
Pétur H. Blöndal (andsvar):
Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka undir með hv. þm. og kalla það sem hér heitir óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti, bara ruslpóst, sem það er. Síðan er það verkefni framtíðarinnar að verja notendur fyrir slíkri tímaeyðslu. Ég skora á hv. nefnd að fara mjög ítarlega í það hvort ekki sé einhver þróun í gangi úti í heimi sem tekur fyrir þennan ófögnuð, því ég vil kalla það því nafni, og leggur áherslu á þá kosti sem netið hefur því það hefur óumdeilanlega mikla kosti. Ég ætla ekki að lýsa því hve miklu þægilegra er að vinna í dag með netið við hendina en var fyrir 10--15 árum. Við eigum að huga að þessu í frv. þannig að það skeri á þá ókosti sem netinu fylgja en hefji upp kostina.