Eldi nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 17:07:45 (4069)

2002-02-05 17:07:45# 127. lþ. 69.8 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um eldi nytjastofna sjávar sem hæstv. sjútvrh. leggur fram. Segja má að tími sé til kominn. Hér erum við ekki að fjalla um frv. til laga um breytingu á lögum, þetta yrðu ný lög.

Það verður að segjast eins og er að það er ágætt að slíkt frv. skuli koma fram. Áhugi manna fyrir á ýmiss konar eldi sjávardýra, fiska og annarra sjávardýra og jafnvel gróðurs, er slíkur að setja þarf reglur um þau mál. Það getur komið upp sú staða að margir vilji koma á eldi á einum og sama staðnum og alls konar árekstrar komið upp. Þá er nauðsynlegt að hafa reglur í þeim anda að jafnræðis sé gætt meðal þegnanna. Við getum hugsað okkur að tveir, þrír aðila sæki um leyfi til að vera með fiskeldi í einum og sama firðinum. Þá geta komið upp deilur um hver eigi að fá leyfið og þá er eins gott að það séu til ákveðnar reglur sem sjá svo um að jafnræðis og réttlætis sé gætt við slíka úthlutun.

Við höfum orðið vör við það, herra forseti, að mikil umræða er um þorskeldi í landinu í dag. Mig langar til að minna á, í þessu sambandi, að ég hef lagt fram þáltill. um rannsóknir á þorskeldi ásamt öðrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég er ánægður yfir því hversu góðar og jákvæðar undirtektir sú þáltill. hefur fengið, bæði hér í þinginu og annars staðar. Allt ber þetta að sama brunni.

Ég vona heils hugar, herra forseti, að við eigum eftir að eiga góða framtíð í eldi á nytjastofnum sjávar og að það verði til að auka tekjur samfélagsins og þjóðarinanr svo að við getum eflt og styrkt skólana, sjúkrahúsin, vegakerfið og margt annað. Allt verður þetta að haldast í hendur. Atvinnulífið verður að vera gott og styrkt og gefa af sér góðar tekjur svo að við getum haldið áfram að byggja gott samfélag þar sem við hugum vel hvert að öðru og látum okkur annt um náungann með góðum sjúkrahúsum og skólum, eins og ég áður sagði.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að setja lög um þetta en samt má velta einu fyrir sér. Við getum hugsað okkur fjörð, breiðan eða ekki breiðan, þar sem væri t.d. laxeldi og þorskeldi hlið við hlið. Samkvæmt þessu frv. væri gert ráð fyrir því að laxeldið yrði undir landbrn. en þorskeldið undir sjútvrn. Hér gæti jafnvel sama fyrirtækið verið á ferðinni. Þetta er svona spurning um hvernig þetta yrði útfært og unnið, hvernig koma má í veg fyrir of mikið skrifræði í kringum þessa hluti.

Í frv. er talað um það, herra forseti, að Hafrannsóknastofnun skuli veita umsögn og Hollustuvernd ríkisins. Við hljótum náttúrlega að horfa til þeirra stofnana sem við höfum í dag en það má jafnvel hugsa sér að skólar, háskólar eða aðrar stofnanir sem farnar eru að beina sjónum sínum mjög að eldi nytjastofna sjávar, t.d. Háskólinn á Akureyri --- ég held að hann búi yfir nokkurri þekkingu á þessu sviði, t.d. þorskeldi --- og aðrir rannsóknaraðilar komi að.

Þá vil ég geta þess að ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að á sama stað séu til upplýsingar og gögn um þekkingu sem við höfum aflað okkur í fiskeldi. Mér er kunnugt um að í nokkrum fjörðum --- ég veit ekki hversu mikið --- hafa verið gerðar tilraunir með kræklingaeldi. Kræklingur er mikið etinn víða um lönd, í tugum tonna, kannski hundruðum tonna, t.d. í Belgíu. Ég held að við ættum að gefa aukinn gaum að eldi nytjastofna sjávar, t.d. þorskeldi, eins og fram hefur komið í þáltill. undirritaðs og fleiri.

Einnig hefur verið talað um kúfisk og önnur sjávardýr sem við samfylkingarmenn höfum lagt áherslu á í ýmsum þáltill. Við sjáum að við hljótum að þurfa að fara að taka til hendinni í þessum málum. Ekki einungis vegna þess að við sjáum að aðrir séu að þessu og við þurfum að fylgjast með heldur líka vegna hagsmuna samfélagsins og þjóðarinnar. Við teljum að halda þurfi töluvert vel utan þessi mál.

Herra forseti. Ég tek undir að það er náttúrlega nauðsynlegt að þessi lög komi hér fram og að þess verði gætt í öllum reglum um úthlutun leyfa að þau verði veitt á grundvelli jafnræðisreglunnar og reynt verði að hafa sem mestan og bestan frið um þær úthlutanir. Mér er kunnugt um að í útlöndum, t.d. í Noregi, er nokkur slagur á þessu sviði. Ég vona að við berum gæfu til þess, herra forseti, --- ég veit að hæstv. sjútvrh. vill örugglega hafa þann háttinn á --- að friður sé í þessum málum.