Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 17:06:03 (3583)

2002-01-24 17:06:03# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. samgrh.

Þau eru orðin æðimörg árin sem ég hef tekið þátt í að meta samgönguþörf og úrbætur og ég hlýt að minna á það út af orðum ráðherrans að Vesturlandsvegurinn er slysamesti vegurinn á þessu svæði. Suðurlandsvegurinn er gífurlega mikill slysavegur, og Reykjanesbrautin sem allir hræðast. Bæði Vesturlandsvegurinn og Suðurlandsvegurinn eru slysameiri en Reykjanesbrautin.

Það sem við gripum til var í raun og veru að taka fram fyrir hendur Vegagerðarinnar og lýsa Reykjanesbrautina í þeirri viðleitni að gera hana betri og létta undir með því fólki sem kallaði á úrbætur. Auðvitað hefði verið best að tvöfalda brautina miklu fyrr þannig að ég þekki svo sem afskaplega vel þróun mála á svæðinu, og hef þess vegna leyft mér að nota það að þetta svæði hefur verið afgangsstærð.

Ég ætla ekki að blanda mér í umræðuna um innviði Reykjavíkurborgar en tek auðvitað eftir því að samgrh. notar þetta tækifæri til að hnýta í stjórnendur Reykjavíkurborgar, og það er ekki nýtt. Ég þekki ekki hvaða áform eru uppi um Kringlumýrarbraut og Miklubraut og ætla ekki að blanda mér í þá umræðu en ég tek eftir þessari athugasemd.

Það er auðvitað mikilvægt, og ég tek undir það, að skoða í heild hvernig hlutirnir eigi að vera. Af því að ráðherrann nefnir Sundabrautina hlýt ég að nefna það líka að á einhverjum fundi sem ég var á fyrir tveimur árum, þegar verið var að ræða Sundabraut og Reykjanesbraut, var sagt að enginn vandi yrði að fjármagna Sundabrautina ef ákveðið yrði að fara í hana og menn kæmu sér saman um leguna. Ég gaf mér þá að það væri vegna þess að Sundabrautin væri þess eðlis að þar væri hægt að setja vegatoll af því að það er önnur leið sem hægt er að fara. Það er ekki hægt að setja vegatoll á nýja braut ef ekki er önnur fær leið. Það er hægt með Sundabrautina. Ég hef ekki skoðun á því en ég minni á að þetta hefur verið sagt. (Forseti hringir.)

Ég tek eftir, virðulegi forseti, að ráðherrann nefndi ekkert um tengingu ...

(Forseti (GuðjG): Tíminn er búinn.)

... svæðisráðs og samgönguráðs og hvet formann samgn. (Forseti hringir.) til að ræða það við sveitarfélögin.