Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1255  —  28. mál.




Skýrsla



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um meðferðarstofnanir, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1 FORMÁLI
    Hinn 9. október sl. var samþykkt á Alþingi beiðni frá Einari K. Guðfinnssyni og fleiri þingmönnum um skýrslu um meðferðarstofnanir. Beðið var um upplýsingar um hvaða stofnanir bjóða upp á meðferð fyrir vímuefnasjúklinga, með og án framlaga frá ríkinu, hvar þessar stofnanir eru, hver rekstrargjöld þeirra eru og hvernig meðferð þær bjóða upp á.
    Hér á eftir fer lýsing á þeim meðferðarstofnunum sem ráðuneytinu tókst að afla upplýsinga um. Er það von ráðuneytisins að skýrslan gefi glögga heildarmynd af stofnunum á þessu sviði, starfsemi þeirra, fjölda stöðugilda og sérkennum. Einnig er lauslega fjallað um framlög til áfengis- og vímuvarnaráðs og tóbaksvarnanefndar.
    Ljóst er að stofnanirnar eru mjög mismunandi, allt frá áratugagömlum geðdeildum ríkisspítala til nýopnaðra vistheimila á vegum áhugasamtaka. Sumar stofnanirnar teljast til heilbrigðisstofnana, aðrar ekki.
    Aukinn fíkniefnavandi einkennir starfsemina alla og þótt þungi áfengismeðferðar sé mikill hefur hlutfall annarra fíkniefna aukist mjög.
    Vandi vímuefnaneytenda er margvíslegur, bæði líkamlegur, andlegur og félagslegur. Mismunandi úrræði henta hverjum og einum og því eru úrlausnir bæði á sviði heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálayfirvalda.
    Á undanförnum árum hefur verið reynt að sporna við þessari þróun með margvíslegum hætti. Skal þar sérstaklega bent á aukna áherslu á forvarnir, einkum meðal barna og ungmenna, stefnumótun í málefnum langveikra barna, stefnumótun í málefnum geðsjúkra og sérstaka vinnu að málefnum geðsjúkra barna, en börn og unglingar með geðræn vandamál eru einna líklegust til að lenda í glímu við áfengis- og vímuefnavanda síðar á lífsleiðinni. Þá hefur meðferðarúrræðum verið fjölgað, svo sem með nýrri unglingadeild á Vogi, komið upp bráðamóttöku á vegum barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, Barnaverndarstofu og SÁÁ, auk þess sem komið hefur verið á virku samráði þessara aðila, sérstaklega að því er varðar vandamál barna og unglinga. Þá hefur Forvarnasjóður styrkt ýmis forvarna- og meðferðarverkefni, einkum nýjungar og tilraunaverkefni á því sviði.
    Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um árangur meðferðar. Ljóst er að auka þarf áherslu á árangursmat hinna ýmsu meðferðarstofnana og meðferðarleiða til að tryggja sjúklingum sem bestan árangur og sem besta nýtingu fjárveitinga til málaflokksins.

2 YFIRLIT YFIR STOFNANIR
    Í skýrslunni er leitast við að gefa yfirlit yfir þær meðferðarstofnanir sem sjá um vímuvarnir og bráða- og eftirmeðferð vímuefnasjúklinga með beinum eða óbeinum stuðningi hins opinbera. Jafnframt er gerð grein fyrir stofnunum sem sinna sambærilegum verkefnum án stuðnings hins opinbera.
    Þar sem flestar stofnanir fá einhvern stuðning frá hinu opinbera er annars vegar miðað við stofnanir sem fá úthlutað fjármagni í A-hluta fjárlaga og hins vegar stofnanir sem eru ekki tilgreindar sérstaklega í fjárlögum.
    Barnaverndarstofa gegnir veigamiklu starfi við meðferð ungra vímuefnafíkla og er því einnig stuttlega gerð grein fyrir meðferðarheimilum á vegum hennar.

2.1 Stofnanir á fjárlögum.
2.1.1 Landspítalinn – háskólasjúkrahús.
Landspítali við Hringbraut.
    Meðferð við ávana- og fíkniefnanotkun hefur í marga áratugi verið snar þáttur í starfsemi geðdeilda ríkisspítalanna. Skyldur ríkissjúkrahúss eru margþættar og felast meðal annars í því að taka við sjúklingum að beiðni lækna og lögreglu hvenær sem fram á það er farið. Hlutfall geðsjúkra fíkniefnaneytenda hlýtur því ávallt að vera hærra á slíkum deildum en hjá öðrum stofnunum sem ekki hafa sambærilegar skyldur.
    Á Kleppsspítala var rekin göngudeild fyrir áfengissjúklinga en árið 1979 var tekin í notkun ný göngudeild fyrir áfengissjúklinga á nýrri geðdeild Landspítalans. Fluttist þá starfsemin úr húsnæði við Flókagötu í nýtt húsnæði geðdeildarinnar.
    Geðdeild Landspítala skiptist í sex skorir, áfengis- og vímuefnaskor er ein þeirra en einnig þjónar sameiginleg skor þessum málum.
    Áfengis- og vímuefnaskor skiptist í nokkrar deildir:
          Áfengisdeildir, sameiginlegar. Hér er bókfærður kostnaður vegna lækna og annar sameiginlegur kostnaður, sem ekki er hægt að skipta nánar.
          Geðdeild 33A, sem er legu- og dagdeild.
          Göngudeild 32E.
          Dagdeild og sjúkrahótel Flókagötu, deildir 29 og 31. Þessi deild, sem kallast Teigur, var opnuð 1995 og tók við af deild 16 á Vífilsstöðum.
          Gunnarsholt á Rangárvöllum, sem hefur til langs tíma heyrt undir Landspítala.
          Deild 16 á Vífilsstöðum var sjúkrahótel en var lokað árið 1995.

