Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2000

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 16:12:11 (4364)

2002-02-11 16:12:11# 127. lþ. 74.14 fundur 179#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2000# (munnl. skýrsla), JB
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2000. Með þessu er verið að uppfylla lög um Ríkisendurskoðun og starfsreglur hennar þar sem kveðið er á um að hún skuli leggja starfsskýrslu fram á Alþingi. Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis, heyrir beint undir það og hv. forsn. sem fer með málefni Alþingis í viðskiptum þess við Ríkisendurskoðun.

Það hlutverk sem Ríkisendurskoðun hefur er afar mikilvægt og að bæði af hálfu þingmanna og þingflokka skuli vera hægt að beina til hennar erindum um að skoða nánar og gera úttekt á bæði stjórnsýslulegum og fjármálalegum atriðum í rekstri og viðfangsefnum ríkisstofnana og heilla ráðuneyta ef svo ber undir. Jafnframt er hægt að beina til Ríkisendurskoðunar að kanna með hvaða hætti ríkisvaldið ef því er að skipta eða framkvæmdarvaldið fylgir eftir þeim samþykktum sem Alþingi gerir og færir framkvæmdarvaldinu til úrlausnar.

Jafnframt hefur Ríkisendurskoðun rétt til þess að eigin frumkvæði að taka upp mál stjórnsýslulegs eðlis, mál sem lúta að meðferð fjármála á vegum hins opinbera, og önnur sem Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að gera til að veita aðhald og sinna bæði aðhalds- og upplýsingaskyldu sinni.

[16:15]

Herra forseti. Gallinn er sá hve þessi umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar er seint á ferð. Nú er umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2000, en árið 2002 er nýbyrjað. Umræða þessi hófst í haust en varð þá ekki lokið. Ég vil hér með beina því til hæstv. forseta að forsn. kanni hvernig verði hægt að taka upp betri og skilvirkari vinnubrögð hvað varðar svo mikilvæg atriði að fylgja eftir lögboðnum verkefnum eins og t.d. kynningu á starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar þannig að hún verði ekki svo seint á ferð. Núna ættum við þess vegna, að mínu mati, að vera að ræða starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2001. Í stað þess ræðum við skýrslu ársins 2000.

Í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar er drepið á þau verkefni sem Ríkisendurskoðun hefur fengið á árinu eða tekist á við og birt m.a. sérstakar skýrslur um. Nú er það svo að Ríkisendurskoðun sinnir fleiri verkefnum, eftirlitsverkefnum og hefur víðara hlutverk án þess að formlegar skýrslur séu birtar þar um. En þær skýrslur sem Ríkisendurskoðun birtir og sendir frá sér formlega má ætla að séu til frekari skoðunar og til þess að verða meðhöndlaðar frekar af Alþingi eða þá þeim sem Alþingi kveður til til þess að fara yfir þær skýrslur. Þessar skýrslur yrðu þá unnar og sendar Alþingi til þess að ákveða nánar hvernig á skuli tekið.

Hér er rakið hvaða skýrslur Ríkisendurskoðun hefur gefið út á árinu 2000. Þær eru, með leyfi forseta: Áform -- átaksverkefni, Sérfræðiþjónusta, kaup ríkisstofnana á ráðgjöf og annarri sérfræðiþjónustu, Rammasamningar Ríkiskaupa, mat á árangri við innkaup ríkisstofnana, Reynslusveitarfélög, samningar við Akureyrarbæ, Framkvæmd fjárlaga frá janúar -- maí 2000, Framkvæmdir við Þjóðmenningarhús, Endurskoðun ríkisreiknings 1999, Rafræn viðskipti, og Greinargerð um áætlaða rekstrarstöðu heilbrigðisstofnana í árslok 2000.

Virðulegi forseti. Ég les þetta upp til þess að við áttum okkur á hvers konar skýrslur Ríkisendurskoðun sendir frá sér. Þetta á við árið 2000. Hins vegar hefur Ríkisendurskoðun einnig sent frá sér formlegar skýrslur á árinu 2001. Ég get nefnt t.d. skýrslu um úttekt á tölvukerfi í framhaldsskólum. Það var átaksverkefni sem var sett í gang af stjórnvöldum og Ríkisendurskoðun þótti ástæða til þess að gera úttekt á og skoða hvort þar hefðu þau markmið náðst sem sett voru. Sömuleiðis hefur Ríkisendurskoðun gefið út skýrslu um framkvæmd fjárlaga í janúar til september 2001. Hún var afar athyglisverð. Þar voru m.a. margar ábendingar um hvernig betur mætti standa að framkvæmd fjárlaga, einnig beinar ábendingar og aðfinnslur við það hvernig einstök ráðuneyti og einstakar stofnanir fóru með.

