Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 10:57:47 (3519)

2002-01-24 10:57:47# 127. lþ. 60.94 fundur 267#B heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. menntmrh. fyrir innlegg hans í þessa umræðu og þeim þingmönnum sem hér hafa komið fram og rætt þetta mál, þ.e. annars vegar um rekstrarvanda Ríkisútvarpsins og hins vegar afleiðingar hans, m.a. að Ríkisútvarpið sjái sér ekki fært að sýna frá íþróttaviðburðum eins og Ólympíuleikum og heimsmeistaramóti í knattspyrnu.

Mér finnst að í þessari umræðu hafi hæstv. menntmrh. fengið það veganesti, áður en hann víkur úr þeim stól, að hægt sé að taka á þessum fjárhagsvanda og taka á þessum bráðavanda þannig að Ríkisútvarpið neyðist ekki til að láta þessa heimsviðburði í íþróttunum fram hjá sér fara. Það er grundvallaratriði. Hér er greinilega víðtækur stuðningur frá fulltrúum allra flokka á Alþingi.

Það var líka mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar, fyrrv. menntmrh., fyrrverandi æðsta yfirmanns ríkissjónvarpsins, um hvernig menntamálaráðherrar hafi haft áhrif og beitt mönnum sínum til að hafa áhrif á hvað er sýnt og ekki sýnt. Það var mjög athyglisvert.

Aðalatriðið er, herra forseti, að það eru til leiðir til að bregðast við þessu núna. Ég hef bent á leið, þ.e. að breyta kostnaðarþátttöku Ríkisútvarpsins í Sinfóníuhljómsveitinni. Það mætti hugsa sér að gera það á tveimur til þremur árum. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann vilji beita sér fyrir því nú á lokadögum að þetta verði gert. Þannig gæti skapast svigrúm til að fjármagna sýningu slíkra heimsíþróttaviðburða.

Það má líka benda á afnotagjaldakerfið, sem hér var rætt um, t.d. hvað það kostar. Gera menn sér grein fyrir því að bara innheimtan á afnotagjöldunum kostar 60--70 millj. kr? Það eru tvær, þrjár, fjórar heimsmeistarakeppnir, ef maður notar þá samlíkingu.

Herra forseti. Ég skil það þannig að á hinu háa Alþingi, hjá fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem hér eiga sæti, sé víðtækur stuðningur við að þessir heimsíþróttaviðburðir verði teknir á dagskrá hjá ríkissjónvarpinu. Ég hvet hæstv. menntmrh. til að beita sér og sínum mönnum fyrir því að það megi takast.