2.1.2 SÁÁ – Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.
    Stofnfundur SÁÁ var haldinn 1. október 1977 en samtökin eru sjálfseignarstofnun sem rekur ýmsa sjúkra- og þjónustustarfsemi fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.
    Strax eftir stofnun samtakanna var opnuð skrifstofa og fræðslu- og leiðbeiningarstöð í náinni samvinnu við áfengisvarnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkurborgar. Árið 1981 fluttist skrifstofan ásamt göngudeildinni (fræðslu- og leiðbeiningarstöð) í húsnæði SÁÁ í Síðumúla 3–5 í Reykjavík.

Vogur.
    Sjúkrastöð var opnuð 7. desember 1977 í Reykjadal í Mosfellssveit. Í maí 1979 fluttist sjúkrastöðin að Silungapolli en sjúkrastöðin Vogur tók til starfa 28. desember 1983. Stöðugildi 31. desember 1999 voru 49,66.

Vík.
    Í ágúst 1978 var hafin starfræksla meðferðarheimilis SÁÁ að Sogni í Ölfusi en starfsemin var flutt í húsnæði SÁÁ að Vík á Kjalarnesi í desember 1991. Stöðugildi 31. desember 1999 voru 8,07.

Staðarfell.
    Rekstur meðferðarheimilis að Staðarfelli í Dölum hófst í nóvember 1980 og hefur verið þar síðan. Stöðugildi 31. desember 1999 voru 7,51.

Göngudeild, Reykjavík.
    Göngudeildin var stofnuð árið 1981, en áður hafði fræðslu- og leiðbeiningarstöð aðsetur að Síðumúla 3–5.

Sambýli, Reykjavík.
    Árið 1993 hóf SÁÁ rekstur sambýlis fyrir karlmenn að Miklubraut 1 og rekstur sambýlis fyrir konur að Eskihlíð 3 hófst 15. maí 1995.

Göngudeild, Akureyri.
    Í ársbyrjun 1993 hóf SÁÁ rekstur göngudeildar á Akureyri.

Áfangahúsið Fjólan, Akureyri.
    Árið 1995 festu samtökin kaup á húsi við Hrafnagilsstræti á Akureyri fyrir rekstur sambýlis fyrir karlmenn en Norðurlandsdeild SÁÁ sér um daglegan rekstur þess.

Unglingadeildir.
    Í byrjun árs 2000 hófst rekstur unglingadeildar á sjúkrahúsinu Vogi (legudeild) og nokkrum mánuðum síðar var hafin starfsemi göngudeildar sem er bæði fyrir unglinga og aðra skjólstæðinga.

2.1.3 Hlaðgerðarkot.
    Samhjálp hvítasunnumanna er kristilegt hjálparstarf fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga, stofnað 31. janúar 1973.
    Samhjálp keypti Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal af mæðrastyrksnefnd árið 1973 og hóf þar rekstur vistheimilis fyrir áfengissjúklinga. Reksturinn var greiddur með daggjöldum Tryggingastofnunar ríkisins í fjöldamörg ár en var settur á föst fjárlög ríkisins eftir að heimilið breyttist í afeitrunar- og meðferðarstöð árið 1992.
    Í Hlaðgerðarkoti er rúm fyrir 32 einstaklinga. Aðstæður þeirra sem sækja um vist eru mismunandi en oftast liggur að baki löng og ströng neysla vímuefna.
    Legudagar í Hlaðgerðarkoti eru 10–11.000 á ári. Stöðugildi 1. desember 1999 voru 10,83.
    Meðferðarstarfið byggist á 12 spora kerfi AA-samtakanna með sérstaka áherslu á trúarlegan bakgrunn kerfisins.
    Auk reksturs Hlaðgerðarkots rekur Samhjálp eftirfarandi starfsemi að Hverfisgötu 42, Reykjavík, sem ekki er á fjárlögum ráðuneytisins:
          Stoðbýli — áfangaheimili (eftirmeðferð að lokinni dvöl í Hlaðgerðarkoti).
          Göngudeild — ráðgjafarþjónusta rekin af Hlaðgerðarkoti sem eftirmeðferð fyrir þá sem hafa útskrifast þaðan.
          Kaffistofa — súpueldhús.
          Þríbúðir — félagsmiðstöð.
          Dorkas — hjálparstarf fyrir konur, systrafélag.

2.1.4 Víðines.
    Víðines, sem var stofnað af Bláa bandinu, var rekið sem vistheimili og meðferðarstofnun fyrir áfengissjúklinga. Undanfarin ár hefur stöðugt dregið úr virkri meðferð á stofnuninni og vistmenn eru flestir komnir á ellilífeyrisaldur. Því eru framlög til heimilisins ekki talin hér með.

