Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 13:47:10 (3553)

2002-01-24 13:47:10# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt að byrja á að lýsa ánægju minni með að samræmd samgönguáætlun skuli nú loksins orðin að veruleika og flutt hér sem þingmál sem frv. til laga um samgönguáætlun þar sem saman koma á einum stað framkvæmda- og jafnvel stefnumótandi áætlanir fyrir alla helstu flokka samgangna.

Þetta mál á sér, eins og kom reyndar fram í ræðu hæstv. ráðherra, langan aðdraganda. Þetta hefur lengi verið á dagskrá en lítið miðað og ég er sannfærður um að það hefur orðið okkur til nokkurs tjóns í gegnum tíðina að vinnubrögð af þessu tagi skyldu ekki vera tekin upp fyrir áratugum síðan. Auðvelt er að nefna dæmin um talsverða sóun fjármuna sem hefur átt sér stað gegnum tíðina vegna þess að menn reyndu ekki að samræma áætlanir um uppbyggingu og fjárfestingu í samgöngumannvirkjum. Þetta var unnið of mikið hólfað og kannski án tilrauna til þess að móta langtímastefnu þar sem reynt væri að sjá fyrir þróun mála, þörf fyrir mannvirki og fjárfestingar og hvernig mætti með langtímaáætlunargerð og samræmingu nýta best fjármuni.

Ég kann ekki alla þá sögu. Reyndar má fara miklum mun lengra aftur en hæstv. ráðherra gerði í framsöguræðu sinni, hygg ég, til að finna fyrstu hugmyndir og jafnvel fyrstu viðleitni til að sinna þessum málum. Ég hygg að strax í árdaga Framkvæmdastofnunar hafi eitthvað verið að þessum málum hugað þar á bæ. Danskir ráðgjafar voru fengnir hingað til lands einhvern tíma fyrir mitt minni held ég til að líta á þessa hluti og talsvert þykkar skýrslur eru til, trúi ég, í ríki samgrh. einhvers staðar rykfallnar í skúffum eða hillum, m.a. afrakstur starfs danskra sérfræðinga sem hingað komu jafnvel svo snemma sem á sjöunda eða áttunda áratugnum.

Þáverandi samgrh., Ragnar Arnalds, setti á laggirnar nefnd sem vann allmikið þann stutta tíma sem hann var í samgrn. á árinu 1979. Það er umhugsunarefni að sú nefnd hafði ákaflega keimlíkt verkefni og það sem hér lítur loksins dagsins ljós en í skipunarbréfi þeirrar nefndar var einmitt kveðið á um að nefndin skyldi gera samgönguáætlanir fyrir landið í heild og einstaka landshluta þar sem samræmdir verði flutningar á landi, sjó og í lofti. Nefndin starfaði talsvert á árinu 1979 en nýr samgönguráðherra mun hafa leyst hana upp á árinu 1980 og þar með kom langt hlé í vinnu að þessum málum.

Að vísu vann Framkvæmdastofnun og samgrn. samgönguskýrslur eftir þeim línum sem voru lagðar í kringum 1980 fyrir nokkra landshluta. Það var fyrst og fremst í samstarfi við fjórðungssamböndin á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi sem slík vinna var unnin á árunum 1981--1986.

Síðan minnti hæstv. samgrh. á það --- var svo vinsamlegur --- að sá sem hér stendur flutti ásamt þáv. hv. þm. Skúla Alexanderssyni till. til þál. um nákvæmlega þetta sama eina ferðina enn, um samræmda áætlun á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Þeirri tillögu var vísað til ríkisstjórnar 30. apríl 1988 og var þar þegar húsbóndaskipti urðu þar einu sinni sem oftar í september 1988.

Á árinu 1989 var skipuð stór nefnd til að vinna að þessu verkefni undir forustu þáv. ráðuneytisstjóra í samgrn., Ólafs S. Valdimarssonar heitins, sem var mikill áhugamaður um þessa vinnu og hafði lengi verið og má segja talsverður hugmyndasmiður, held ég, að því að koma á skipulögðum vinnubrögðum af þessu tagi hér á Íslandi. Mér finnst ástæða til að nefna nafn hans og láta það koma hér fram í þessu sambandi.

