Breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:10:13 (3892)

2002-02-04 15:10:13# 127. lþ. 68.91 fundur 303#B breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur legið fyrir lengi að segja má um fjármál Ríkisútvarpsins að þar sé allt í grænum sjó og hefur verið. Það lá fyrir að gera átti einhverja bragarbót með því að leyfa hækkun á afnotagjöldum. Til að koma í veg fyrir enn verri kollsteypu sem útlit var fyrir í ríkisfjármálunum var sú hækkun afturkölluð enda hefur komið í ljós að hún svaraði einungis því sem Ríkisútvarpið skuldar Sinfóníunni, þ.e. 140 millj. kr. svo segja má að ekkert hafi verið gert, hvorki í þessum ráðstöfunum sem gerðar voru fyrir jólin né núna og ekkert liggur fyrir, t.d. engin svör frá hæstv. fjmrh. um það til hvaða ráðstafana eigi að grípa í fjármálum Ríkisútvarpsins. Það er mikið áhyggjuefni að fyrir skuli liggja að þar skuli vera svo slæmt ástand sem raun ber vitni og hér fáist á hinu háa Alþingi engin svör þegar spurt er hvaða ráð séu til úrbóta.