2.1.5 Krýsuvíkursamtökin.
    Krýsuvíkursamtökin voru stofnuð árið 1986. Eiga þau og reka Krýsuvíkurskóla, sem er meðferðarstofnun fyrir vímuefnaneytendur. Þar er boðið upp á langtímameðferð fyrir fólk á aldrinum 16–60 ára af báðum kynjum í 6–24 mánuði. Hún byggist á 12 spora kerfi AA-samtakanna, með áherslu á meðferð, nám og vinnu. Markmiðið er að endurhæfa vistmenn svo að þeir nái ákveðinni lífsleikni og komist út í þjóðfélagið að nýju. Rými er fyrir 30 manns.
    Stefna stofnunarinnar er að þangað komi menn ekki inn í sína fyrstu meðferð en við innlögn er gert ráð fyrir að vistmaður hafi ákveðið að dvelja í minnst sex mánuði til meðferðar. Þessi staður er hugsaður sem úrræði fyrir þá sem ekki hefur tekist að ná árangri í styttri meðferðum. Flestir vistmenn hafa oft áður farið í meðferð og sumir hafa einhvern tíma vistast á stofnunum fyrir geðsjúka.
    Til að styrkja fjárhag stofnunarinnar hefur verið tekið á móti sænskum vistmönnum en tekjur af þeim námu árin 1997–99 27–30% af heildartekjum stofnunarinnar. Stöðugildi 1. desember 1999 voru níu.

2.2 Meðferðar-, áfanga- og gistiheimili.
    Hér er um að ræða margar stofnanir sem reknar eru á vegum ýmissa áhugasamtaka um vímuefnavandann. Þar vegur þungt kröftugt starf ýmissa trúarhreyfinga sem hafa unnið mikla sjálfboðavinnu í þágu málefnisins. Þessum stofnunum er skipt í meðferðarheimili, áfangaheimili og gistiheimili.

2.2.1 Meðferðarheimili.
    Hér er átt við heimili sem bjóða upp á meðferð með skipulagðri dagskrá. Í þennan hóp flokkast Árvellir, Byrgið og Krossgötur. Árvellir eru með vistunarsamning við Barnaverndarstofu fyrir tíu skjólstæðinga.
     Árvellir er meðferðarheimili á Kjalarnesi fyrir ungt fólk á aldrinum 15–20 ára með aðstöðu fyrir 20 skjólstæðinga. Meðferðarheimilið er rekið af Götusmiðjunni sem er í einkaeigu hjónanna Marsibilar Sæmundsdóttur og Guðmundar Týs Þórarinssonar. Þar dvelja á hverjum tíma nokkur ungmenni 16–18 ára, en samningur er milli Barnaverndastofu og Götusmiðjunnar um að vista tíu unglinga að 18 ára aldri á vegum barnaverndarnefnda. Fjölskyldu- og foreldrahópar hittast einu sinni í viku á Árvöllum. Markmið Götusmiðjunnar er að aðstoða ungt fólk, sem hefur leiðst út í fíkniefnaneyslu og afbrot, við að fóta sig og koma lífi sínu í jákvæðan farveg. Starfsemin miðar að því að hjálpa einstaklingnum að hjálpa sér sjálfur, efla og styrkja sjálfsmynd hans svo að hann geti lifað í samfélaginu og staðið á eigin fótum. Meðferðin er byggð á 12 spora kerfi AA-samtakanna. Á árinu 1999 fékk stofnunin 11 millj. kr. á fjáraukalögum frá félagsmálaráðuneytinu og 0,5 millj. kr. styrk frá Reykjavíkurborg. Stöðugildi eru 12.
     Byrgið er rekið af kristilegum samtökum og var stofnað í desember 1996. Starfsemin er þrískipt og er einn hluti hennar meðferðarheimili. Boðið er upp á meðferð í þrjá til sex mánuði en hægt er að sækja um framlengingu að þeim tíma liðnum. Vistmenn eru allir eldri en 18 ára og flestir eldri en 24 ára. Hin tvö heimilin sem Byrgið hefur rekið eru áfangaheimili þar sem vistmenn sækja sér fyrst og fremst húsaskjól. Annað var að Vesturgötu 18 í Hafnarfirði, en því var lokað í lok apríl 2000, og hitt er í Rockville á Miðnesheiði. Þar eru nú 25–30 manns í meðferð. Meðferð er byggð á 12 spora kerfi AA-samtakanna með trúarlegu ívafi. Meðferðargjöld eru 36.000 kr. á mánuði og 20.000 kr. í Rockville. Starfsemin er fjármögnuð með styrkjum frá hinu opinbera, frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Á árinu 1999 úthlutaði félagsmálaráðuneytið Byrginu 4 millj. kr. til starfseminnar. Launuð stöðugildi eru um þrjú.
     Krossgötur reka endurhæfingameðferð að Hlíðasmára 5–7 í Kópavogi fyrir unga vímuefnaneytendur á aldrinum 16–35 ára. Krossinn stofnaði meðferðarheimilið árið 1986 og var það fyrst til húsa að Álfhólsvegi 32 í Kópavogi en varð að sjálfstæðri stofnun árið 1989. Nú býður stofnunin upp á leiguhúsnæði í 20 íbúðum og geta verið þar um 40 skjólstæðingar. Lágmarksdvöl er sex mánuðir en hámark tvö ár. Mánaðarleiga (fæði og húsnæði) er 35.000 kr. fyrir einstakling en 58.000 kr. fyrir hjón. Markmiðið með starfsemi Krossgatna er að auka skilning vistmanna á eigin stöðu og hæfni þeirra til að takast á við nýtt líf án vímugjafa. Byggt er á 12 spora kerfi AA-samtakanna. Á árinu 1999 fékk stofnunin 18 millj. kr. frá félagsmálaráðuneytinu og 2 millj. kr. úr Forvarnasjóði. Stöðugildi eru fimm.

