Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:32:40 (4292)

2002-02-07 16:32:40# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frv. og styð það algjörlega. Hv. þm. Pétur H. Blöndal mælti gegn hinni almennu reglu sem lögð er til í þessu frv., nefndi nokkur dæmi og ég get tekið undir með hv. þm. að hægt er að hugsa sér nokkuð öfgakennt dæmi sem gæti leitt til þess að það mundi raska ró allra sem hlut eiga að máli. En þau tvö dæmi önnur sem hann nefndi tel ég að falli ekki undir það.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar að kynfaðirinn eigi nánast í öllum tilvikum rétt á að fá að þekkja barnið sitt og rétt á, ef hann er sæmilegur maður, að umgangast það. Við höfum aðrar reglur og önnur lög sem gilda um umgengni. Þau lög vernda móðurina og koma í veg fyrir að ofbeldismenn geti í gegnum barnið náð til konunnar. Hv. þm. nefndi sem dæmi konu sem verður þunguð af völdum manns í sambúð, síðan slíta þau henni, hún giftist öðrum manni og saman ala þau upp barnið sem hinn fyrri maður er faðir að. Hv. þm. telur að í því tilviki gætu aðstæður orðið móðurinni mjög til tjóns. Ég dreg það í efa því að ég held að þær reglur sem að öðru leyti gilda um þessi mál verndi móðurina.

Ég held að í ákaflega mörgum tilvikum sé rík þörf, bæði hjá föður og barni, að hafa einhvers konar tengsl, vita hvort af öðru. Ég veit átakanleg dæmi, herra forseti, þar sem faðir slítur sambúð við þungaða sambýliskonu sína. Hann fær að umgangast eldra barnið eftir sambúðarslitin en ekki það sem var í móðurkviði þótt hann feðraði það. Þetta þekki ég persónulega og veit að veldur miklu hugarangri. Þetta frv. er m.a. sett fram til þess að skjóta undir leka af þessu tagi í lögunum.