Ferill 715. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1413  —  715. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um aukin útgjöld ríkissjóðs.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða útgjöld ríkissjóðs, sem ekki eru beinar tilgreindar fjárheimildir fyrir, hefur þegar verið samþykkt að inna af hendi á árinu?
     2.      Hvaða ný eða aukin útgjöld hafa einstakar stofnanir eða ráðuneyti sótt um heimildir fyrir á árinu eða er þegar sýnt að muni þurfa, án þess að tilgreindar fjárveitingar séu fyrir hendi á fjárlögum þessa árs?
     3.      Hvaða tilgreindar fjárveitingar í fjárlögum ársins er nú þegar sýnt að ekki verði nýttar á árinu?
    Svör ásamt skýringum óskast sundurliðuð á einstök verkefni og ráðuneyti.

    Þar sem nú er aðeins liðinn fyrsti ársþriðjungur fjárlagaársins liggja ekki fyrir nægilegar upplýsingar frá einstökum ráðuneytum um hugsanleg tilefni til útgjalda umfram það sem gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum. Árleg fjárlagagerð stjórnsýslunnar miðast við að ráðuneyti og stofnanir fari yfir og leggi fram slík tilvik til skoðunar í ágúst vegna undirbúnings að frumvarpi til fjáraukalaga hvers árs. Slík erindi koma þá til umfjöllunar og hugsanlegrar samþykktar við afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu. Þess er einnig að gæta að aukinni útgjaldaþörf ráðuneyta kann að vera mætt á fyrri hluta ársins með fjárheimildum fjárlaga sem síðan getur verið talin ástæða til að fara fram á við þingið að verði auknar þegar líður á árið. Komi fram útgjaldatilefni vegna ófyrirséðra atvika sem brýnt er að verða við eru þau kynnt fyrir fjárlaganefnd og einnig leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins.
    Ríkisstjórnin hefur lagt fram nokkur lagafrumvörp á þessu ári sem fyrir liggur að hafa áhrif á útgjöld ríkisins eins og fram kemur í kostnaðarumsögnum fjármálaráðuneytis með frumvörpunum. Einnig hafa verið gerðir kjarasamningar við stéttarfélög sem reikna má með að leiði af sér útgjöld umfram forsendur fjárlaga, auk þess sem verðlags- og gengisbreytingar hafa verið aðrar en fjárlög byggjast á. Eins og gert er ráð fyrir í lögum um fjárreiður ríkisins verða gerðar tillögur um heimildir fyrir þeim útgjöldum í frumvarpi til fjáraukalaga og gerð grein fyrir forsendum og áætlunum varðandi kjarasamninga við flest eða öll félög ríkisstarfsmanna sem þá ættu að liggja fyrir.
    Í kjölfar dóms Hæstaréttar hefur Alþingi samþykkt lög um breytingar á tekjutryggingu lífeyrisþega sem er áætlað að leiði til samtals 240 millj. kr. viðbótarútgjalda árið 2001. Þá hefur Tryggingastofnun ríkisins greitt út 1.300 millj. kr. til öryrkja í kjölfar dómsins vegna áranna 1997–2000 og verða þær greiðslur inntar af hendi á þessu ári, en kostnaðurinn verður að öllum líkindum gjaldfærður árið 2000 þegar dómurinn var kveðinn upp. Loks liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem felur í sér um 700 millj. kr. kostnaðarauka á þessu ári, verði það óbreytt að lögum.
    Ef miðað er við þá kjarasamninga sem þegar er lokið og gert ráð fyrir að aðrir samningar verði í samræmi við þá stefnu sem þar hefur verið mörkuð má áætla að launakostnaður ríkissjóðs geti orðið rúmlega 3 milljörðum króna umfram forsendur fjárlaga. Einnig má gera ráð fyrir að gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar hækki um 1–2 milljarða króna vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir verða á árinu, en gjaldfærsla vegna samninga við grunnskólakennara og framhaldsskólakennara færist á árið 2000.
    Eins og áður hefur komið fram hafa ráðuneytinu ekki borist erindi beint frá stofnunum vegna fjárheimilda umfram fjárlög á árinu. Einstök ráðuneyti hafa ekki heldur sótt um heimildir fyrir útgjöldum umfram fjárlög á þessu stigi þar sem erindi af slíkum toga verða einkum til umfjöllunar í ágúst.
    Of skammt er liðið á árið til að unnt sé að áætla með nokkurri vissu hvaða fjárveitingar verða ekki nýttar á árinu þar sem jafnan koma fram einhver frávik frá greiðsluáætlun hvers mánaðar innan ársins. Fjármálaráðuneytinu hafa ekki borist tillögur frá öðrum ráðuneytum um tiltekin tilvik þar sem ákveðið hefur verið að nýta ekki á árinu fjárveitingar fjárlaga.