Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 20:19:09 (3970)

2002-02-04 20:19:09# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[20:19]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Frv. hefur nú verið nokkuð vel kynnt og fyrir hvað það stendur en með því er ætlunin að leggja niður einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og gera einkaaðilum kleift að selja áfengi, bjór og létt vín í matvöruverslunum eða verslunum með aðra vöru með leyfi sveitarstjórna, eða allar tegundir áfengis í sérverslunum, ef leyfi sveitarstjórnar fæst.

Hér hefur því verið haldið fram, herra forseti, að með frv. muni þjónusta við hinar dreifðu byggðir aukast. Ég tel aftur á móti að ef frv. verður samþykkt muni þjónustan hugsanlega verða lakari, þ.e. í vöruúrvali, og ætla ég að færa fyrir því nokkur rök.

Það er ekki að ástæðulausu að sérstök lög eru um áfengi og tóbak því að áfengi og tóbak eru ekki eins og hver önnur neysluvara og það er vegna þeirra heilsufarslegu áhrifa sem bæði áfengið og tóbakið hefur. Markmiðið með einkasölu ríkisins á áfengi er að draga úr neyslu þess með takmörkuðum aðgangi. Þetta hefur í gegnum tíðina verið mjög heillavænlegt fyrir okkur. Við höfum með þessu náð ákveðnu forvarnastarfi sem hefur gerst eingöngu í gegnum það fyrirkomulag okkar að ríkið eitt skuli sjái um söluna. En viðhorf okkar til neyslu hefur breyst og þar með viðhorf okkar til þjónustu ÁTVR og stöðugt er aukin krafa um að áfengisútsölur séu á öllum þéttbýlisstöðum og þar sem því verður við komið eða þar sem markaðurinn er nægilega stór, sérverslanir með ákveðnar tegundir vína. Þessu hefur þegar verið komið á á höfuðborgarsvæðinu en það segir sig sjálft að sérverslanir með vín verða ekki reknar og settar upp úti í hinum dreifðu byggðum. Það er hægt að gera á höfuðborgarsvæðinu, hugsanlega væri hægt að gera það á Eyjafjarðarsvæðinu eða á Akureyri, á Ísafirði hugsanlega, en á öðrum stöðum vantar markaðinn á bak við þessar sérútsölur.

Nefnt hefur verið að það muni hugsanlega styrkja matvöruverslunina úti á landi að fá söluna til sín. Í dag er heimild fyrir því að ÁTVR sé með útsölu með annarri verslun og það fyrirkomulag hefur tíðkast víða um land. Sjálf er ég ekki hrifin af því fyrirkomulagi. Ég vil að ÁTVR sé með sérverslanir, sé með sérútsölu á hverjum þéttbýlisstað og fái til þess leyfi frá fjmrn. og beiðnir ÁTVR um fleiri útsölur verði afgreiddar jákvætt og sölu áfengis verði haldið í sérhæfðum verslunum.

En þetta hefur verið að færast á hinum minni stöðum yfir í blandaða útsölustaði. Það er því ekkert sem segir að það að færa einkaaðilum þetta leyfi muni bæta þjónustuna, því að ef við ætlum einkaaðila að selja í blandaðri verslun þá mun hann ekki selja annað en létt vín og bjór. Ekki er verið að tala um það í frv. að leyfa eigi sölu allra áfengistegunda og það sterkra í matvöruverslunum, heldur eingöngu létt vín og bjór.

Hvernig stendur þá sérverslun ÁTVR eftir á staðnum þegar þær tegundir sem mest seljast eru farnar inn í matvöruverslunina? Hver verður þá rekstrargrundvöllur ÁTVR í sérversluninni á þessum sama stað til að selja hinar sterkari tegundir? Nei, herra forseti, ég er hrædd um að í staðinn fyrir aukið framboð muni að öllum líkindum þjónustan í minni kaupstöðum versna vegna þess að ef við erum að tala um frekar fámenna staði þá eru umsvifin ekki svo mikil að einkaaðila þyki hann græða nægilega mikið eða hafa nóg upp úr því að setja upp sérverslun á litlum stöðum. Gróðinn kemur í gegnum léttvínið og bjórinn sem yrði seldur í matvöruverslunum. Eftir stæðu síðan staðir sem hafa alla þjónustu ÁTVR í dag frá bjór og upp í hin sterkari vín og með skerta þjónustu ef ÁTVR lokaði útsölunni vegna þess að rekstrargrunnurinn væri brostinn. Þannig getur það nú farið.