2.2.2 Áfangaheimili sem veita stuðning og ráðgjöf.
    Heimili sem bjóða upp á stuðning og ráðgjöf í einhverjum mæli eru: Takmarkið, Stoðbýli Samhjálpar, Fjólan, Dyngjan, SÁÁ við Eskihlíð og Miklubraut, Risið og Vernd.
    Öll heimilin hafa það að markmiði að hjálpa fólki sem er fjölskyldu- og heimilislaust að ná á ný fótfestu í lífinu og halda varanlegt bindindi.
     Takmarkið að Barónsstíg 13 í Reykjavík tekur á móti fólki sem er að koma úr áfengis- og vímuefnameðferð. Stofnunin fékk styrk frá Reykjavíkurborg árið 1999 að fjárhæð 1 millj. kr. og að auki 1,2 millj. kr. úr Forvarnasjóði.
     Stoðbýli Samhjálpar er áfangaheimili að Hverfisgötu 42 í Reykjavík fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga sem lokið hafa meðferð hjá Samhjálp að Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal. Þar er aðstaða fyrir 15 einstaklinga og er lágmarksdvalartími sex mánuðir. Markmið þeirrar félagslegu aðhlynningar sem veitt er í Stoðbýlinu er að gera skjólstæðingum kleift að temja sér nýja lífshætti og varanlegt bindindi á eigin ábyrgð. Jafnframt er þeim skylt að taka virkan þátt í félagsstarfinu í Þríbúðum og er það hugsað sem þáttur af eftirmeðferðarstarfi Samhjálpar. Styrkur frá Reykjavíkurborg á árinu 1999 nam 3,8 millj. kr. og úr Forvarnasjóði fékk heimilið úthlutað 1 millj. kr.
     Fjólan er áfangaheimili á Akureyri fyrir karlmenn sem eru að koma úr áfengis- og vímuefnameðferð (sjá undir SÁÁ). Úthlutun úr Forvarnasjóði á árinu 1999 nam 800.000 kr.
    Dyngjan er áfangaheimili fyrir konur, stundum með börn, sem lokið hafa áfengis- og vímuefnameðferð. Er það til húsa að Snekkjuvogi 21 í Reykjavík. Heimilið var stofnað í apríl árið 1988 af áhugakonum um vímuefnavandann. Rými er fyrir tólf skjólstæðinga og þar er eitt stöðugildi. Vistmenn greiða 34.000 kr. fyrir dvölina en þá er innifalinn allur kostnaður. Þar fyrir utan er reksturinn fjármagnaður með styrkjum frá opinberum aðilum. Reykjavíkurborg veitti styrk á árinu 1999 að fjárhæð 1 millj. kr. og úthlutun Forvarnasjóðs var 2,1 millj. kr.
    SÁÁ við Eskihlíð og Miklubraut, Reykjavík veitir áfengisfíklum félagslegan stuðning eftir áfengismeðferð eða á meðan áfengismeðferð stendur á göngudeild.
     Risið á Snorrabraut 52 í Reykjavík býður upp á hjálparstarfsemi fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga sem eru að ná sér á strik eftir meðferð á meðferðarstofnunum eða sjúkrahúsum. Stöðugildi eru tvö og rými 18. Rekstraraðili er líknarfélag (sjálfseignarstofnun).
     Vernd er áfangaheimili að Laugateigi 19 í Reykjavík sem er rekið af áhugamannafélagi í nánum tengslum við fangelsismálastofnun. Þar vistast menn sem koma úr fangelsum eftir að hafa afplánað dóm og lokið stofnanavist á afeitrunarstofnun. Fjöldi rýma er 16–19 og stöðugildin tvö.

2.2.3 Gistiheimili.
    Heimili þessi bjóða fyrst og fremst upp á athvarf eða húsaskjól án þess að veitt sé nokkur aðstoð eða ráðgjöf að öðru leyti.
     Gistiskýli Reykjavíkurborgar er rekið að Þingholtsstræti 25. Þar er um að ræða neyðarathvarf fyrir heimilislausa áfengis- og vímuefnasjúklinga og er það fjármagnað af Reykjavíkurborg. Verktaki annast reksturinn. Stöðugildi eru fjögur yfir veturinn en þrjú yfir sumarið. Á sumrin er lokað frá kl. 10.00 á morgnana til kl. 17.00 á daginn. Rými eru 15.
     Þrepið er óháð samtök áhugamanna, sjálfseignarstofnun með fimm manna stjórn. Engin formleg meðferð fer fram á vegum félagsins. Skjólstæðingar hafa húsaskjól og aðstöðu í húsnæði félagsins að Laugarásvegi 24 í Reykjavík. AA-fundir eru reglulega haldnir innan veggja Þrepsins.