Sú nefnd var skipuð fulltrúum frá öllum helstu sviðum samgangna og frá stórum aðilum á þessu sviði eins og Flugleiðum, kaupskipaútgerðum, sveitarfélögunum og fleirum og vann allmikið starf. Og hennar vinna kom út í mikilli bók, fallegri bók með rauðri kápu að sjálfsögðu, á útmánuðum 1991. Það er gaman að fletta í gegnum slík plögg og sjá að hvaða leyti menn hittu naglann á höfuðið og að hvaða leyti áætlanir manna reyndust óraunsæjar eða út í loftið. Þetta var að mörgu leyti svipuð vinna og sú sem hér er unnin og ég tek fram að ég tel þetta ákaflega vandað verk og gagnlegt á eiginlega allan hátt. Með því er ég ekki endilega að skrifa upp á allar hugmyndir eða áherslur sem þar koma fram en þetta er að mínu mati tvímælalaust ein merkasta tilraun til að skoða samgönguþáttinn í þjóðfélaginu samtengt með þessum hætti síðan rauða bókin ágæta sem bar það hátíðlega nafn Lífæðar lands og þjóðar kom út.

En þar voru reyndar til viðbótar hinum efnislegu samgönguþáttum fjarskiptin einnig tekin undir. Og það er kannski eitt sem ég gæti nefnt og ég tel álitamál hvort ekki eigi að reyna að hafa fjarskiptin einnig undir í þessari samtengingu þó að um þau gegni auðvitað nokkuð öðru máli og þau lúti sumpart öðrum lögmálum en hinar efnislegu samgöngur, ef ég leyfi mér að orða það svo, eða órafrænu samgöngur. (Gripið fram í.) En það er nefnilega þannig að þessi fjórða vídd í samgöngumálunum, ef við köllum hana svo, til viðbótar samgöngum á sjó, landi og í lofti, fjarskiptin, eru gríðarlega þýðingarmikill þáttur og eiga oft fullt erindi inn í þessa samræmingu. (LB: Er ekki búið að selja það?)

Það er síðan ýmislegt að gerast í rekstrarfyrirkomulagi á þessu sviði sem er svo önnur saga. En stjórnvöld ætla væntanlega að hafa einhverja meðvitund um málaflokkinn eftir sem áður. (LB: Það er ekki víst.) Ja, við skulum trúa á hið góða í manninum og mátt skynseminnar, hv. þm., og veðja á það að menn ætli að hafa einhverja stefnu uppi í þessu og einhverja meðvitund.

En í skýrslunni og tillögunum frá 1991 --- sem því miður kom síðan næstum áratugarrof í að unnið yrði að þangað til hæstv. núv. samgrh. tók til hendi og það má hann svo sannarlega eiga að þar hefur verið hottað á truntuna og það hefur borið ávöxt --- var talað um t.d. mikilvægi verðlagningar fjarskiptaþjónustunnar fyrir landsbyggðina. Talað var um nauðsyn þess að efla gagnaflutningakerfið um landið með uppbyggingu, og hlusti nú hv. þingmenn, með uppbyggingu fjarvinnslustofa á landsbyggðinni í huga. Svo halda menn að þeir séu alltaf að finna upp hjólið, er það ekki? En þarna fyrir tíu, tólf árum voru menn einmitt að velta fyrir sér möguleikum þessa og hefði að mínu mati mátt vinna betur og markvissar að því að gera slíka tækni aðgengilega með fullnægjandi hætti fyrir alla landsmenn. Lögð var áhersla á hringtengingu ljósleiðarans og að unnið yrði samkvæmt áætlunum um stóraukin not ljósleiðara og breiðbandskerfa, t.d. á sviði sjónvarps- og útvarpssendinga og til samtengingar tölvu- og gagnasendinga. Og það er svolítið merkilegt að þessari hringtengingu ljósleiðarans lauk en samt sem áður búa stór svæði á landinu við algjörlega óviðunandi móttökuskilyrði fyrir útvarp og sjónvarp, m.a. vegna þess að aldrei hefur náðst land í þeim efnum að nýta þessa tækni til að dreifa slíkum merkjum um landið.

