Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1336  —  597. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti, Elínu Líndal og Bjarna Þ. Gunnarsson frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Jón Egilsson frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Ólaf J. Gunnarsson og Rúnar Gíslason frá Stykkishólmi, Guðmund Bjarnason frá Fjarðabyggð, Sigurð V. Ásbjarnarson frá Sandgerðisbæ, Ármann Höskuldsson frá Vestmannaeyjabæ, Þorleif Eiríksson frá Bolungarvík, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur frá Náttúrustofu Reykjaness, Svein Bernódusson frá Náttúrustofu Vestfjarða, Róbert A. Stefánsson frá Náttúrustofu Vesturlands, Þorstein Sæmundsson frá Náttúrustofu Norðurlands vestra, Rögnu Ívarsdóttur frá Náttúrustofu Vesturlands, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Náttúrustofu Austurlands, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Suðurlands, Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Vesturlands, Náttúruverndarsamtökum Vesturlands, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Náttúrustofu Reykjaness, Sandgerðisbæ og Grindavíkurbæ, Náttúrufræðistofnun Íslands, forsvarsmönnum náttúrustofa, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
    Með frumvarpinu er lagt til að starfræksla náttúrustofa verði alfarið á ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem að þeim standa en með tilteknu framlagi ríkisins. Framlagið verði háð því skilyrði að sveitarfélögin leggi að lágmarki fram fjárhæð er nemur 30% af framlagi ríkisins og að jafnframt liggi fyrir samningur um viðkomandi stofu milli umhverfisráðherra og þeirra sveitarfélaga sem starfrækja náttúrustofuna. Einnig er lögð til breyting á skipan stjórnar stofanna í samræmi við breytta ábyrgð þannig að ráðherra komi hvorki að skipaninni né eigi fulltrúa í stjórn. Þá er lagt til að náttúrustofur verði ekki fleiri en átta. Einnig er í frumvarpinu lagt til að verkefni náttúrustofa verði aukin, þau skilgreind með skýrari hætti og stjórnum þeirra gefin heimild til að setja gjaldskrá fyrir tiltekin verkefni. Loks er lagt til að gjaldtökuheimild Náttúrufræðistofnunar Íslands verði skýrari og stofnuninni veitt heimild til að taka gjald fyrir tilgreinda þjónustu og verkefni sem óskað er af henni.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom m.a. fram óánægja með að ákveða í lögum að binda fjárframlag sveitarfélaganna við 30% af framlagi ríkisins. Samkvæmt upplýsingum sem meiri hlutanum hafa borist hafa framlög þeirra sveitarfélaga sem minnst hafa greitt til náttúrustofa numið um 20% af framlagi ríkisins og telur meiri hlutinn ekki rétt að hækka það framlag með þessum hætti. Meiri hlutinn lítur hins vegar svo á að nauðsynlegt sé fyrir stofurnar að sveitarfélögunum sé skylt að leggja fram ákveðið lágmarksframlag til reksturs þeirra og ítrekar því að framlag sveitarfélaganna skv. 3. gr. verði lágmarksframlag þeirra. Þá bárust nefndinni ábendingar um að æskilegt væri að gjaldtökuheimildir stjórna náttúrustofa næðu til sem flestra hlutverka stofanna skv. 4. gr. frumvarpsins en ekki eingöngu til d-liðar greinarinnar. Í því sambandi tekur meiri hlutinn fram að við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að framlag ríkisins til stofanna er ætlað til almennra verkefna sem þeim eru falin í a- og b-lið. Þá er gert ráð fyrir hækkun á framlagi ríkisins vegna nýrra verkefna stofanna skv. c-lið og loks að Náttúruvernd ríkisins greiði fyrir eftirlit sem hún óskar eftir frá stofunum á grundvelli e-liðar. Í ljósi þess telur meiri hlutinn ekki forsendur fyrir því að gjaldskrárheimild stjórna stofanna nái yfir aðra liði greinarinnar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Í gildandi lögum er við útreikning á framlagi ríkissjóðs til náttúrustofanna meðal annars litið til stofnkostnaðar húsnæðis og innréttinga, svo og bóka- og tækjakaupa. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að við samningaviðræður ráðuneytisins og sveitarfélaganna um rekstur náttúrustofa þurfi að huga sérstaklega að stofnkostnaði nýrra stofa þar sem ekki hefur verið gengið frá stofnkostnaði og þeirra stofa sem enn hefur ekki verið stofnað til en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Þá leggur meiri hlutinn áherslu á nauðsyn þess að tryggja náttúrustofunum öruggan og faglegan aðgang að Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Þrátt fyrir athugasemdir frá mörgum gestum nefndarinnar við að ábyrgð á rekstri og starfsemi náttúrustofa verði flutt til sveitarfélaganna kom engu að síður fram vilji fyrir að slíkur flutningur eigi sér stað og leggur meiri hlutinn því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 3. gr. Í stað orðanna „skulu miðast við 30%“ í lokamálslið greinarinnar komi: skulu miðast við a.m.k. 20%.

Alþingi, 9. maí 2001.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Gunnar Birgisson.



Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.


Ísólfur Gylfi Pálmason.