2.3 Barnaverndarstofa.
    Barnaverndarstofa, sem er stofnun á vegum félagsmálaráðuneytisins, sér m.a. um vistun barna og unglinga til 18 ára aldurs sem eiga við vímuefnavandamál að stríða. Stofnunin rekur starfsemi á ýmsum stöðum um landið.
     Stuðlar starfa á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 58/1992, og reglugerðar nr. 271/1995, um meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga. Þar segir að starfrækja skuli meðferðarstöð fyrir unglinga á aldrinum 12–18 ára sem eiga við hegðunarerfiðleika og/eða vímuefnavanda að stríða. Stuðlar sinna því misleitum hópi unglinga með margvíslegan vanda.
    Á Stuðlum eru tvær deildir, lokuð deild, oft kölluð neyðarvistun, og meðferðardeild. Auk þess reka Stuðlar þriðju deildina sem er eftirmeðferð í húsnæði við Skúlagötu í Reykjavík. Stöðugildi eru 25.
    Lögregla og starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga (barnaverndarnefnda) geta vistað ungling á lokaðri deild í neyðartilvikum til skamms tíma, að hámarki 14 daga. Barnaverndarstofa getur vistað ungling á lokaðri deild eftir strok eða ofbeldishegðun sem ekki er unnt að stöðva með öðrum hætti.
    Félagsþjónusta sveitarfélaga getur sótt um pláss á meðferðardeild þegar vandinn er orðinn meiri en ráða má við með úrræðum í héraði. Starfsmaður félagsþjónustu sendir umsókn til Barnaverndarstofu, fylgir foreldrum og unglingi á kynningar- og inntökufund og fjórum til sex vikum síðar á greiningarfund. Þar er farið yfir niðurstöður og árangur meðferðar sem og tillögur um áframhald. Starfsmaður félagsþjónustu er viðstaddur útskriftarfund þegar meðferð lýkur.
    Sumir unglingar fara í langtímameðferð á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu en stór hluti fer aftur heim eftir meðferð á Stuðlum. Flestir þeirra taka þátt í vikulegri eftirmeðferð í að minnsta kosti sex mánuði.
    Barnaverndarstofa er með rekstrarsamning við eftirtaldar þrjár einkareknar meðferðarstofnanir, sem allar sérhæfa sig í vímuefnavandamálum:
     Árvelli á Kjalarnesi (sjá framar).
     Laugaland í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði, en þangað fluttist starfsemi frá Varpholti, sem hóf rekstur í byrjun júní 1997. Í Laugalandi er rými fyrir átta stúlkur og eru stöðugildin fjögur. Að auki eru einn til tveir kennarar í hlutastarfi.
    Meðferðarheimilið er rekið sem fjölskylduheimili og búa hjónin sem reka heimilið þar ásamt tveimur börnum sínum og þeim unglingum sem þar eru vistaðir hverju sinni. Við heimilið starfa auk þeirra hjóna tveir starfsmenn. Sálfræðingur starfar einnig við heimilið í hlutastarfi.
    Heimilið að Laugalandi er sérhæft meðferðarúrræði fyrir unga áfengis- og vímuefnaneytendur byggt á 12 spora kerfi AA-samtakanna.
     Meðferðarheimilið Jökuldal sem er með rými fyrir sex drengi með vímuefnavandamál. Stöðugildin eru fimm. Meðferðarheimilið var opnað í janúar 2000.
    Meðferðin er fyrir unga áfengis- og vímuefnanotendur undir lögaldri. Meðferðarrýmin eru sex og er meðferðin sniðin að þörfum ungra fíkla þar sem lögð er áhersla á fræðslu í formi fyrirlestra, einkaviðtala og hópvinnu.
    Auk framangreindra meðferðarheimila eru eftirfarandi heimili rekin á vegum Barnaverndarstofu. Þar eru einnig til meðferðar unglingar sem eiga við vímuefnavanda að stríða.
     Hvítárbakki í Borgarfirði er með sex rými fyrir skjólstæðinga og eru þar sex stöðugildi. Meðferðarheimilið hóf starfsemi í lok árs 1998. Hópurinn sem heimilið þjónar eru 13–18 ára unglingar með hegðunarerfiðleika, vímuefnavanda og afbrotahneigð.
     Háholt í Skagafirði er með sex rými fyrir skjólstæðinga. Þar er lokuð meðferð fyrir 16–18 ára mjög erfiða einstaklinga. Meðferðar- og skólaheimilið Háholt tók til starfa í janúar 1999. Fæstir koma þangað sjálfviljugir og eru því stöðugildin tiltölulega mörg, eða 11–13. Vandamál skjólstæðinganna eru af ýmsum toga en flestir hafa glímt við mikinn fíkniefnavanda, eiga langan afbrotaferil að baki og hafa beitt ofbeldi. Allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa hætt í skóla og fjölskyldutengsl eru í upplausn. Skjólstæðingur sem kemur í Háholt dvelur þar að lágmarki í hálft ár en dvölin getur orðið mun lengri. Í sumum tilfellum fara nemendur í Háholti í framhaldsmeðferð á aðrar meðferðarstofnanir, svo sem Vog, Staðarfell eða Árvelli, en koma aftur í Háholt. Þetta er gert til að auðvelda þeim að nýta það sem þeir hafa lært við nýjar aðstæður og til að öðlast frekari reynslu áður en þeir útskrifast. Skjólstæðingar hafa einnig í nokkrum tilfellum útskrifast til fjölskylduheimila á vegum Barnaverndarstofu í framhaldsmeðferð.
    Árbót/Berg. Meðferðarheimilin Árbót og Berg í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu eru samtals með rými fyrir 10 skjólstæðinga. Stöðugildin eru 12. Stofnunin er ekki fyrir unglinga með vímuefnavandamál heldur þá sem eru með geðræn vandamál. Starfsemin hófst árið 1992 og var þá sértæk lausn fyrir tvo einstaklinga en formlega tóku heimilin til starfa árið 1994 með rými fyrir fjóra skjólstæðinga.
     Geldingalækur á Rangárvöllum er meðferðarheimili fyrir yngsta aldurshópinn, þ.e. frá 5–14 ára, með aðaláherslu á börn undir 13 ára aldri. Þar eru sex rými og stöðugildi eru fjögur.
     Torfastaðir í Biskupstungum eru með fjögur stöðugildi. Allt að sex unglingar eru vistaðir á Torfastöðum hverju sinni. Flestir þeirra eiga við margvísleg vandamál að etja, svo sem hegðunarerfiðleika, skólavanda, erfiðar heimilisaðstæður og geðraskanir eða hafa verið í vímuefnaneyslu og afbrotum.

