Áfengislög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:17:46 (4303)

2002-02-07 17:17:46# 127. lþ. 73.11 fundur 126. mál: #A áfengislög# (viðvörunarmerki á umbúðir) frv., SI
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:17]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. um breytingu á áfengislögum sem felur í sér að óheimilt verður að selja áfengi í vínbúðum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins án þess að á umbúðunum sé viðvörun þar sem fram kemur að áfengisneysla barnshafandi kvenna geti valdið fósturskaða og að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman.

Herra forseti. Ég gerði það að gamni mínu þegar þetta frv. kom fram að spyrja fimm ára gamla dóttur mína og vin hennar á sama aldri hvort ólétt kona mætti drekka vín. Þau svöruðu hneyksluð á svip að auðvitað mætti hún það ekki, hissa á þessari fáránlegu spurningu minni. Sömu viðbrögð fékk ég þegar ég spurði hvort fullur karl mætti keyra bíl. Fimm ára börn eru með það á hreinu að slík hegðan er ekki í lagi. Eigum við þá að ætla að konur og þeir sem aldur hafa til að aka bifreiðum séu það ekki?

Að mínu mati er þetta með öllu óþarft og mun ekki skila sér á nokkurn hátt ef undan er skilið hækkandi vöruverð og minna úrval léttra vína og bjórs, en neysla á þessum vörum hefur verið að aukast á undanförnum árum á kostnað sterkra vína. Framleiðendur erlendis eru margir hverjir svo litlir og vanbúnir hvað tæknileg atriði varðar að þeir geta ekki án vandkvæða strikamerkt flöskur og fyrir hverja flösku sem kemur óstrikamerkt hingað til lands þurfa innflytjendur að greiða ákveðna upphæð, þ.e. fyrir hverja flösku sem strika\-merkt er fyrir þá á frísvæði. Reikna má með svipuðum kostnaði á hverja flösku fyrir ásetningu varnaðarmerkja og auðvitað bætist síðan álagning og annar kostnaður við þá upphæð og því hækkar hver flaska væntanlega verulega til neytenda.

Það tekur suma af stóru erlendu bjórframleiðendunum innan við klukkustund að framleiða allt það magn sem selst á Íslandi á einu ári. Þeir geta auðvitað ekki klárað Ísland á einu bretti vegna endingartíma bjórsins og þess vegna verða allar merkingar á flöskum og dósum að vera litlar og henta þeirra hefðbundnu umbúðum. Langur texti með varnaðarorðum, bæði til ófrískra kvenna og til ökumanna, kæmist einfaldlega ekki fyrir og þar af leiðandi gætu þessir framleiðendur ekki framleitt bjór fyrir Ísland með merkingum, og afleiðingin af þessu yrði sú að innlendir framleiðendur hagnast því að þeir geta haft varúðarmerkingar á sínum hefðbundnu umbúðum. Innflytjendur verða því í verri stöðu en innlendir framleiðendur sem geta gert ráð fyrir merkingum við framleiðslu umbúða sinna og þurfa þar af leiðandi ekki að setja merkimiða á umbúðir sínar.

Hvergi í Evrópu er gert ráð fyrir merkingum sem þessum. Því hafa vaknað spurningar um hvort merkingarnar stangist á við EES-samninginn. Hægt er að velta því fyrir sér hvort hér sé um að ræða tæknilega viðskiptahindrun sem er andstæð samningnum þar sem um auknar kröfur er að ræða.

Samkvæmt upplýsingum ÁTVR seldust tæplega 25 millj. eininga áfengis á ári í verslun fyrirtækisins. Það að þurfa að líma varúðarmerki á hverja einustu einingu mun óhjákvæmilega hafa í för með sér mikinn kostnað sem leiða mun til hækkunar á útsöluverði áfengis. Sökum þess hve íslenski markaðurinn er lítill er ljóst að merkingarnar verða framkvæmdar hér á landi. Erlendir framleiðendur munu ekki standa í því. Frekar munu þeir láta íslenska neytendur sigla sinn sjó.