Herra forseti. Ég minnist sérstaklega í skýrslunni um framkvæmd fjárlaga kaflans um fjárráðstafanir af hálfu menntmrn. til framhaldsskólanna þar sem greint var frá því að allmargir framhaldsskólar væru árum saman með mikinn rekstrarhalla sem safnaðist upp án þess að á þeim málum væri tekið þó skýlaus krafa væri að gera það. Þar var því mjög alvarleg ábending um brýna þörf á bættri stjórnsýslu.

Einnig kom út á árinu 2001 Endurskoðun ríkisreiknings 2000, skýrsla um Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins og skýrsla um tollaframkvæmd.

Herra forseti. Ég les upp þessi atriði til að við getum glöggvað okkur betur á hvert sé hlutverk og verkefni Ríkisendurskoðunar.

Það er mjög gott og blessað að gera úttektir og vinna skýrslur, vinna skýrslur um stjórnsýslumál, skýrslur stjórnsýslulegs eðlis og benda á hvað þar mætti betur fara, skýrslur um fjármál og umsýslu ríkisstofnana og einstakra ráðuneyta og verkefni á vegum þeirra. Þetta er mjög gott. En mér finnst vanta á, herra forseti, að það sé meira skýrt og skilvirkt hvernig síðan með þessar skýrslur er farið. Þessar skýrslur eru sendar Alþingi og Ríkisendurskoðun hefur í sjálfu sér ekkert framkvæmdarvald. En hún sendir þessar upplýsingar frá sér formlega og því finnst mér, herra forseti, að til staðar eigi vera formlegt ferli, formlegt, fast, skipulagt ferli sem þessar skýrslur og þessi vinna fari í. Það er náttúrlega eðlilegt að þessar skýrslur komi beint til forsn. sem fer með hin formlegu samskipti á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar, en einnig koma skýrslurnar til einstakra nefnda þar sem málefni þeirra eru talin eiga heima, þ.e. hjá sérstökum eða ákveðnum þingnefndum. Þessar skýrslur eru ætlaðar til þess að varpa ljósi á ákveðin atriði, vera til ábendingar og einnig til þess að læra af. Sumar upplýsingar geta hreinlega verið þess eðlis að beinlínis þurfi að taka á málum og að þær feli í sér bein skilaboð til Alþingis um að svo skuli gert.

Því miður er ekki formlegur vettvangur, ekkert formlegt vinnuferli til á Alþingi eða af hálfu einstakra þingnefnda þannig að hægt sé að taka þessar skýrslur formlega fyrir, fara yfir þær efnislega og þau skilaboð sem þær flytja inni í nefndir og inn í þingið. Ég tel að þær eigi formlegan rétt á því og reyndar er líka eðlilegt að þessar skýrslur frá Ríkisendurskoðun aðrar en bara starfsskýrslan, komi inn í þingið til umfjöllunar.

Mér er kunnugt um þar sem ég sit í fjárln. að þangað hafa komið inn skýrslur frá Ríkisendurskoðun, nokkrar af þessum skýrslum sem ég var að minnast hér á. Vissulega hefur fjárln. fjallað nokkuð um þær og fengið ríkisendurskoðanda eða starfsmenn Ríkisendurskoðunar til þess að koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir því sem þar var verið að leggja fram og það er mjög gott. Þrátt fyrir ákveðinn meintan vilja innan fjárln. um að fjárln. afgreiddi eða ályktaði um viðkomandi skýrslur eða tæki ákvörðun um hvernig með þær og boðskap þeirra skyldi farið, hefur sú ekki orðið raunin. Ég minnist þess ekki að fjárln. hafi afgreitt, sent frá sér formlega umsögn eða gert tillögur um frekari meðferð á neinni skýrslu sem til hennar hefur komið. Ég hef þó heyrt um einstaka skýrslur sem hafa komið til annarra nefnda --- efh.- og viðskn. hef ég heyrt nefnda í því sambandi --- að þangað hafi komið skýrslur sem hafi verið (Forseti hringir.) ...

(Forseti (GuðjG): Það er of mikill hávaði í salnum.)

Herra forseti. En allt er það meira háð stjórn og verklagi einstakra nefnda hvernig með er farið. Mér finnst skorta þarna á formlega samstjórn og ábyrga verkstjórn af hálfu Alþingis um hvernig með skýrslur Ríkisendurskoðunar skuli farið. Mitt mat er að þær skuli fara á formlegan hátt til þeirra nefnda sem starfa á vegum Alþingis og eru á því málefnasviði sem skýrslurnar fjalla um, komi síðan fyrir Alþingi til umræðu og þannig ljúki málsmeðferð þessara einstöku skýrslna.

Þetta vildi ég segja, herra forseti. Efnislega hefur ekki mikla þýðingu að ræða árið 2002 starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2000. Ég tel að eitt af því brýnasta fyrir okkur hér á Alþingi sé að taka upp miklu formfastari og skipulagðari vinnubrögð í meðferð á þessum skýrslum og þessum skilaboðum, þessum ábendingum sem Ríkisendurskoðun vinnur á vegum Alþingis. Ég hvet hv. forsn. þingsins til þess að taka formlega og ákveðið á þessum málum .