Ferill 704. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1410  —  704. mál.
Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um tímabundin atvinnuleyfi dansara á næturklúbbum.

     1.      Hvernig er háttað afgreiðslu umsókna um tímabundin atvinnuleyfi skv. 7. gr. laga nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga, fyrir dansara á næturklúbbum, þar sem ASÍ veitir ekki lengur umsagnir um slíkar umsóknir?
    Alþýðusamband Íslands tilkynnti félagsmálaráðuneytinu með bréfi, dags. 29. mars, að sambandið sæi sér ekki lengur fært að sinna umsagnarhlutverki vegna útgáfu á atvinnuleyfum dansara á næturklúbbum í samræmi við ákvæði b-liðar 7. gr. laga nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga. Síðan hefur málið verið til skoðunar hjá ráðuneytinu og Vinnumálastofnun í þeim tilgangi að finna því viðunandi farveg.
    ASÍ gegndi ákveðnu eftirlitshlutverki við veitingu atvinnuleyfa með því að gera kröfu um skil á staðfestum launaseðlum, staðfestingu á greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda, staðgreiðslu skatta og kaupum á slysa- og sjúkratryggingum.
    Þar sem ASÍ treystir sér ekki lengur til að gegna þessu hlutverki er niðurstaðan sú að Vinnumálastofnun mun halda áfram að veita þeim nektardansstöðum, sem starfsleyfi hafa sem næturklúbbar, tímabundin atvinnuleyfi vegna dansara. Vinnumálastofnun mun því taka að sér umsagnarhlutverk það sem kveðið er á um í b-lið 7. gr. laganna, enda átti með því að gæta vinnumarkaðssjónarmiða. Vinnumálastofnun mun jafnframt gera strangar kröfur til þeirra skjala sem leggja þarf fram vegna útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa til handa dönsurum á næturklúbbum, til að mynda varðandi kaup á sjúkra- og slysatryggingum fyrir tímabilið, greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda og staðgreiðslu skatta. Þá verður farið fram á skil á afritum launaseðla og að sýnt verði fram á með fullnægjandi hætti að launin hafi verið greidd. Atvinnuleyfið er veitt vegna þessara einstaklinga til að dansa á viðkomandi næturklúbbum en ekki vegna annarra starfa.
    Rétt er að benda á skilyrði þess að tímabundið atvinnuleyfi megi veita útlendingi, sbr. c- lið 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sem hljóðar svo: „að fyrir liggi undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda; í ráðningarsamningi skal einnig vera ákvæði um flutning hlutaðeigandi frá Íslandi að starfstíma loknum, svo og um greiðslur ferðakostnaðar og heimflutning í veikindum eða við óvænt ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á“.
    Nú þegar ASÍ hefur skilað umboði sínu til umsagna vegna dansara á næturklúbbum mun Vinnumálastofnun leggja áherslu á að dönsurum á þessum klúbbum verði kynntur réttur þeirra og fylgst verði með að ráðningarsamningar brjóti ekki í bága við löggjöfina. Eftir sem áður mun Vinnumálastofnun hafa samvinnu við Útlendingaeftirlit og lögreglu varðandi eftirlit með nektardansstöðum. Þá var dómsmálaráðuneytinu kynnt afstaða ASÍ.

     2.      Hvernig hyggst félagsmálaráðherra leysa þetta mál?
    Eftirlitið með starfrækslu næturklúbba heyrir ekki undir félagsmálaráðuneyti heldur dómsmálaráðuneyti, lögreglu og Útlendingaeftirlitið. Þá eru sveitarfélög að sjálfsögðu megináhrifavaldur um rekstur næturklúbba. Í 25. gr. frumvarps til nýrra laga um atvinnuréttindi útlendinga er fjallað um samstarfsnefnd félagsmálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, ASÍ og SA. Samstarfsnefndin skal kölluð saman „vegna almennra álitamála varðandi útgáfu atvinnuleyfa“ og „þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga“.
    Þessari nefnd verður m.a. falið að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu í meðferð atvinnuleyfa fyrir næturklúbba.
    Viðræðunefnd Reykjavíkurborgar, dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis um aðgerðir til að sporna við starfsemi svonefndra „erótískra veitingastaða“ gerði eina tillögu sem sneri að félagsmálaráðuneytinu: „Að endurskoðuð verði lög nr. 133/ 1994 um atvinnuréttindi útlendinga með það að markmiði að útlendingar, sem hingað koma í því skyni að dansa nektardans á skemmtistöðum, falli ekki undir hugtak laganna „listamaður“ en listamenn njóta samkvæmt lögunum undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi.“
    Tillögunni var hrint í framkvæmd með breytingum á lögum nr. 133/1994. Lög um breytingu á lögum nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga, voru afgreidd á Alþingi og staðfest 9. maí 2000.

     3.      Hversu margar umsóknir um tímabundin atvinnuleyfi fyrir dansara hafa verið afgreiddar frá áramótum og hversu margar óafgreiddar umsóknir liggja fyrir um slík atvinnuleyfi?
    Frá áramótum hafa verið afgreiddar 116 nýjar umsóknir um atvinnuleyfi fyrir dansara og 35 leyfi hafa verið framlengd. Um það bil 110 umsóknir bíða nú afgreiðslu.