Endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 19:06:44 (3761)

2002-01-29 19:06:44# 127. lþ. 62.22 fundur 405. mál: #A endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[19:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta er hógvær tillaga en þó bylur undir sögulegur þungi. Ég hugsa að mörgum finnist sú hugmynd mikilúðleg sem felst í þessari tillögu að því leyti að í greinargerð hv. flutningsmanna er gert ráð fyrir því að endurheimt hylsins, Drekkingarhyls í Almannagjá, verði helguð minningu þeirra kvenna sem þar var drekkt á sínum tíma. Mér hugnast samt þessi hugmynd þó að verið geti að ýmsum ói hún. Ég kem samt hér upp sem einn af þeim sem Alþingi hefur falið þann trúnað að sitja fyrir sig í Þingvallanefnd en tillögunni er í reynd beint til Þingvallanefndar sem er kosin beint af Alþingi.

Við höfum í Þingvallanefnd reynt að fylgja þeirri stefnu um allt sem varðar framkvæmdir innan þjóðgarðsins, eða hins friðaða lands, sem okkur er falin yfirstjórn yfir að þær séu í anda hins upprunalega svipmóts landsins. Þannig vísa ég til þess, herra forseti, að staðið hafa yfir umræður á síðasta ári um skógrækt á þessu svæði. Mörgum er þyrnir í auga að sjá hvernig útlendur trjágróður hefur verið gróðursettur á hinu friðaða landi. En það er stefna okkar í Þingvallanefnd að þótt við viljum ekki ráðast með sög og exi að þessum skógi ætlum við ekki að endurnýja hann þegar hann deyr drottni sínum í fyllingu tímans. Við höfum sömuleiðis ráðist í það að taka burt þessi erlendu tré á ýmsum svæðum í grennd við Þingvallastað. Þessi tillaga er í þessum sama anda.

Ég get þess líka, herra forseti, vegna þess að mér er nokkuð annt um þá lífveru sem nú á allt sitt undir Öxará sem Drekkingarhylur er í, og ég hef stundum kallað hátindinn á sköpunarverkinu hér á norðurhjaranum. Ég er að tala um urriðann. Við höfum líka lagt okkar litla lóð á vogarskál þess að hægt verði að endurheimta hann til fyrri stöðu í Þingvallavatni. Við höfum reynt að beina Landsvirkjun og ýmsum öðrum stofnunum sem koma að tilvist urriðans með einhverjum hætti til þess að ráðast í aðgerðir sem gætu treyst stöðu hans. Nú er það einmitt Öxárá sem í dag er að verða æ gildari lífæð þessa stofns.

En við höfum líka í Samfylkingunni, eða forverum hennar, lagt fram þingmál hér á Alþingi sem miða einmitt að því að endurheimta ána sem vatnið í Þingvallavatni rennur um þegar það hverfur til sjávar, þ.e. Efra-Sog. Fyrir nokkrum árum ræddum við hér í þinginu um að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að menn ryfu gat í stífluna sem lokaði Efra-Sogi á sínum tíma og skar með einu snöggu hnífsbragði á lífsþráð þessa merka urriðastofns. Við höfum líka með ýmsum öðrum hætti reynt að leggja part af okkar litlu fjárveitingum í rannsóknir á þeim stofni.

Stefna okkar í Þingvallanefnd er þannig sú að reyna að varðveita upprunalegt svipfar landsins, upprunalegt lífríki landsins. Við höfum ekki heimilað neinar breytingar sem gætu lagst gegn þessu tvennu. Sú tillaga sem hér er lögð fyrir Alþingi felur í sér að Þingvallanefnd láti kanna hvernig hægt er að sjá svo til að Drekkingarhylur nái aftur sínum forna svip. Þessi tillaga gengur þess vegna ekki langt og það ætti að vera útlátalítið fyrir hið háa Alþingi að samþykkja hana. Eins og segir í niðurlagsorðum höfunda tillögunnar er t.d. hægt að gera þetta með því að kanna þá kosti sem gætu gert veruleika úr tillögunni og leggja mat á hvað það kostar. Ég held, herra forseti, að þetta sé ákaflega lítið skref en gæti auðvitað verið byrjunin á nokkuð góðri ferð og þess vegna lýsi ég sem fulltrúi þingsins í Þingvallanefnd eindregnum stuðningi við þessa sérkennilegu en góðu tillögu.