Framhald umræðu um skýrslu um byggðamál

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 13:38:05 (4125)

2002-02-06 13:38:05# 127. lþ. 70.93 fundur 311#B framhald umræðu um skýrslu um byggðamál# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt á það ríka áherslu að þingmannamál og ekki síst úr stjórnarandstöðu verði tekin hér til umfjöllunar á þingi.

Hinu hafa þeir ekki ráðið að ríkisstjórnin og stjórn þingsins hefur jafnan sett í forgang þau mál sem koma frá ríkisstjórninni og að sjálfsögðu ber ríkisstjórninni að svara fyrir stefnu sína í byggðamálum og það er samkvæmt lögum sem fjallað er um Byggðastofnun og framvindu byggðaáætlunar. Og það er ófært að þeirri umræðu sem fram fór í fyrri hluta desembermánaðar skuli hafa verið frestað fram á þennan dag og ekki fyrirséð hvenær hún verður tekin aftur á dagskrá. Eins og hér hefur verið upplýst voru 10 manns á mælendaskrá þegar umræðunni var frestað.

Hér á Alþingi hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs beitt sér fyrir umræðu um byggðamál. En það er ekki nóg að við höfum skýra stefnu í byggðamálum. Það er ríkisstjórnarinnar að sjálfsögðu að svara fyrir þá stefnu sem hér hefur verið birt og hér hefur verið rekin með þeim afleiðingum sem allir þekkja, því miður.