Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 15:50:14 (3575)

2002-01-24 15:50:14# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér eru til umfjöllunar ýmis mál hæstv. samgrh. Mörg þeirra fá góðan hljómgrunn hér í þinginu. Það á við um þau frumvörp sem nú eru til umræðu, gagnstætt því frv. sem var til umfjöllunar fyrr í dag og fjallaði um skráningu skipa.

Sannast sagna, herra forseti, vonast ég til að það frv. eigi ekki eftir að koma aftur til umfjöllunar hér á Alþingi eftir að 1. umr. um það lauk. Það frv. var sett fram í andstöðu við öll hagsmunasamtök sjómanna, farmanna, fiskimanna og Vélstjórafélagsins, en með blessun og samþykki Landssambands ísl. útvegsmanna og að sjálfsögðu fjármálafyrirtækja sem hugsa sér gott til glóðarinnar. Frv. fjallaði um svokallaða þurrleiguskráningu skipa, en þurrleiguskráning er tímabundin skráning skips sem leigt hefur verið án áhafnar á erlenda skipaskrá án þess að það sé afmáð af íslenskri skipaskrá.

Samtök sjómanna hafa bent á að þetta sé leið til að auðvelda útgerðarfélögum að ráða til sín ódýrt vinnuafl. Þá er vísað til þeirrar tilhneigingar sem hefur gert vart við sig í seinni tíð, að ráða ódýrt vinnuafl frá Eystrasaltslöndunum og frá Rússlandi. Menn vara við því að haldið verði áfram á þessari braut og samtök sjómanna og farmanna og fiskimanna segja að réttarstöðu íslenskra sjómanna sé teflt í tvísýnu nái það mál fram að ganga.

Eins og ég sagði, herra forseti, er 1. umr. um það frv. lokið og ég ætla að sjálfsögðu ekki að gera það að umræðuefni nú að öðru leyti en því að segja að ég vonast til að það eigi ekki eftir að koma til kasta þingsins og verði svæft svefninum langa í samgn. Ég treysti hv. formanni nefndarinnar til að sjá til þess að svo verði.

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar samgönguáætlun og lagabreytingar sem henni tengjast. Megintilgangur þessa frv. er góður en það gengur út á að samræma áætlanagerð í samgöngumálum í landinu. Samkvæmt þessari hugsun er gert ráð fyrir að vinna samgönguáætlun til tólf ára í senn og skipta henni í þrjú fjögurra ára tímabil. Þessi samgönguáætlun á að skiptast í flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun. En lykilhlutverki í þessari vinnu á að gegna samgönguráð sem hæstv. samgrh. kemur til með að skipa.

Í 4. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Tillögur að fjögurra ára áætlun skulu unnar í stofnunum samgöngumála fyrir samgönguráð. Samgönguráð semur síðan endanlega tillögu og leggur fyrir samgönguráðherra.``

Ég mun víkja nánar að því síðar í máli mínu hvernig ég tel að skipa eigi í þetta samgönguráð. Ég er sammála ýmsum þeim sem hér hafa gert tilnefninguna í samgönguráðið að umræðuefni. Það er nauðsyn að breyta þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

En eins og ég sagði tel ég megintilgang þessa frv. góðan. Hér er í raun verið að hefja á loft að nýju því sem rætt var um fyrir rúmum tíu árum. Í skýrslu sem þáv. hæstv. samgrh. birti, árið 1991, er að finna hugmyndir um að unnar verði samræmdar samgönguáætlanir fyrir landið í heild. Ég vísa þar í formála sem þáv. hæstv. samgrh., Steingrímur J. Sigfússon, ritar að þeirri skýrslu.

Í tengslum við þá umræðu sem fram fór um samgöngumálin á þessum tíma minnist ég þess að menn hentu gaman að starfsnefnd sem hafði það verkefni að fjalla um markmið Vegagerðarinnar. Mig minnir að þessi nefnd hafi átt að svara því hvers vegna við legðum vegi. Menn höfðu óskaplega gaman af þessu. Spurt var hvort menn vissu ekki eða gerðu sér ekki grein fyrir því hjá Vegagerðinni til hvers menn legðu vegi.

