Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1211  —  566. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vexti og verðtryggingu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Eyvind G. Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Eirík Guðnason frá Seðlabanka Íslands, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Gunnar Viðar frá Landsbanka Íslands, Jakob R. Möller frá Lögmannafélagi Íslands, Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða og Guðmund Hauksson frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Umsagnir bárust um málið frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Samtökum atvinnulífsins, Verslunarráði Íslands, Íbúðalánasjóði, Verðbréfaþingi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, laganefnd Lögmannafélags Íslands, Neytendasamtökunum og Þjóðhagsstofnun. Einnig bárust gögn frá viðskiptaráðuneyti.
    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað núgildandi vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum. Lagðar eru til töluverðar breytingar á þeim reglum sem nú gilda og má þar helst nefna heimild til að semja um dráttarvexti í vissum tilvikum, afnám sérreglu gildandi laga um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt og að miðað verði við vexti birta af Seðlabanka þegar vaxtafótur er ekki tilgreindur í samningum aðila. Þá er lagt til að ákvæði um hæstu lögleyfða vexti verði fellt brott þar sem samningsfrelsi ríkir um vexti, auk þess sem með frumvarpinu er stefnt að því að aðilar semji í ríkari mæli um vexti sín á milli í stað þess að nota almennar viðmiðanir við vexti á markaðinum eins og nú er að miklu leyti gert. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir að vextir af skaðabótakröfum hækki, að felld verði brott ákvæði um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða og að misneytingarákvæði og ákvæði um endurgreiðslu oftekinna vaxta verði felld brott.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis að ósamræmi milli 1. og 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. þess verði lagfært, en skv. 1. málsl. er óheimilt að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta þegar um neytendalán er að ræða. 2. málsl. má hins vegar skilja sem svo að í neytendalánum sé heimilt að semja um fastan hundraðshluta dráttarvaxta. Markmið ákvæðisins er að ekki verði heimilt að semja um dráttarvexti af neytendalánum og skiptir þá ekki máli hvort um vanefndaálag eða fastan hundraðshluta dráttarvaxta er að ræða. Þetta stafar af því að ekki er talið vera jafnræði milli samningsaðila í neytendalánsviðskiptum. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til að skýrt verði tekið fram í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. að ekki sé unnt að semja um fastan hundraðshluta dráttarvaxta þegar neytendalán eru annars vegar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    2. málsl. 2. mgr. 6. gr. orðist svo: Einnig er heimilt að semja um fastan hundraðshluta dráttarvaxta, að undanskildum neytendalánum.

    Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson og Margrét Frímannsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Einar K. Guðfinnsson.



Hjálmar Árnason.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.