Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 16:05:15 (4197)

2002-02-06 16:05:15# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÓB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Björnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka samgrh. fyrir skýr og greinargóð svör við fyrirspurninni og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er ljóst að það þarf að vinna því brautargengi í endurskoðaðri vegáætlun að fjármunir komi í þessa framkvæmd. Það þarf að koma þeim líka inn í hina samræmdu samgönguáætlun sem talað er um. Mér líst mjög vel á þær hugmyndir, að þar komi fram ákveðin stefna í sambandi við lýsingu þjóðvega. En ég tek undir með hv. þm. Kjartani Ólafssyni að það ber að horfa til þess að Árborgarsvæðið, Selfoss, Hveragerði og Þorlákshöfn, má telja sem hluta af suðvesturhorninu. Gríðarlega margir keyra þar um til vinnu daglega, fleiri hundruð manns. Fjöldinn fer vaxandi og búseta er í auknum mæli þannig að menn búa fyrir austan og vinna hér eða öfugt.

Hinn mikli fjöldi ferðaþjónustuhúsa á Suðurlandi kallar líka á mjög mikla umferð svo sem bent er á. Þess vegna er eðlilegt að í fjármögnun þessara framkvæmda verði ekki eingöngu litið til fjár frá Suðurlandskjördæmi heldur að horft verði heildstæðar á myndina. Ég á von á því að horft verði til þess í samgönguáætlun. Það eru auðvitað ekki síður hagsmunir íbúa Stór-Reykjavíkursvæðisins að þessar samgöngur austur yfir fjall verði traustari og betri, auðveldari, og það er mikið hagsmunamál fyrir okkur Sunnlendinga að þetta komist í ákveðinn forgang og hafi ákveðinn forgang. Þetta mál hefur dregist of lengi. Það er vaxandi þungi fyrir austan fjall sem lýsir sér best í því að í fyrra söfnuðust yfir 5.000 undirskriftir sem samgrh. fékk. Vinir Hellisheiðar stóðu fyrir þeim og það segir mér vel að mikill hugur er á bak við það og vilji að þessar vegaframkvæmdir og þessi vegabót megi eiga sér stað.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill benda þingmönnum á að ráðherrar eru ávarpaðir hæstv. ráðherrar.)