Ég held að menn hendi ekki gaman að vangaveltum af þessu tagi lengur vegna þess að eins og við vitum þá leggjum við vegi til ýmissa nota, til þess að fara frá einum stað á annan, til að flytja vörur á eins skjótan hátt og við getum eða til þess að njóta umhverfisins. Vegagerð getur haft mismunandi markmið og ber að taka tillit til þess þegar vegir eru lagðir.

Þessi umræða um samgöngumálin hefur sem betur fer verið að breytast á liðnum árum. Á fyrri hluta tíunda áratugarins urðu talsverðar breytingar í samgöngumálum eins og hér hefur verið rakið. Þá færðust vöruflutningar af sjó og upp á landið. Margir töluðu á þessum tíma um að liðinn væri sá tími að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, ætti að niðurgreiða vöruflutninga og samgöngur, að tími Ríkisskipa væri af þeim sökum liðinn.

Menn tala ekki lengur svona. Nú gera menn sér almennt grein fyrir því að í landflutningunum felst stuðningur frá hinu opinbera. Það kom fram í máli hv. formanns samgn., Guðmundar Hallvarðssonar, að það er talið að stór vöruflutningabíll slíti vegum á við 10--30 þús. litlar bifreiðar. Þetta kom fram í máli hans, 10--30 þúsund bílar, allt eftir aðstæðum, veðurfari og að sjálfsögðu þyngd vöruflutningabílanna, sem geta verið 10--40 tonn. Þetta finnst mér vera athyglisvert og mér fannst það einnig athyglisvert, sem kom fram í máli hans, að hann teldi mikilvægt að stuðla að því að flytja vöruflutninga af landi og á sjó. Það kom fram hjá hv. þm. fyrr í dag þrátt fyrir þessi orðaskipti sem síðar urðu hér.

Hann bendir hins vegar réttilega á að þetta er flókið mál sem hefur margar hliðar. Það er alveg rétt að fólk vill fá vöru á skjótan hátt. Reyndur sjómaður í salnum sagði mér að frá Reykjavík til Ísafjarðar, svo dæmi sé tekið, væru 186 mílur og það taki vöruflutningaskip á bilinu 10 til 14 tíma að fara þá leið. Það er ekki ýkja langur tími en getur verið það í rysjóttu veðri. Allt eru þetta hlutir sem þarf að skoða en ég lýsi stuðningi við það meginmarkmið sem hv. formaður samgn. lýsti sig fylgjandi, að okkur bæri að stuðla að því að færa flutninga af vegakerfinu yfir í sjóflutninga eftir því sem kostur er.

Hæstv. samgrh. kom einnig að þessu. Það gerði hann í tengslum við umræðu um skattlagningu og gjaldtöku. Sannast sagna kunni ég ekki alveg við þann tón sem er að finna í tillögu stýrihóps um samgönguáætlun en þar eru vegsamaðar mjög ýmsar markaðslausnir og beiting markaðstækja.

[16:00]

Hér segir, með leyfi forseta:

,,Stefnt skal að því að í lok annars tímabils (2007--2010) verði kostnaður af samgöngum í heildina tekið borinn af notendum.``

Þetta er stefnuyfirlýsing sem ég hef ákveðnar efasemdir um. Ég lít á samgöngukerfið sem þjónustutæki við landsmenn og við byggðarlög og hef miklar efasemdir um að halda inn á þessar brautir. Einnig er talað um markaðslausnir, einkaframkvæmd í vegakerfinu, og talað um að auknar kröfur séu um að fara inn á slíkar brautir. Kröfur frá hverjum? spyr ég.

Við vitum að það eru auknar kröfur um að fara inn á þær brautir varðandi rekstur á opinberu húsnæði. Sýnt hefur verið fram á að miklu dýrara er fyrir hið opinbera að láta einkaaðila reisa og reka húsnæði. Gerð hefur verið grein fyrir því á Alþingi hvaða afleiðingar þetta hefur haft í för með sér fyrir stofnanir á borð við Íbúðalánasjóð sem áður var hýstur í eigin húsnæði.

