Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:32:22 (4043)

2002-02-05 15:32:22# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið hér við 1. umr. þessa frv. til að koma á framfæri örfáum ábendingum til hv. nefndarmanna í allshn. og svo munum við að sjálfsögðu ræða þetta gagnmerka frv. mjög ítarlega við 2. umr. hér á hinu háa Alþingi.

Fyrir það fyrsta, herra forseti, vil ég vara við því að ný stefna dönsku ríkisstjórnarinnar, íhaldsríkisstjórnarinnar í Danmörku, verði notuð sem leiðarljós fyrir Alþingi Íslendinga og hv. allshn. Ég þarf ekki að hafa um það fleiri orð, herra forseti, en ég vil vara við því.

Mig langar til að minnast á tvennt annað hér. Fyrst út af greininni um námskeið í íslensku vil ég taka undir með hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur um hvort ekki væri nær að slíkt námskeið héldist í hendur við ríkisborgararéttinn. Ég tel einnig einboðið, herra forseti, að ekki sé gjaldtaka fyrir slík námskeið. Það hlýtur að vera okkur öllum til hagsbóta að gefa fólki kost á að læra íslensku og geta þá tekið þátt í samfélaginu með sæmilegum hætti. Fyrst við erum að tala um námskeið ætla ég að leyfa mér að slá því fram hér, herra forseti, hvort ekki væri gagn að því að við það að verða íslenskir ríkisborgarar yrði fólki líka gefinn kostur á því að sitja námskeið um mannréttindi og lýðréttindi, um grundvöllinn að því samfélagi sem við byggjum, um stjórnskipulegan rétt hér á landi og um réttindi fólks almennt. Ég leyfi mér að varpa þessu hér inn í umræðuna, herra forseti, m.a. vegna þeirra hörmulegu tíðinda sem borist hafa frá Svíþjóð þar sem faðir myrti dóttur sína af því að hún hugðist eiga, eða átti, annan mann en þann sem hann vildi. Í samfélagi okkar og lýðræðissamfélögum efast vonandi enginn um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Glæpur sem þessi hefði auðvitað aldrei verið framinn ef menn efuðust um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Ég leyfi mér að setja þetta hér í þetta samhengi og líka svona almennt vegna þess að það er auðvitað ákveðin ábyrgð sem fylgir því að búa í lýðræðissamfélagi, því fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur, en við verðum að gera fólki kleift að taka þátt í samfélaginu og það hlýtur að standa upp á stjórnvöld að koma því þannig fyrir.

Í annan stað, hæstv. forseti, vil ég nefna flóttamannahugtakið. Það er vissulega skilgreint í hinum ágæta sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1951 en sá sáttmáli er auðvitað barn síns tíma. Í heiminum í dag eru ýmsar aðrar aðstæður uppi en voru þá og ýmislegt hefur sem betur fer farið fram á veginn í mannréttindabaráttunni og ýmislegt komist inn í umræðuna og augu fólks opnast fyrir vandamálum sem kannski voru ekki efst á baugi um miðja síðustu öld. Ég ætla að leyfa mér að nefna tvennt. Auðvitað byggjum við á þessum alþjóðasáttmálum og samningum en við getum alltaf gert betur og við getum alltaf leitt hér í lög ákveðin atriði sem við viljum hafa í hávegum. Mér finnst t.d. mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt hér á landi að flóttamannahugtakið eigi við þær konur sem eru á flótta vegna ofbeldis sem þær eru beittar, hvort heldur er heimilisofbeldi eða t.d. umskurður. Ég vil beina því til hv. allshn. að taka það til skoðunar. Ég vil líka nota tækifærið og taka undir það sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir sagði um réttindi barna. Við erum að tala um börn sem eru vegalaus, ein síns liðs. Það gerist víða, reyndar ekki í Evrópu, en t.d. víða í Afríku að börn eru hreinlega ein síns liðs að ferðast á milli landa af ýmsum ástæðum, yfirleitt vegna örbirgðar, en því miður er það þannig hér í þessari álfu að oftast eru þau send af einhvers konar glæpaklíkum. Auðvitað eru sakamálin eitt, herra forseti, en annað er þegar börnin eru hingað komin, hvernig við tökum á móti þeim og að við séum viðbúin eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir sagði.

Rétt í lokin langar mig að víkja aftur að flóttamannahugtakinu. Það verður líka að vera tryggt að hægt sé að veita fólki vernd gegn því sem kallast á enskri tungu ,,none-state actors``. Það eru fleiri sem ofsækja en ríki og herir og ríkisstjórnir, t.d. skæruliðahópar og mér detta í hug eiturlyfjaklíkur einhvers staðar í Suður-Ameríku. Ýmsir hafa verið á flótta undan slíkum glæpamönnum. Auðvitað er þetta ákveðinn lagalegur vandi, ég geri mér grein fyrir því, en ég held að það sé fyllilega þess virði að hv. allshn. skoði þennan flöt á verndun flóttamanna eins og aðra þá sem vafalaust verður farið ítarlega yfir í nefndinni.