Í vegamálunum var talað um hluti sem aftur eru hér á dagskrá eins og vegi yfir hálendi landsins. Talað var um jarðgangagerð sem var þá að hefjast á vorinu 1991 á Vestfjörðum, og hlusti menn nú, þarna stendur á prenti:

,,Á árinu 1991 hefst jarðgangagerð á Vestfjörðum. Áætlað er að þegar þeim framkvæmdum verði lokið verði hafnar jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi.``

Þetta er einn af ótal stöðum þar sem slíkt samkomulag eða áætlun um að standa svona að málum kemur fyrir í textum en því hafa ýmsir ónefndir menn neitað að fyrir þessu sé nokkur stafur.

Þarna var talað um bundið slitlag á helstu vegi fyrir aldamót, sem því miður hefur auðvitað ekki náðst fram. Og talað var um merkilegt nokk, og hlusti nú þingmenn enn, tvöföldun fjölfarinna þjóðvega, m.a. Reykjanesbrautar til Keflavíkur og annarra þjóðvega í nágrenni höfuðborgarinnar, þ.e. Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar.

Mikið var talað um almenningssamgöngur og það er kannski það svið sem orðið hefur harðast úti, finnst mér, í þróun samgöngumála og stefnumótun á því sviði þau ár sem síðan eru liðin, því að það hefur því miður heldur miðað aftur á bak en áfram í því að skipuleggja góðar og greiðar almenningssamgöngur í landinu. Helsta form almenningssamgangna var á þessum tíma flugið. Það hefur dregist mjög saman og fjölmargir staðir dottið þar út af kortinu sem búa þar af leiðandi við annaðhvort engar eða mjög ófullnægjandi almenningssamgöngur. Þessi vinna miðaði við bæði almenningssamgöngur í þéttbýli og dreifbýli --- ég sé og heyri að þessi upprifjun vekur upp kátínu meðal hv. þm., en það er nú ekki þannig að menn hafi þarna ætlað að setja sig í spor Nostradamusar og sjá alla hluti fyrir. En þetta var, að ég leyfi mér að segja, heiðarleg tilraun hjá þeim ágætu mönnum sem þarna sátu og voru auðvitað fyrst og fremst forstöðumenn stofnana á sviði samgöngumála og stórfyrirtækja á þessu sviði og svo menn frá Háskóla Íslands, sem reyndar voru fengnir til skrafs og ráðagerða. Hópurinn sem stóð að þessu starfi var því mjög breiður og þannig saman settur að þarna sköpuðust dýnamískar aðstæður og menn leyfðu sér að fá ýmsar hugmyndir.

Þarna var auðvitað komið inn á öll þessi helstu mál, vöruflutninga, flugmálin, hafnamál og siglingar þar sem reynt var að sjá fyrir annars vegar þróun millilandasiglinga með stækkandi skipum og gámavæðingu og fækkun hafna. Allt hefur þetta gengið eftir en það sem hefur gerst hraðar og öðruvísi en menn vonuðust til var að strandsiglingarnar sem menn sáu enn á þessum tíma sem mjög mikilvægan samgönguþátt fyrir byggðakeðjuna við sjávarsíðuna hafa að mestu leyti lagst af eins og kunnugt er.