Stjórnarformaður Spalar lýsti því yfir á sínum tíma að ef ríkið hefði sjálft tekið beinan þátt í framkvæmdum við Hvalfjarðargöngin hefði það verið ódýrara en að fara þá millileið sem farin var. Hins vegar vitum við að fjármálamenn vilja gjarnan maka krókinn á þennan hátt hvort sem um er að ræða opinbert húsnæði eða vegamál.

Fram til þessa hefur verið ágætur kokteill þar á ferðinni. Vegagerðin hefur verið á vegum hins opinbera. Síðan hafa verktakar komið að framkvæmdum. Ég hef miklar efasemdir um að fara með fjármögnun á samgöngukerfinu í ríkari mæli inn á forsendur fjármagnsins. Ég hef ákveðnar efasemdir um það. Ég velti því líka fyrir mér hvað hæstv. samgrh. átti við þegar hann talaði um að í framtíðinni yrði skattlagningu hagað þannig að hún yrði sjóflutningum í hag. Ætlum við virkilega að fara inn á þá braut að skattleggja notkun á samgöngukerfinu með þessum hætti? Er hér ekki kominn upp hugsunarháttur sem mun reynast dreifðum byggðum landsins varasamur? Ég spyr sjálfan mig spurninga í þessu efni.

Að lokum varðandi samgönguráðið, þá gegnir það mjög veigamiklu hlutverki. Eins og ég vitnaði hér áðan í 4. gr. frv. þá er gert ráð fyrir því að tillögur í samgöngumálum verði unnar á vegum stofnana samgrn. en samgönguráð semji síðan endanlega tillögu og leggi fyrir samgrh. Samgönguráð er samkvæmt frv. skipað af samgrh. Í samgönguráði er gert ráð fyrir að sitji flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri. Auk þess situr þar fulltrúi samgrh. sem jafnframt er formaður.

Svo ég vitni aftur í skýrslu sem þáv. hæstv. samgrh., Steingrímur J. Sigfússon, birti fyrir rúmum tíu árum, árið 1991, þá var þar einnig gerð tillaga um samgönguráð sem hefði svipuð verkefni á hendi. En þar var gerð tillaga um að þeir sem þar sætu kæmu úr fleiri áttum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Í ráðinu verði auk ráðherra og fulltrúa ráðuneytis forstöðumenn stofnana á sviði samgöngumála, fulltrúar þingflokka, rannsóknastofnana og aðrir sérfræðingar og áhugamenn sem ráðherra vill kalla til.``

Ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki fremur að fara inn á þessa braut. Ég heyri að margir hv. þm. hafa tekið undir þetta sjónarmið.

Það kemur t.d. fram í þessari skýrslu sem stýrihópur sendi frá sér að gert sé ráð fyrir þremur byggðakjörnum utan Reykjavíkur, þ.e. á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri. Þetta er hugsun sem víða er uppi og ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna hana. En þetta er pólitísk stefnumótun. Ef við síðan beinum fjármagni, ef samgönguráð beinir fjármagni í anda þessarar hugsunar á þessa staði eða með þessa pólitísku stefnumörkun í huga þá er Alþingi að vissu leyti að afsala sér valdi og áhrifum ef það hefur ekki fulltrúa sína við þessa frumvinnu.

Ég styð það því að hv. samgn. taki það til umhugsunar hvort ekki væri rétt að víkka nefndina út eða ráðið öllu heldur, þ.e. að fulltrúar samgönguráðs kæmu úr fleiri áttum, tengdust Alþingi og hugsanlega fleiri aðilum. Ég nefni Byggðastofnun og háskólana. Ekki væri óeðlilegt að fulltrúar náttúruverndarsamtaka kæmu einnig að þessari stefnumótunarvinnu. Ég legg til að þetta verði skoðað með velvilja af hálfu nefndarinnar þegar þar að kemur.