Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 13:39:46 (4245)

2002-02-07 13:39:46# 127. lþ. 73.2 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég orðaði í morgun í andsvari við hæstvirtan ráðherra ákveðna hugmynd og vil gera hér betur grein fyrir því hverju ég var þar að varpa fram. Ég vil leggja það til að við bráðabirgðaákvæði II um ríkisstyrki verði hugað að því að setja inn svofellda reglu:

Hafnir sem á undanförnum tíu árum hafa orðið fyrir meiri tekjusamdrætti en sem nemur einhverju x, sem gæti verið einn fimmti eða einn þriðji af meðaltekjum viðkomandi hafnar á liðnum tíu árum, skulu eiga rétt á rekstrarstyrk næstu fimm ár eftir gildistöku laga þessara sem nemi hálfum tekjusamdrætti hafnarinnar á fyrsta ári en lækki síðan um 10% árlega uns styrkurinn fellur niður að fimm árum liðnum.

Þetta legg ég til hér í þessari umræðu og vona að þetta verði skoðað vel í hv. samgn. Hér er eingöngu verið að taka á hugsanlegum vandamálum sem hafa fylgt verulegum tekjusamdrætti ákveðinna hafna á landi hér á undanförnum árum. Ég tel rétt að leggja það til að slík heimild sé inni í þessum lögum.