Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 17:23:22 (3592)

2002-01-24 17:23:22# 127. lþ. 60.7 fundur 312. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (skráningargjald og trygging) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak.

Í frv. er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fái heimild til að innheimta sérstakt skráningargjald, 5.000 kr., af þeim vörum sem áfengisbirgjar skrá í svokallaða reynslusölu. Borið hefur á því að áfengisbirgjar skrái fjölda tegunda eða jafnvel allar sölutegundir frá tilteknum framleiðanda í svokallaðan reynsluflokk án þess að ætlunin sé að koma öllum tegundum í sölu. Þegar að sölu kemur hefur borið á því að engar birgðir væru fyrir hendi og hillur stæðu þá auðar í þann tíma sem reynslusalan varir, þ.e. í sex mánuði.

Um 300 sölutegundir eru teknar til reynslusölu á ári en biðlisti yfir skráðar sölutegundir til reynslusölu hefur að geyma um 2.500 tegundir. Ljóst er að mikill kostnaður fylgir þessu fyrirkomulagi fyrir ÁTVR og óhagræði fyrir áfengisbirgja sem þurfa að bíða í lengri tíma til þess að koma sölutegundum sínum að í verslunum fyrirtækisins.

Auk þess er í frv. lagt til að áfengisbirgjar leggi fram 40.000 kr. tryggingu, sem þeir fái endurgreidda komist varan í svokallaðan kjarna í verslunum ÁTVR. Til þess að sölutegundir áfengis komist í almenna, ótímabundna sölu, þ.e. í kjarnann, þurfa þær að ná ákveðnu söluhlutfalli á þeim tíma sem reynslusalan stendur yfir. Með því að mæla fyrir um fast gjald fyrir hverja skráða sölutegund og innheimtu tryggingar þess að varan komist í ótímabundna sölu, þ.e. kjarnann, verður vöruval ÁTVR þannig skilvirkara auk þess að standa undir kostnaði stofnunarinnar við ofangreinda reynslusölu. Jafnframt verður fyrirkomulagið áfengisbirgjum hvatning til að vanda val þeirrar vöru sem þeir bjóða til reynslusölu og auðveldar með þeim hætti aðgang þeirra að verslunum fyrirtækisins.

Að svo sögðu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.