Í greinargerð með frv. er fullyrt að kostnaður til framtíðar verði hverfandi lítill þar sem eingöngu þurfi að prenta miða í upphafi. En, herra forseti, miðarnir líma sig ekki sjálfir á flöskur og dósir og einhverjum þarf því að greiða fyrir að annast þann starfa.

Í greinargerð með frv. er þess getið að merkingar sem þessar séu á áfengisumbúðum í Bandaríkjunum og er það rétt. Þetta verður þó að skoða í ljósi þeirrar ríku skaðabótahefðar sem viðgengst þar í landi. Það eru framleiðendur sem vilja slíkar merkingar á öllu mögulegu og ómögulegu til að firra sig skaðabótaábyrgð. Slíkt á ekki við hér á landi. Í Bandaríkjunum eru varúðarmerkingar á hinum ýmsu hlutum, svo sem á kaffibollum um að kaffið geti verið heitt, á vélsögum um að hættulegt sé að stöðva sagirnar með höndunum og á hárþurrkum er greint frá því að varasamt sé að reyna að nota þær í sturtu. Svo mætti lengi telja.

Samkvæmt upplýsingum frá miðstöð Mæðraverndar þá er þar á bæ verið að endurskoða námsefni fyrir verðandi mæður og án efa verður þar enn frekar hnykkt á skaðsemi áfengis fyrir fóstur. Þá gefst verðandi foreldrum kostur á námskeiðum þar sem ítarleg fræðsla fer fram og þá sinna einnig ljósmæður fræðslu í hefðbundinni mæðraskoðun. Mæðraeftirlitið á Íslandi er eitt það besta í heiminum og eftir fyrstu heimsókn í mæðraskoðun er varla til sú kona sem ekki veit að hún á ekki að neyta áfengis á meðan á meðgöngu stendur, hafi svo ólíklega viljað til að henni hafi ekki verið kunnugt um það áður, sem ég reyndar stórefa. Ég vil taka svo djúpt í árinni að segja þetta frv. móðgun við allar íslenskar konur.

Um verðandi ökumenn gildir það sama og um verðandi mæður. Þeir fá fræðslu um að áfengisneysla og akstur fari ekki saman.

Við alþingismenn eigum að forðast að leggja óþarfa álögur á fólkið og fyrirtækin í landinu, álögur sem munu að líkindum engu skila og eru með öllu óþarfar og sennilegast hækka vísitöluna, því að sá kostnaður sem þetta hefur í för með sér fyrir innflytjendur mun fara beint út í verðlagið.

Á Íslandi er eitt hæsta áfengisverð í heimi og falin neysla --- þá á ég við heimabrugg og smygl --- er mikil. Ég dreg að sjálfsögðu enga fjöður yfir skaðsemi óhóflegrar áfengisneyslu. En sú ófríska kona sem ætlar sér að drekka vín gerir það hvort sem á flöskunni er varnaðarmiði eða ekki, líkt og reykingarmaðurinn kveikir sér í sinni sígarettu þó að landlæknir segi honum á pakkanum að það valdi honum skaða.

Allir vita að ofneysla áfengis er skaðleg. En það má einnig segja um ofneyslu sælgætis, gosdrykkja, feitmetis og fleiri fæðutegunda. Eigum við t.d. næst að setja varnaðarorð á allan reyktan mat og segja að ofneysla hans geti e.t.v. valdið krabbameini eða að skikka skyndibitastaði til að vara við ofneyslu á feitmeti vegna þess að það geti valdið offitu sem síðar geti e.t.v. leitt til hjartasjúkdóma? Það held ég tæpast.

Ég veit að flutningsmönnum tillögunnar gengur gott eitt til. Þarna er verið að fjalla um alvarleg heilbrigðisvandamál sem eru fósturskaðar og ölvunarakstur. Í greinargerð með frv. birtast sláandi tölur um þann fjölda ölvaðra ökumanna sem aðild hafa átt að alvarlegum slysum. En sú leið sem flutningsmenn leggja hér til, þ.e. að setja varúðarmerki á áfengisumbúðir, er að mínu mati ekki rétta leiðin til að taka á þessum málum. Ég met það svo að þeim fjármunum sem þessu fylgja væri mun betur varið í öflugri forvarnir t.d. meðal ungs fólks.