Fullgilding Árósasamningsins

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:41:33 (4345)

2002-02-11 15:41:33# 127. lþ. 74.1 fundur 327#B fullgilding Árósasamningsins# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Á vorþingi 2001 lagði hæstv. utanrrh. fram till. til þál. um fullgildingu Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Var það í samræmi við samstarfsyfirlýsingu umhvrn. og frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndar sem undirrituð hafði verið 20. mars 2001 en í henni er skýrt kveðið á um að aðilar séu sammála um þýðingu frjálsra félagasamtaka, þau gegni mikilvægu lýðræðislegu hlutverki í umræðunni um umhverfismál og í því skyni að tryggja og efla það hlutverk þeirra verði leitað heimildar Alþingis á árinu 2001 til að staðfesta Árósasamninginn frá 1998.

Tillagan sem hæstv. utanrrh. lagði fyrir Alþingi hlaut ekki afgreiðslu en á fundi sem umhvn. Alþingis átti í haust með starfsmönnum umhvrn. kom fram að unnið væri að lagatæknilegum lagfæringum á tillögunni. Fram kom að sú vinna stæði yfir og þess væri síðan að vænta að hún kæmi fyrir Alþingi á þessu þingi.

Enn bólar ekkert á tillögunni og það vekur raunar athygli að hún er ekki á málalista ríkisstjórnarinnar sem lagður var fram með stefnuræðu hæstv. forsrh. í upphafi þessa þings. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé um ætlun ríkisstjórnarinnar varðandi tillöguna um fullgildingu Árósasamningsins. Er þess að vænta að þáltill. um slíka fullgildingu verði lögð fram og afgreidd á þessu þingi?