Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:47:01 (3985)

2002-02-04 21:47:01# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:47]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram varðandi þessar hugleiðingar hæstv. forseta þingsins að ég tel að við eigum að leyfa ÁTVR að fjölga útsölustöðum þar sem ÁTVR telur rekstrargrundvöll fyrir sérþjónustu. Það á að bæta þjónustuna við landsbyggðina með því að treysta útsölustjórunum fyrir því hvaða tegundir þeir vilja selja og hve margar af hverri sort.

Það á að bæta þjónustu við þá sem vilja fá tegundir sem ekki eru seldar í viðkomandi útibúi með því að sérpanta og ef þeir sæki vöruna í áfengisútsölu sé engin sérstök greiðsla fyrir það, þ.e. sé það sérpantað sem fæst í öðrum verslunum.

Ég sé hins vegar ekki að þeir sem búa til sveita fái betri þjónustu þó að þetta frv. verði að lögum. Frv. yrði hugsanlega til þess að fleiri sérverslanir verði opnaðar í þéttbýli. Það verður alls staðar meira aðgengi en þá erum við ekki að líta á stjórn þessara mála út frá heilbrigðissjónarmiðum heldur út frá rekstrarlegum sjónarmiðum og hagsmunum kaupmanna en ekki neytenda.