2.4 Starfsemi skipt eftir kjördæmum ásamt stöðugildum.

Kjördæmi Stöðugildi 31/12 1999 Stöðugildi alls
Reykjavík 159
    Landspítali, háskólasjúkrahús 56
        Göngudeild
        Meðferðardeild
        Dagdeild
    SÁÁ 63
        Vogur
        Göngudeild, Reykjavík
        Áfangaheimili, Miklubraut og Eskihlíð
    Barnaverndarstofa 25
        Stuðlar
    Áfanga- og gistiheimili
        Takmarkið við Barónsstíg 1
        Stoðbýli Samhjálpar og súpueldhús,         Hverfisgötu 4
        Gistiskýli Reykjavíkurborgar, Þingholtsstræti 4
        Dyngjan, Snekkjuvogi 1
        Þrepið, Laugarásvegi 1
        Risið, Snorrabraut 2
        Vernd, Laugateigi 2
Reykjanes 48
    Hlaðgerðarkot, Mosfellsdal 11
    Krýsuvíkurskóli 9
    Byrgið, Hafnarfirði 3
    Byrgið, Rockville, Miðnesheiði
    Árvellir, Kjalarnesi 12
    SÁÁ, Vík, Kjalarnesi 8
    Krossgötur, Kópavogi 5
Vesturland 14
    SÁÁ, Staðarfell á Fellsströnd 8
    Hvítárbakki í Borgarfirði 6
Norðurland vestra 12
    Háholt 12
Norðurland eystra 22
    Göngudeild SÁÁ, Akureyri 6
    Áfangahúsið Fjólan, Akureyri
    Varpholt (nú Laugaland), Eyjafirði 4
    Árbót/Berg, Aðaldal 12
Austurland 5
    Meðferðarheimilið Jökuldal, Skjöldólfsstöðum 5
Suðurland 19
    Gunnarsholt 11
    Torfastaðir í Biskupstungum 4
    Geldingalækur á Rangárvöllum 4
SAMTALS STÖÐUGILDI 279

3 FJÁRMÁL
    Úttekt á fjármálum þeirra stofnana sem eru utan fjárlaga liggur ekki fyrir. Nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins vinnur að úttekt á þessum málum en hún hefur ekki lokið störfum, m.a. vegna þess að ekki hefur tekist að safna saman nauðsynlegum rekstrarlegum upplýsingum frá þessum aðilum.
    Beðið hefur verið um upplýsingar frá tíu ára tímabili, en ekki hefur verið unnt að fá samstæðar upplýsingar þar sem hvorki liggja fyrir upplýsingar hjá ráðuneytinu né hjá viðkomandi stofnunum. Því eru aðeins veittar upplýsingar fyrir tímabilið 1993–2000 til að fá samanburðarhæfari upplýsingar og eins er starfsemin að Víðinesi tekin út úr samanburðinum vegna breyttrar starfsemi stofnunarinnar á tímabilinu.

3.1 Rekstrarútgjöld stofnana, fjárveitingar og sértekjur.
    Allar tölur eru framreiknaðar til meðalverðlags ársins 2000 eftir vísitölu samneyslu, sbr. töflu 1.

Tafla 1. Yfirlit yfir vísitölu.



Ár

Vísitala
samneyslu

1993 100,0
1994 101,8
1995 105,5
1996 111,2
1997 116,0
1998 127,0
1999 (bráðab.) 135,6
2000 (áætlun) 144,4

Heimild: Þjóðhagsstofnun mars 2001,


Þjóðarbúskapurinn Framvindan 2000 og horfur 2001, bls. 86.



    Í töflum 2–4 kemur fram rekstrarkostnaður stofnana sem eru á fjárlögum samkvæmt kafla 2.1.

Tafla 2. Launakostnaður meðferðarstofnana 1993–2000 í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 3. Annar kostnaður meðferðarstofnana 1993–2000 í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 4. Heildarkostnaður meðferðarstofnana 1993–2000 í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tafla 4 sýnir heildarkostnað meðferðarstofnana án sértekna, þ.e. samanlagðan launakostnað og annan kostnað.

Tafla 5. Sértekjur meðferðarstofnana 1993–2000 í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sértekjur Landspítala voru aðallega sala á framleiðsluvörum Gunnarsholts. Nú eru vistmenn mun yngri en áður og margir hafa verið í sterkum efnum. Því er ekki lagt eins mikið upp úr vinnu og áður í meðferðinni. Um og upp úr 1990 var mikil helluframleiðsla og framleiðsla á milliveggjaplötum en framleiðslan reyndist ekki arðbær og var henni hætt. Sértekjur Krýsuvíkurskóla eru gjöld sænskra vistmanna, en stofnunin hefur haft samning við sænskt sveitarfélag um vistun skjólstæðinga. Þessi fjárhæð nam tæpum 13 millj. kr. á árinu 1999. Þar við bætast gjafir og styrkir auk daggjalda íslenskra skjólstæðinga.

