2002-02-11 19:16:13# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[19:16]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það, og sagði það í ræðu minni áðan, að mér óar við stærðinni á þessu fyrirtæki fyrir austan. Það er umhugsunarefni hve langt er hægt að ganga í því. Ég get líka tekið undir það að það þarf að vera mjög skýrt að góður arður sé af fyrirtæki eins og þarna er verið að tala um að setja á stofn og ekki síst virkjuninni. Það er auðvitað okkar mál því að meiningin er að við eigum hana. Þar mega menn nú ekki tefla á tæpt vað enda er þar um gífurlega fjármuni að ræða.

En í sambandi við bankaumræðuna vil ég bara endurtaka það að mér finnst ekki hægt að reka sér bankastofnun við hliðina á öðrum fyrirtækjum í landinu og ætlast til af því fyrirtæki að það veiti þjónustu fram yfir önnur fyrirtæki, einfaldlega vegna þess að þá mun það fyrirtæki ekki geta borgað sömu innlánsvexti og önnur fyrirtæki í sömu atvinnugrein. Það er mikil samkeppni um þá sem geyma peninga í bönkum á Íslandi, miklu meiri en almenningur gerir sér grein fyrir. Fyrirtæki sem ávaxta peninga og lána þá út slást um þá sem eiga fjármuni. Fyrirtæki sem ætti að veita þjónustu og hefði slíkar kvaðir á sér sem hér hefur verið um rætt mundi örugglega tapa í þeirri samkeppni.