Að lokum voru gerðar tillögur um samgönguráð, að vísu nokkuð öðruvísi samansett en það sem ráðherra flytur hér tillögur um í 3. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, eins og reyndar í fyrra tilvikinu, að yfirmenn stærstu stofnana hins opinbera á sviði samgöngumála, þ.e. flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri sitji þarna auk fulltrúa ráðherra. En til viðbótar var í þessum hugmyndum frá 1991 gert ráð fyrir fulltrúum þingflokka og jafnvel rannsóknarstofnana og sérfræðinga eftir atvikum, ef menn vildu hafa öflugri faglega þátttöku frá slíkum aðilum. Sjálfsagt má færa rök fyrir báðum þessum útfærslum á opinberu samgönguráði en ég tek fram að ég fagna því að ætlunin er að halda utan um þetta að einhverju leyti með slíku opinberu samgönguráði, ég tel það skynsamlegt. En ég hlýt að halda til haga í nafni lýðræðis og valddreifingar og með virðingu Alþingis og þátttöku í huga að ástæða væri til að þarna sætu fulltrúar þingflokka á Alþingi. Ég held að það væri skynsamlegt og gott vegna þess að þegar búið er að safna þessu í svona stóran pakka þar sem eru öll samgöngusviðin og allar þær áætlanir sem áður hafa verið meðhöndlaðar á Alþingi á tveggja ára fresti, annars vegar á sviði vegamála, síðan hafnamála og flugmála, þá er þetta auðvitað orðið gríðarlega þungur og veigamikill pakki sem þarna er á ferðinni. Ég held að upp á samræmd og eins þverpólitísk vinnubrögð og mögulegt er, væri gott að hafa inni í þessu samgönguráði, sem hefur auðvitað ráðgefandi og stefnumótandi hlutverk til hliðar við ráðherra og ráðuneyti og kemur að samgönguáætlunum, stendur fyrir samgönguþingi og hvað það nú er, að þarna mættu mjög gjarnan vera fulltrúar þingflokka. Ég vonast því til að hæstv. ráðherra og hv. samgn. velti því a.m.k. fyrir sér í alvöru sem möguleika að þarna verði gerð e.t.v. einhver breyting á.

[14:00]

Það er mjög löng hefð fyrir því, þegar framkvæmdir á samgöngusviðinu eiga í hlut, að vinna að áætlanagerð og stefnumótun með þverpólitískum hætti. Þingmenn, þingmannahópar kjördæma og síðan samgöngunefnd þingsins hafa alltaf haft hlutverki að gegna við þannig ákvarðanir og ég tel að svo megi gjarnan vera áfram.

Í tillögunum frá 1991, svo ég ljúki nú þessum samanburði, var enn ein hugmynd sem ég sakna og sé eftir. Þar var lagt til að stofnaður yrði rannsókna- og vísindasjóður á sviði samgangna sem fengi sem stofnfjármagn eitthvert örlítið hlutfall, einhver prómill, af fjárfestingum í samgöngu-, fjarskipta- og ferðamálum á tilteknu árabili, þannig að hann byggðist upp og gæti veitt styrki og stutt rannsókna- og þróunarverkefni á þessu sviði með hluta af fjármagnstekjum sínum eða beinum framlögum ef þau væru veitt jafnóðum. Ég held að mikilvægi þessa þáttar í þjóðarbúskap og þjóðlífi okkar við þær aðstæður sem við búum við geri að verkum að full ástæða sé til að reyna að stuðla að því að meira sé að gert í þessum efnum. Faglegi þátturinn hvað varðar rannsóknir og menntun og fleira í þessum dúr er mjög veikur hér. Að mínu mati vantar fræðistörf sem beindust að þessu alfarið.

Það er vissulega svo að menn eru vel að sér á einstökum sviðum í flugmálum eða vegamálum. Fagmenntað fólk, t.d. landfræðingar hafa að mörgu leyti góðan grunn til að takast á við verkefni á þessu sviði enda hafa margir slíkir lagt gjörva hönd á plóginn. En betur mætti gera. Ég tel að það þyrfti að styrkja rannsóknastarf innan háskólanna og það væri mjög gott að fagið sjálft, ef svo má orða það, hefði á sínum snærum möguleikann á að gera átak í þessum efnum.

