Heildarstefna um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:21:32 (3752)

2002-01-29 18:21:32# 127. lþ. 62.14 fundur 233. mál: #A heildarstefna um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:21]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir till. til þál. um mótun heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana. Fyrsti flm., Einar K. Guðfinnsson, hefur gert vel grein fyrir þáltill. en ég er meðflm. og lýsi með því stuðningi við tillöguna sem ég tel að væri mjög mikilvægt að geta afgreitt hér á þinginu. Það er brýnt að koma þessari vinnu í gang, þ.e. að móta heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar, og að gert verði árangursmat á hverri stofnun fyrir sig sem hefur leyfi og fær fjárframlög frá ríkinu til að reka meðferðarstofnun.

En forvarnirnar eru alltaf mikilvægastar og það að koma í veg fyrir að fólk ánetjist tóbaki, áfengi og sterkari efnum. Komið hefur fram að það er töluverð skörun á þeim meðferðarstofnunum sem eru starfræktar í dag, og það er ekki gerð nein krafa um árangursmat hjá hverri stofnun. Á hverju ári sækja þessar stofnanir um framlög úr ríkissjóði en þar sem ekki er gerð nein krafa um að þær skili einhvers konar árangursmati þá vitum við mjög lítið um hvaða árangur er af meðferð á hverjum stað.

Þarfir hvers og eins eru mismunandi og því er nauðsynlegt að boðið sé upp á mismunandi meðferðarform. Því miður þarf fólk oft að ganga í gegnum fleiri en eina meðferð þegar það hefur ánetjast einhverju þessara efna.

Eins og kom fram í máli flm. er mjög mikilvægt að hlúa að því mikla sjálfboðaliðastarfi sem er unnið á langflestum þessara stofnana og vonandi að það nái að blómstra áfram.

Herra forseti. Mig langar til að nefna hér meðferð --- það er varla hægt að kalla hana stofnun en hún gæti í sjálfu sér orðið deild. Þannig er mál með vexti að hv. allshn. Alþingis fór í heimsókn að Litla-Hrauni í síðustu viku og við fengum góðar upplýsingar hjá yfirmönnum og forstöðumönnum stofnunarinnar, fangavörðum og föngum um starfsemi stofnunarinnar. Við gátum dregið saman nokkra þætti sem allir áttu sammerkt og það er alveg ljóst að á þeirri stofnun er mjög áríðandi að koma upp meðferðardeild við upphaf afplánunar þeirra fanga sem eru háðir áfengi, nikótíni eða sterkum efnum. Nær 90% fanganna reykja og langflestir þeirra eru í einhvers konar neyslu. Þeim er ekki boðið upp á meðferð fyrr en í lok afplánunartímans og ég vil koma þeirri ábendingu á framfæri hér að mjög brýnt er að veita fjárframlag til fangelsisins Litla-Hrauns til þess að koma á laggirnar slíkri stofnun.