Tafla 6. Framlag heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins


til meðferðarstofnana og forvarna 1993–2000 í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Töflur 7–9 sýna skiptingu á heildarkostnaði einstakra stofnana eftir deildum. Allar tölur eru umreiknaðar til meðalverðlags ársins 2000.

Tafla 7. Kostnaður Landspítala skipt eftir deildum í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tafla 7 sýnir kostnað Landspítalans – háskólasjúkrahúss af þeim deildum sem helst fást við meðferð vímuefnasjúklinga. Kostnaður vegna þessara sjúklinga á öðrum deildum, svo sem bráðamóttöku, rannsóknardeildum o.fl., er ekki meðtalinn.
    Á árinu 1995 var starfsemin á Vífilsstöðum lögð niður og færð yfir á dagdeild og legudeild á Flókagötu 29–31, sem nú kallast Teigur. Á sameiginlegu deildina er bókfærður allur launakostnaður lækna, félagsfræðinga, sálfræðinga og læknaritara sem starfa við áfengis- og vímuefnaskor þar sem þessir starfshópar vinna á mörgum stöðum og erfitt er að deila kostnaði á viðkomandi deildir.

Tafla 8. Kostnaður SÁÁ, skipt eftir deildum í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: SÁÁ Yfirlit yfir rekstur 1990–2000.



    Hér er um að ræða kostnað SÁÁ af sjúkrahúsrekstri en kostnaður SÁÁ við aðra starfsemi er ekki meðtalinn. Undanfarin ár hefur halli sjúkrareksturs verið fjármagnaður af SÁÁ.

Tafla 9. Kostnaður annarra stofnana og útgjöld tengdra sjóða í þús. kr.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3.2 Stofnkostnaður.
    Ekki er mögulegt að finna út stofnkostnað hjá Landspítala nema kostnað við eignakaup þessara deilda þar sem þær eru hluti af stórri heild og kostnaðarhlutdeild einstakra deilda ekki þekkt. Hvað varðar aðrar stofnanir hafa þær ekki tiltækar marktækar upplýsingar um stofnkostnað sinn, m.a. vegna eðlis mismunandi samtaka (sjálfboðavinna).

3.3     Ákvarðanir um að setja stofnanir á fjárlög.
    Aðilar sem hyggjast hefja rekstur meðferðarheimila sækja um leyfi samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis sem að fenginni umsögn landlæknis og héraðslæknis tekur ákvörðun um starfsleyfi. Við mat á umsókn um starfsleyfi er tekið tillit til eðlis rekstrar, eðlis starfseminnar, fjölda starfsfólks og menntunar þess, rekstraröryggis, húsnæðis o.fl. Óski stofnunin fjárveitinga frá ráðuneyti að fengnu starfsleyfi er sótt um fjárveitingar til Alþingis á hefðbundinn hátt.
    Þegar umsvif meðferðarstofnana eru aukin er reynt að meta þörf fyrir fjölgun vistrýma eftir hefðbundnum leiðum, biðlistum o.s.frv. Ákvarðanir af þessum toga eru teknar af ráðherra.

3.4 Stöðugildi á einstökum stofnunum.

Stofnun Stöðugildi 31/12 1999

Samtals

Landspítali samtals 67
    Sameiginleg deild 20
    Legudeild 33A 23
    Göngudeild 32E 5
    Dag- og legudeild, Flókagötu 8
    Gunnarsholt 11
Hlaðgerðarkot 11
SÁÁ samtals 85
    Vogur 50
    Vík 8
    Staðarfell 8
    Göngudeild, Reykjavík 13
    Göngudeild, Akureyri 6
Krýsuvík 9
Ýmis áfanga- og meðferðarheimili 23
    Byrgið 3
    Krossgötur 5
    Dyngjan, Snekkjuvogi 1
    Takmarkið 1
    Stoðbýli Sambjálpar 1
    Súpueldhús Samhjálpar 3
    Risið 2
    Vernd 2
    Gistiskýli Reykjavíkurborgar 4
    Þrepið 1
Meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu 84
    Stuðlar 25
    Árvellir 12
    Varpholt (nú Laugaland) 4
    Meðferðarheimilið Jökuldal 5
    Hvítárbakki 6
    Háholt 12
    Árbót/Berg 12
    Geldingalækur 4
    Torfastaðir 4
Heimild: Upplýsingar frá viðkomandi rekstraraðilum. Þó er óvissa um stöðugildi hjá ýmsum áfanga- og meðferðarheimilum, m.a. vegna sjálfboðavinnu.

3.5 Kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna vímuefnameðferðar erlendis.
    Árin 1995, 1997, 1998 og 1999 fór enginn sjúklingur á vegum Tryggingastofnunar í vímuefnameðferð erlendis. Árið 1996 fór einn sjúklingur til Hazelden í Bandaríkjunum og kostaði sú meðferð 1.047.103. kr. Það sem af er árinu 2000 hefur verið samþykkt að greiða meðferð fyrir einn sjúkling á Privatklinikken Gunderuplund í Danmörku. Hver mánuður þar kostar 186.498 kr. (DKK 19.500). Samþykkt var sex mánaða meðferð sem samtals mun kosta 1.118.988 kr. Ferðakostnaður sjúklinganna er ekki meðtalinn í þessum fjárhæðum.

