Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:14:53 (3719)

2002-01-29 16:14:53# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Reynslan af laxeldinu sýndi okkur að það var tvennt sem okkur skorti. Okkur skorti sterkari rannsóknir á grunnsviðum fiskeldisins og hins vegar fjármagn til þess að ráðast í stríðeldið á seiðum sem búin voru til.

[16:15]

Það er til mikið fjármagn í sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu. Þau sýna þessu mikinn áhuga og nálgast það með mjög skynsamlegum hætti, finnst mér. Ég tel þess vegna að það verði miklu auðveldara að afla fjármagns til að ráðast í mikið eldi og mikla framleiðslu á þorski ef búið er að ganga frá ákveðnum grunnþáttum. Ef búið er að tryggja framleiðslu á þroskseiðum held ég að eftirleikurinn verði miklu auðveldari en þegar við vorum í laxeldinu á árum áður. Það er ekki síst vegna þess að við höfum þessi sölusamtök sem geta tekið við framleiðslunni og selt hana. Þau hafa nú þegar aðgang að mörkuðum og geta afsett hana. Það er skammt í að tæknin í þorskeldi verði með þeim hætti að kleift verði að framleiða fisk sem stendur undir framleiðslukostnaði miðað við núverandi verðþróun á mörkuðum.

Ég held þess vegna að mestu máli skipti að fá fjármagn til að rannsaka grunnþætti framleiðslunnar, sér í lagi ákveðin atriði sem lúta að seiðaeldi.

Herra forseti. Hins vegar þarf hv. þm. Einar K. Guðfinnsson ekki að skammast sín fyrir framlag Vestfirðinga, eða gera lítið úr því, til fiskeldis í landinu. Vegna þess að hann stendur nú hjá einum Íslendingasagnafróðasta þingmanni okkar, hæstv. forseta, Halldóri Blöndal, getur hann spurt hann hvort ekki sé rétt að í Íslendingasögunum sé einmitt greint frá því að hið fyrsta fiskeldi á Íslandi hafi farið fram á Vestfjörðum þar sem menn í Þorskafirði tóku silung ofan af heiði og settu í læk í stíu og hét sá lækur upp frá því Alifiskalækur.