Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 16:02:41 (4195)

2002-02-06 16:02:41# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa tekið þetta mál hér fyrir. Jafnframt þakka ég samgrh. fyrir þær upplýsingar sem hann veitti okkur áðan. Ljóst er að umferð á Hellisheiði hefur aukist stórlega seinni ár. Kemur þar t.d. til mikil umferð ferðafólks og fólks sem sækir sumarhús sín. Það má segja að umferð um Hellisheiði eða íbúatala Árnessýslu tvöfaldist á tímum yfir sumartímann. Auk þess eru gríðarlegir þungaflutningar inn á Suðurland sem ná allt að Austfjörðum.

Þegar við ræðum um lýsingu á Hellisheiði annars vegar og lýsingu í dreifbýli hins vegar held ég að við megum ekki blanda þeim málum saman vegna þess að Hellisheiðin er orðin hluti af Stór-Reykjavíkursvæðinu og heyrir ekki að öllu leyti undir dreifbýli Íslands. Við þurfum því að vinna málinu brautargengi með tilliti til þessa.