Yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:29:10 (4273)

2002-02-07 15:29:10# 127. lþ. 73.93 fundur 321#B yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs# (um fundarstjórn), LB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu um þetta tiltekna mál en vil þó benda á að um það bil hálf öld er liðin síðan þetta átti sér stað síðast, að einhver tiltekinn þingmaður hafi verið víttur, þannig að kannski er vandmeðfarið að halda utan um þetta. Ég skil því hv. þingmenn Vinstri grænna mjög vel, að þeir vilji senda frá sér yfirlýsingu í kjölfarið.

Nú vill bara svo til að hæstv. forseti þingsins er fjarverandi og því er kannski erfitt við þetta að eiga. En ég skil ósköp vel að þeir vilji bregðast við eins og skot. Eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar voru hv. þm. ekki að leggja til að þessi yfirlýsing yrði rædd heldur er þetta yfirlýsing af þeirra hálfu vegna máls sem kom upp.

Ég segi alveg eins og er að ég skil þá vel að vilja setja þetta fram. Það er að mörgu leyti óheppilegt að hæstv. forseti þingsins sé ekki viðstaddur en hins vegar er í sjálfu sér voðalega erfitt að vega og meta hvað ber að gera. Það er hálf öld síðan þetta gerðist síðast og það er ekki eftir neinu fordæmi að fara. Ég verð því að segja að það er ekki alveg viðeigandi, þegar hér er aðeins um yfirlýsingu að ræða, að menn komi upp og tjái sig líkt og ýmsir stjórnarliðar hafa gert í þessari umræðu.