4     MEÐFERÐ
4.1 Sérhæfing stofnana.
    Í yfirliti yfir stofnanir kemur fram hvernig einstakar stofnanir sérhæfa sig eða leggja aðaláherslu á ákveðna hópa skjólstæðinga. Hinn almenni ferill er sá að sjúklingur, sjálfur eða með aðstoð annarra, leitar aðstoðar hjá læknum, heilsugæslustöðvum, félagsmálastofnunum, sjúkrahúsum, barnaverndarnefndum (Barnaverndarstofu), skólahjúkrun og fleiri stöðum. Eins leita sumar hjálparstofnanir sjúklinga uppi og bjóða þeim aðstoð. Meðferð hefur verið lýst í umfjöllum um hverja stofnun hér að framan.

4.2 Greining og verkferill.
    Meðferð fyrir ávana- og vímuefnasjúklinga á Íslandi má skipta í þrjá aðalflokka:
          meðferð á geðdeild með læknisfræðilegum aðferðum,
          meðferð á stofnunum sem styðjast við 12 spora kerfi AA-samtakanna, sem eru leiðbeiningar um hvernig fyrrverandi ofneytendum áfengis og annarra vímuefna sé ráðlegast að haga lífi sínu á batavegi,
          meðferð á stofnunum sem hafa kristna trú að leiðarljósi.
    Þrátt fyrir þessar mismunandi aðaláherslur skarast þær mjög því að á öllum stöðunum þarf læknisþjónustu við, a.m.k. á meðan afeitrun á sér stað, svo og hjúkrunar, félagsráðgjafar, áfengis- og vímuefnaráðgjafar, auk þess sem flestum er beint til AA-samtakanna að lokinni meðferð. Þar virðist fyrrverandi ofneytendum takast best að halda sig frá áfengi og öðrum vímuefnum.
    Telja má AA-samtökin helstu stuðningsmeðferðina fyrir þá sem hætt hafa neyslu. Einnig hafa áfangastaðir fyrir fjölskyldu- og heimilislausa fækkað afturhvörfum til neyslunnar hjá fyrrverandi ofneytendum. Alla jafna er litið á fyrstu komu sem bráðatilvik, enda mjög þýðingarmikið að ná til ofneytenda þegar þeir eru móttækilegir. Fyrstu dagana fer greining fram, enda ekki gott að tala við slíka sjúklinga fyrr en bráir af þeim. Óski fólk endurinnlagnar hafa meðferðarstöðvarnar oft þá reglu að láta sjúklinga bíða heima fáeina daga séu þeir ekki í bráðri heilsufarslegri hættu.

4.3 Meðferðartími.
    Venjulega er afeitrunartími sjö til tíu dagar. Eftir það dvelja sjúklingar þrjár til fjórar vikur á eftirmeðferðarstofnun. Þetta gildir um áfengissýki og vægari fíkniefni. Þá skiptir miklu hvort ofneytandinn er illa farinn með áralanga neyslu að baki. Sé raunin sú geta bæði þessi tímabil lengst verulega, eða allt upp í þrjá til fjóra mánuði. Þetta eru þó undantekningartilvik.
    Miklir fíkniefnaneytendur þurfa oft lengri meðferðartíma. Þá er aðallega horft til eftirmeðferðar á sérstökum stofnunum.

4.4 Árangur.
    Árangur meðferðar á hinum ýmsu meðferðarstofnunum er mjög erfitt að meta og bera saman. Skjólstæðingar stofnananna eru mjög misjafnlega á sig komnir, sumir ungir, aðrir gamlir, sumir nýlega fallnir fyrir vímuefnum, aðrir búnir að reyna flest og hafa gengið gegnum í meðferð endurtekið og á fjölda stofnana.
    Félagslegar aðstæður eru einnig mjög mismunandi, sem og líkamlegt ástand einstaklinganna. Allir þessir þættir hafa veruleg áhrif á árangur meðferðar.
    Dr. med. Kristinn Tómasson yfirlæknir birti í Læknablaðinu 1999 grein um árangur áfengismeðferðar á Íslandi 28 mánuðum eftir innlögn. Hafði hann rannsakað árangur af meðferð 361 sjúklings, sem meðhöndlaður hafði verið á deildum 16 og 33A á Landspítala og á sjúkrahúsi SÁÁ að Vogi.
    Í ljós kom að um 16% sjúklinga héldu bindindi í 28 mánuði, best gekk ungum, giftum, fullvinnandi einstaklingum án geðgreiningar, 23–28% þeirra héldu bindindi í 28 mánuði, verstur var hins vegar árangur fráskilinna síkomusjúklinga, en innan við 10% þeirra héldu 28 mánaða bindindi.
    Virðist þessi árangur svipaður og erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós.
    Í annarri rannsókn Kristins Tómassonar kemur fram að meðferðarárangur á dagdeildum er fyllilega sambærilegur við árangur af innlögn á deild.
    Ekki liggja fyrir aðrar nýlegar marktækar rannsóknir á árangri meðferðar á öðrum stofnunum.
    Sum meðferðarheimilin leggja mikla áherslu á að vistin sem slík sé árangur í sjálfu sér, þar eð einstaklingurinn njóti þar skjóls, góðs mataræðis og umönnunar í stað þess að vera á vergangi, einangraður, húsnæðislaus og jafnvel í afbrotum.
    Telja verður að aukna áherslu þurfi að leggja á árangursmat ýmissa meðferðarstofnana og meðferðarleiða svo að nýting fjármagns verði sem best og sem flestum einstaklingum til hagsbóta. Einnig er ljóst að stefna þarf áfram að því að bæta árangur meðferðar við ávana- og vímuefnanotkun.