Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:40:56 (4296)

2002-02-07 16:40:56# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:40]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski einmitt sú forsenda um kynsamband og mikilvægi þess fyrir einstaklinginn sem skilur á milli mín og hv. þm. Við erum með löggjöf um ættleiðingar sem gengur út frá því að hægt sé að mynda samband við barn án þess að það sé kynsamband og það virðist ganga ágætlega. Ég set því stórt spurningarmerki við þá forsendu fyrir öllu frv. að það sé hverjum einstaklingi einhver meðfædd þörf að vita um kynföður sinn eða kynmóður. Það er náttúrlega fjöldi barna sem rofnar úr þeim tengslum.

Síðan er það spurningin með þessa ættgengu sjúkdóma. Ég vil benda á að móðurinni er yfirleitt í lófa lagið að fara fram á barnsfaðernismál. Það gleymist í þessu sambandi að ef kynfaðirinn er góður maður --- og við erum að tala um slétt og fellt þjóðfélag --- hefur móðirin enga ástæðu til að vera á móti því að fara í barnsfaðernismál og finna hinn rétta kynföður. Það er eingöngu í þeim tilfellum þegar hún ekki vill sem þvinga á fram vilja kynföðurins til að eiga aðild að málinu. Ég bendi á þessi jaðarmál vegna þess að ég er að benda á hvar þetta frv. getur valdið skaða. Svo getur vel verið að það sé á margan hátt jákvætt í sambandi við jafnrétti að faðir eigi aðild að málinu en það er ekki alltaf.