Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:04:00 (4097)

2002-02-05 19:04:00# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:04]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, hefur einatt verið skýr í svörum og glöggur og minnisgóður á það sem fram hefur farið. En eins og hann talaði hér sýnist mér sem tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að efla atvinnulíf á Austurlandi hafi farið fram hjá honum. Það var ekki ég sem byrjaði að tala um þessar tillögur. Það var hv. 17. þm. Reykv., Kolbrún Halldórsdóttir, sem kom upp og spurði mig hvort ég vissi ekki (Gripið fram í.) um tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í atvinnumálum eins og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vildi endilega styrkja atvinnulíf og mannlíf á Austurlandi. Nú spyr ég enn af því að hv. þm. á eftir að tala aftur: Hvaða tillögur eru það um að efla atvinnulíf á Austurlandi sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur flutt sem hægt er að nefna í sömu andránni og Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð?