Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:32:55 (4010)

2002-02-05 13:32:55# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sagan af sölu Símans er að verða sagan endalausa. Það er einhver makalausasti farsi seinni tíma sem við höfum horft upp á.

Í síðustu viku, herra forseti, urðu hér umræður utan dagskrár um stöðuna í þessum málum. Hæstv. samgrh. talaði þá með þeim hætti að ekki var hægt að skilja annað en allt væri í góðum gangi. Hæstv. samgrh. sagði að hann legði áherslu á að vanda ferilinn og hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Við vinnum þetta eftir vinnulagi og þeim áformum og áætlunum sem við höfum gert.``

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur talað með þeim hætti að það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að allt sé í ákaflega fínu lagi í þessum viðræðum.

Nú er það svo, herra forseti, að Reuter-fréttastofan birti í gær frétt þar sem haft var eftir Henning Dyremose, sem er yfirmaður þess danska fyrirtækis sem einkavæðingarnefnd á í viðræðum við, að það væru engar viðræður í gangi. Maður hlýtur auðvitað að spyrja hæstv. samgrh.: Er vinnulagið það að hafa engar viðræður í gangi? Hæstv. samgrh. sagði líka að það kæmi að sjálfsögðu ekki til greina að hnika frá því verði sem fram hefði verið sett. Henning Dyremose svarar því með því að segja: Ef þeir lækka ekki verðið, þá verður ekki af neinum kaupum. Við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að kaupa á þessu verði.

Ég hlýt þess vegna, herra forseti, að rifja upp að frá einkavæðingarnefnd komu skömmu upp úr 8. desember fregnir um að borist hefðu bindandi kauptilboð, m.a. um verð. Ég spyr því í fyrsta lagi: Voru það rangar upplýsingar hjá einkavæðingarnefnd? Í öðru lagi hlýt ég að spyrja hæstv. samgrh.: Er það svo að viðræðurnar um sölu Símans séu sjálfdauðar? Eru þær sigldar í strand? Eru viðræður eða eru ekki viðræður? Er verið að selja Símann eða er ekki verið að selja Símann?