Svo ég víki aðeins að tillögum stýrihópsins, sem vissulega eru ekki til umræðu hér en er þó erfitt að slíta úr samhengi um málið því þær liggja fyrir þó mér sé ljóst að enn eigi eftir að taka afstöðu til þeirra og ákveða að hve miklu leyti fyrsta samgönguáætlunin verður á þeim reist ef ég skil stöðu málsins rétt, þá eru þar þó hlutir sem ég leyfi mér að nefna aðeins í framhjáhlaupi.

Ég fagna t.d. umfjöllun um umhverfismál. Það eru ágætar hugleiðingar, á bls. 58 og 59 í þessari skýrslu, en því miður virðist mér botninn vera svolítið vera suður í Borgarfirði, uppi í Borgarfirði á víst að segja --- okkur er tamt að hafa þetta öfugt fyrir norðan. Í skýrslunni er t.d. talað um leiðir til að hamla gegn losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum, þ.e. að skattleggja umferðina í beinu hlutfalli við eldsneytisnotkun og takmarka hana þannig. Svo er sagt:

,,Einnig má beina umferð á umhverfisvænni samgöngumáta, s.s. sjóflutninga þar sem eldsneytisnotkun er mun lægri á hvern tonn-km ef nægilegt flutningamagn er fyrir hendi.``

Nema hvað? Auðvitað. En hvar eru þá tillögurnar og hin pólitíska stefnumótun sem felur í sér væntingar um að þetta verði gert? Einmitt á þessum tímum eru strandsiglingar í aðalatriðum að leggjast af við landið. Ég tel það stórkostlegt slys, bæði byggðapólitískt og umhverfislegt. Þarna hefði ég viljað sjá hugleiðingar um það. Ætla menn að sætta sig við þetta sem orðinn hlut og hafast ekkert vegna hins gífurlega álags á vegina sem núverandi flutningar valda, þeirrar slysahættu sem þessu fylgir og síðast en ekki síst ákaflega neikvæðri þróun í umhverfislegu tilliti?

Ég er algjörlega sannfærður um að eitt af því allra skynsamlegasta sem við Íslendingar gætum gert væri að stuðla að því að aftur kæmist á skipulagt, skilvirkt og gott strandsiglingakerfi við landið. Það væri stórkostleg framför á nýjan leik í umhverfismálum, í sambandi við vegakerfið og það ástand sem það er í, slysahættu á vegunum, fyrir byggðalögin sem búa við stórkostlega skerta þjónustu og allt of háan flutningskostnað, þau sem fjærst liggja frá höfnunum, o.s.frv.

Ég veit að við munum síðar takast á um og ræða pólitískt innihald og áherslur samgönguáætlunarinnar sem slíkrar þegar hún kemur fyrir þingið. Ég fagna því að hér er lagt upp með þessum hætti og um víðtæka áætlun að ræða, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Fyrir utan framkvæmdaþættina er þarna stefnumótun, umhverfismál, öryggismál og fleira og að mínu mati mætti jafnvel glíma við að hafa fjarskiptin þarna með.

Að lokum nefni ég bara tvo þætti sem ég hef fyrirvara við. Fyrra atriðið er sú hugsun sem mér finnst svífa svolítið yfir vötnunum, ofuráhersluna á að notendur borgi. Þó það sé að mörgu leyti eðlilegt viðhorf þá getur það orðið á kostnað annarra markmiða ef menn festa sig í slíkri formúlu, að notendur skuli alltaf borga. Það getur orðið á kostnað annarra markmiða, byggðapólitískra markmiða vegna verðlagningar, á kostnað umhverfismarkmiða og á kostnað öryggismarkmiða.

Varðandi síðara atriðið, herra forseti, finnst mér að á köflum hafi höfundar skýrslunnar --- ég er hér að tala um skýrslu stýrihópsins --- verið óþarflega veikir fyrir einkavæðingar- og einkarekstrarhugmyndum og þær svífa líka yfir vötnunum í drögum að nýjum hafnalögum. Ég hef á þessu ákveðna, pólitíska fyrirvara hvað innihald snertir en ég fagna því mjög að þessi vinna sé komin á rekspöl.