöldi greiðsluþega skipt eftir samanlögðum
viðmiðunartekjum hjóna/sambýlisfólks
Upphæð eingreiðslu Tekjur undir 100 Tekjur 100–150 Tekjur 150–200 Tekjur 200–250 Tekjur 250–300 Tekjur 300–400 Tekjur 400–500 Tekjur yfir 500 Fjöldi samtals
0–250 999 310 289 200 148 144 69 27 2.195
250–500 263 147 147 88 62 65 32 15 819
500–750 106 44 73 48 53 52 19 15 410
750–1.000 60 17 36 34 32 36 8 13 236
1.000–1.250 38 7 10 34 13 26 8 3 139
1.250–1.500 54 0 1 14 18 27 13 11 138
Samtals 1.520 525 565 418 326 350 149 84 3.937

     5.      Hverjar eru samtals eingreiðslur í hverjum hóp skv. 4. lið?
            
Taflan sýnir skiptingu greiðslna eftir fjárhæðum og fjölda einstaklinga.
            
Eingreiðsla Heildargreiðslur Fjöldi
0–250.000 197.419.139 2.195
250.000–500.000 297.520.482 819
500.000–750.000 248.278.658 410
750.000–1.000.000 202.872.373 236
1.000.000–1.250.000 156.904.777 139
1.250.000–1.500.000 191.674.840 138
Samtals 1.294.670.269 3.937

     6.      Hvað er talið að eingreiðslur hefðu hækkað mikið að jafnaði ef ákveðið hefði verið að greiða tekjutryggingu allt aftur til gildistöku laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, 1. janúar 1994?
    Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins mun það taka alllangan tíma að svara þessari spurningu og auk þess mundi það verða mjög dýrt í vinnslu. Upplýsingaöflun fyrir þennan lið fyrirspurnarinnar er því utan þess ramma sem þetta form býður upp á.