Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:48:37 (4018)

2002-02-05 13:48:37# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. kom hér, snerist til varnar fyrir hæstv. samgrh. og ríkisstjórnina í þessum málum og spurði: Hvert er vandamálið? Þetta fyrirtæki verður auðvitað ekki selt nema viðunandi verð fáist.

Herra forseti. Veruleikinn er þessi: Verðið á þessu stóra fyrirtæki, þessari þjóðareign okkar, hefur hrapað á síðustu vikum og mánuðum. Nú liggur fyrir að sá einasti aðili meðal bjóðenda sem eftir er, Tele Danmark, hefur slitið viðræðum. Það liggur einnig fyrir eftir yfirlýsingar hæstv. samgrh. hér áðan að þessum einasta aðila sem eftir er hafi verið tilkynnt um að seljendur, íslensk yfirvöld, hyggist taka upp viðræður við aðra sem buðu og lýstu yfir áhuga á kaupum. Málið er því allt í óefni komið.

Það kann að vera býsna mannalegt hjá forsrh. að koma hér og segja: Það er engin vá fyrir dyrum. Það er allt í prýðilegu standi. Það er svipað því og hæstv. forsrh. hefði sagt á síðustu dögum og vikum að það væri engin verðbólga á Íslandi þó að allir viti hið gagnstæða. Veruleikinn er bara þessi, herra forseti, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Einasti kjölfestukaupandin sem eftir var skilinn og valinn var úr er hættur að tala við okkur og nú á að snúa hjólinu aftur um nokkra kílómetra og sjá hvort þeir séu enn til staðar, þeir sem áður höfðu lyst meðal kjölfestufjárfesta. Verðið er í algeru lágmarki og liggur við að maður spyrji, þó maður megi auðvita ekki gera það þegar menn eru í erfiðum samningaviðræðum: Hversu lágt má verðið fara? Við erum ekki að tala um neina smáaura. Við erum að tala um milljarða kr., tugi milljarða kr.

Herra forseti. Að lyktum þetta: Þögn Framsfl. í þessu máli er hrópandi, hún er hrópandi.