Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 18:44:44 (4089)

2002-02-05 18:44:44# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég geti fullyrt að fjármálastjóri Landsvirkjunar hafi sagt þetta á orkuþingi og hugsanlega víðar einnig, en nú vil ég taka það fram að fjármálastjóri Landsvirkjunar er því fylgjandi að ráðast í þessa framkvæmd. Hann er líka fylgjandi því að Landsvirkjun sé niðurgreidd. Hann er fylgjandi því að hún sé ekki gerð að hlutafélagi. Hann var að vísa til þess hvað gerðist ef stefna ríkisstjórnarinnar sem hér hefur verið boðuð, að gera Landsvirkjun að markaðsfyrirtæki sem yrði að haga sér samkvæmt lögmálum markaðarins, hvað þá mundi gerast, að þá yrði ekki ráðist í þessa framkvæmd.

Þegar ég tala um dýrkeypta atvinnusköpun er ég að vísa í röksemdir hagfræðinga sem telja að þegar dæmið er gert upp muni þessi framkvæmd leggja á þjóðina klyfjar og þeir vísa til þeirra valkosta sem við höfum við að byggja upp atvinnu í landinu. Að þetta sé röng aðferð sem við erum að beita, við eigum að fara aðrar leiðir. Þegar vikið er að útflutningsverðmætum sem álið og stóriðjan skapar okkur þá eru þeir að leggja áherslu á að við eigum að fara aðrar leiðir og hagstæðari í slíkri verðmætasköpun. Mér þætti vænt um ef hv. þm. svaraði því hvort hann hafi kynnt sér röksemdir þessara ungu hagfræðinga. Hefur hv. þm. t.d. kynnt sér grein Sigurðar Jóhannessonar hagfræðings í Vísbendingu frá því í desember? Hefur hann farið í gegnum þær röksemdir sem þar eru leiddar fram?