Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:26:07 (3722)

2002-01-29 16:26:07# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Flm. (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Það er greinilegt að hún höfðar til margra og menn eru áhugasamir um að þorskeldi verði komið á fót með myndarlegum hætti á Íslandi.

Varðandi umræðurnar um það sem hefur verið gert í þorskeldi vil ég taka það fram að þessi tillaga kemur fram einmitt vegna þess að ég naut þeirrar ánægju að fara með aðilum í Tálknafirði og sjá í kvíar hjá Magnúsi Guðmundssyni í Tungu sem er stórmerkur maður og duglegur, og hann hafði reynslu af öðru fiskeldi og byrjaði með þorsk í kvíum. Þetta á þannig sínar rætur vestur á fjörðum eins og fram hefur komið hér í umræðum.

Ég vil leyfa mér að vitna í viðtal sem var á Stöð 2 fyrir nokkru. Finnbogi Jónsson, formaður stjórnar Samherja, lagði þar áherslu á að ríkið kæmi að þessu máli til að það byggðist örugglega upp og að við mundum ekki lenda í sömu mistökunum og við lentum í þegar við fórum út í laxinn.

Þróun hefur verið hröð í þorskeldi á síðustu árum eins og kom fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Það var hún líka í laxeldinu og þess vegna verðum við að gæta að okkur og hafa rannsóknirnar í lagi. Ég held að það sé óvitlaust að tengja rannsóknir og alla þessa vinnu við Vestfirði og Akureyri þar sem þeir í háskólanum eru að leggja þungt lóð á þessar vogarskálar.

Að lokum, herra forseti, ítreka ég þakkir mínar og ég veit að það er almennur áhugi á þessu, ekki einungis hér í þinginu, heldur úti í samfélaginu og ég vænti þess að þáltill. fái jákvæða umfjöllun í sjútvn.