2002-02-11 18:30:43# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Aukin eftirspurn eftir lánum frá Byggðastofnun sýnir í rauninni hvert umræðan hefur leitt aðra fjárfesta, aðra lánveitendur. Á Íslandi er öllum sagt að það gangi illa úti á landsbyggðinni. Hverjum dettur í hug að lána fé þangað? Það er einmitt afleiðing umræðunnar, afleiðingin af þessum byggðaskýrslum og byggðastofnunarstarfsemi sem við höfum rætt um hér í áratugi. Þetta er afleiðing af því. Það er endalaust og stöðugt verið að segja fólki að það gangi illa úti á landi, sem er bara ekki rétt. Það er því ekki skrýtið þó að enginn vilji lána þangað.

Ég tel að sparisjóðirnir gegni mjög mikilvægu hlutverki og ég er sannfærður um að betur gengi ef fjármálakerfið væri ekki eins miðstýrt og það er í gegnum ríkið. Ríkið er mjög hægt og mjög rólega að losa krumlurnar af fjármálamarkaðnum og ef það gerist er ég sannfærður um að peningarnir streyma út á land, nákvæmlega eins og þeir hafa gert í gegnum hlutabréfamarkaðinn, til Neskaupstaðar, Akureyrar o.s.frv.