Það gilda heilbrigðissjónarmið og vissulega gilda hér líka reglur um auglýsingar á áfengi. Ef við ætlum matvöruversluninni að hafa ákveðinn metrafjölda eða prósentu af hillurými undir bjór og létt vín þá munu söluaðilar ná söluaukningu með því að koma þessum vörutegundum að inni í versluninni þannig að það verði sem mest áberandi og aðgengilegt því að til þess er jú leikurinn gerður. Þetta mundi verða eins og með sælgætisrekkana í dag, ekki væri verið að auglýsa bjórinn sérstaklega, hann væri bara þarna beint fyrir augum kúnnanna. Hann mundi auglýsa sig sjálfur á nákvæmlega sama hátt og þegar leyfilegt var að hafa tóbakið í hillum verslana þannig að tóbakið sást. Þá voru tóbaksvörurnar alltaf í þeim hillum sem voru mest áberandi. Ég er því hrædd um að óbeinar auglýsingar verði á léttvíni og bjór í gegnum uppstillingu í versluninni.

Herra forseti. Ekki er verið að draga dul á að þessi breyting mun auka neyslu. Hún er söluhvetjandi í sjálfu sér og verið er að vísa til þess að neysluvenjur okkar hafi breyst, og sem betur fer hafa þær gert það, en breyting á aðgengi, þessu sölumunstri, mun ekki eingöngu höfða til hófdrykkjumanna þannig að þeir einir auki neysluna, heldur mun þetta auðvitað auka neyslu hjá öllum og auka aðgengi þeirra sem síst skyldi, sem væru þá unglingar og þeirra sem eiga við áfengisvanda að stríða.

Hér gilda lög um afgreiðslu á áfengi. Ef áfengið er komið inn í matvöruverslanirnar þá getum við séð fyrir okkur langar raðir við kassana á föstudögum, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu, og ef bjórinn á að renna í gegn með mjólkinni þá er ég hrædd um að það verði nú ekki alltaf gáð að passanum og erfiðara verði að fylgjast með aldri kaupendanna en er í dag, en talað er um að setja þurfi ákveðnar reglur um slíkt.

[20:30]

En þetta má allt leysa, herra forseti, með því að leyfa ÁTVR að sinna betur þjónustunni en hún gerir í dag, fjölga útibúum og takmarka ekki vöruflokka á landsbyggðinni heldur leyfa útibússtjórunum sjálfum að ráða vöruflokkunum. Vilji kaupandinn fá tegundir sem ekki eru á sölulista viðkomandi útibús á hann að geta pantað þær sér að kostnaðarlausu. Þetta mundi auka þjónustuna, að gefa kost á að sérpanta vöruna án aukakostnaðar fyrir kaupandann. Vissulega þarf ÁTVR að fylgja kröfum tímans. Við eigum að standa við stofnunina, styrkja hana og auka þjónustuna.

Það er talað um að við þetta frv. muni útsölustöðum fjölga. Ég sé það fyrir mér á höfuðborgarsvæðinu að það muni gerast, m.a. hvað varðar sérverslanir af ýmsum toga. Hér er markaður fyrir slíka sérþjónustu og vissulega gæti hún staðið til boða í matvöruverslununum. Ég sé hins vegar ekki að útsölustöðunum fjölgi í sjálfu sér svo mikið úti á landi, að sérverslunum fjölgi fyrir utan þá matvöruverslanirnar. Það þarf stóran markhóp fyrir slíka verslun. Ég er ekki viss um að þessi sýn sé annað en tálsýn hvað varðar sérverslanir úti á landi.

Þetta frv. er sannarlega gleðigjafi fyrir Samtök verslunarinnar og verslunareigendur, sérstaklega í matvöruverslunum, sem telja að þarna fái þeir aukna veltu og álagningu. Að sama skapi er ég alveg viss um að þetta muni veikja sérverslanir ÁTVR úti um land.

Einn af mörgum kostum við að hafa ÁTVR, að hafa sölu áfengis á hendi ríkisins, er að það er sama verð á vörunni úti um allt land að því slepptu að sérpantanir kosta aukalega, og því þarf sannarlega að breyta, herra forseti. Það verður erfitt að framfylgja banni á því að auglýsa áfengið í matvöruverslunum vegna þess að uppstillingin sjálf mun vera besta auglýsingin. Með aukinni vörudreifingu verður aukin áfengisneysla og hún hefur áhrif á heilsufar. Einokun ÁTVR færist yfir á einokun smásöluverslunarinnar. Við í þessum sal höfum öll orðið vitni að því hvernig hún er orðin í dag. Það verður einokun stórra verslunarkeðja, og rétt eins og vöruverð hefur hækkað held ég að varasamt sé að treysta því að hið aukna framboð þýði lækkun á vöruverði léttvíns og sterkra vína.

Ég vona, herra forseti, að við höfum ráð á hinu háa Alþingi til að treysta byggð og verslun í landinu með öðrum ráðum en að stefna að því að afgreiða þetta frv.