Ferill 736. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1275  —  736. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



1. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
    Eiganda héraðsrafmagnsveitu er ár hvert heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé rafveitunnar. Ákvæði 1. málsl. nær eingöngu til héraðsrafmagnsveitu sem er alfarið í eigu sveitarfélags og starfar ekki samkvæmt sérlögum.

2. gr.

    Við 32. gr. laganna bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
    Eiganda hitaveitu er ár hvert heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé hitaveitunnar. Ákvæði 1. málsl. nær eingöngu til hitaveitu sem er alfarið í eigu sveitarfélags og starfar ekki samkvæmt sérlögum.

3. gr.

    Við 80. gr. laganna bætist nýr málsliður er hljóðar svo: Sama á við um hitaveitur og/eða rafveitur sem hafa einkaleyfi til starfsemi sem kveðið er á um í IV. og V. kafla laga þessara.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að gera starfandi raf- og hitaveitum mögulegt að breyta um rekstrarform án þess að slíkt hafi áhrif á skattalega stöðu þeirra svo og setja skýrar almennar reglur um heimildir þeirra til að áskilja sér arð eins og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
    Flest orkufyrirtæki á Íslandi eru annaðhvort í eigu ríkis eða sveitarfélaga og rekin með ótakmarkaðri ábyrgð eigenda sinna. Í 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kveðið á um að fyrirtæki sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga og rekin eru með ótakmarkaðri ábyrgð eigenda sinna greiði hvorki tekjuskatt né eignarskatt. Á grundvelli framangreinds ákvæðis laga um tekjuskatt og eignarskatt eru þessi fyrirtæki undanþegin skattskyldu. Í sérlögum um orkufyrirtæki sem eru í sameign ríkis og sveitarfélaga er að finna ákvæði um að fyrirtækin skuli undanþegin skattskyldu. Í 16. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, segir að fyrirtækið sé undanþegið tekjuskatti, eignarskatti, stimpilgjöldum vegna lána sem fyrirtækið tekur eða vegna eignaafsala til fyrirtækisins, útsvari, aðstöðugjaldi svo og öðrum gjöldum til sveitarfélaga. Í 13. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, er fyrirtækið undanþegið tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis, sýslu- og sveitarfélaga. Í 14. gr. laga nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, segir að um skyldu félagsins til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fari á sama hátt sem um skyldu sveitarfélaga er slíkan rekstur hafa með höndum auk þess sem félagið er undanþegið stimpilgjöldum. Samhljóða ákvæði var að finna í eldri lögum um fyrirtækið.
    Á næstunni verða gerðar breytingar á skipulagi raforkumála. Nýtt skipulag felur í sér að skilið er milli náttúrulegra einkasöluþátta raforkukerfisins (flutnings og dreifingar) og þeirra þátta þar sem samkeppni verður við komið (vinnslu og sölu). Með þessu er leitast við að leggja grunn að markaðsbúskap í raforkukerfinu.
    Í tengslum við breytt skipulag raforkumála hafa breytingar á rekstrarformi raforkufyrirtækja verið mjög til umræðu. Árið 1996 var skipuð sérstök viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins. Urðu eignaraðilar sammála um að fyrir 1. janúar 2004 skyldi endurskoða sameignarsamning um Landsvirkjun, meðal annars hvort ástæða væri til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun. Á 122. löggjafarþingi lagði þáverandi iðnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipan raforkumála, sem hlaut eina umræðu og afgreiðslu iðnaðarnefndar en ekki endanlega afgreiðslu. Í tillögunni var meðal annars lagt til að rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið ætti eignarhlut í yrði yfirfarið. Á undanförnum mánuðum hafa eigendur tveggja orkufyrirtækja, Hitaveitu Suðurnesja og Orkubús Vestfjarða, ákveðið að breyta rekstrarformi fyrirtækja sinna úr sameignarfélagi í hlutafélag. Þá er í viðræðum um hugsanlega sameiningu Rafmagnsveitna ríkisins og Norðurorku gengið út frá því af hálfu ríkisins að stofnað verði hlutafélag um rekstur hins sameinaða fyrirtækis í starfsumhverfi nýrra raforkulaga. Þessi fyrirtæki starfa samkvæmt sérstökum lögum sem sett hafa verið um fyrirtækin. Eigendur fleiri orkufyrirtækja hafa að undanförnu skoðað möguleika á að breyta rekstrarformi fyrirtækjanna.
    Í tengslum við breytingar á skipulagi raforkumála hefur fjármálaráðherra skipað nefnd til að gera heildarendurskoðun á skattalegu umhverfi orkufyrirtækja. Gera má ráð fyrir að breytingar á skattalegu umhverfi orkufyrirtækjanna taki gildi samhliða því að nýtt skipulag raforkumála komi til framkvæmda. Ákvæðum frumvarps þessa, ef að lögum verður, er ætlað að standa þar til þær breytingar taka gildi. Eins og áður er fram komið er ákvæði um undanþágu frá skattskyldu að finna í lögum um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja og frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Með frumvarpinu er öðrum orkufyrirtækjum gert kleift að breyta rekstrarformi sínu án þess að það hafi áhrif á skattskyldu fyrirtækjanna.
    Í 4. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, segir að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og þeim sé heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið sé í rekstri þeirra. Kom ákvæðið fram í tillögum meiri hluta félagsmálanefndar Alþingis við frumvarpið. Í nefndarálitinu segir að fjölmörg sveitarfélög reki fyrirtæki á eigin ábyrgð og hafi fyrirtækin greitt sveitarsjóðum arð þegar rekstur þeirra hafi leyft. Þessi háttur hafi t.d. verið hafður hjá fyrirtækjum borgarsjóðs í a.m.k. 60 ár og hafi gjaldskrár fyrirtækjanna, sem staðfestar hafa verið af viðkomandi ráðuneyti, tekið mið af þessu. Ótvíræða heimild til þessa hafi hins vegar hingað til vantað í löggjöf. Þá segir að í framhaldi af þessu muni m.a. þurfa að gera breytingar á orkulögum, nr. 58/1967, til þess að tryggja enn frekar heimildir sveitarfélaga til að ákveða arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaganna og rekin eru á þeirra ábyrgð. Í samræmi við þessi sjónarmið er í þessu frumvarpi lagt til að sett verði skýr almenn heimild um arðgreiðslur rafveitna og hitaveitna. Í gildandi lögum um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, og Orkubú Vestfjarða, nr. 66/1976, kemur fram að fyrirtækin skuli gæta almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár.
    Með hliðsjón af þeirri endurskoðun sem nú er unnið að varðandi skattalegt umhverfi orkufyrirtækja eru ekki lagðar til frekari breytingar á orkulögum. Við þá vinnu þarf að skoða skattalegt umhverfi þeirra sem reka einkarafstöðvar með það að markmiði að jafna aðstöðumun milli þessara aðila og orkufyrirtækja.