Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:02:21 (4447)

2002-02-12 15:02:21# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að leggja fáein orð í belg um þessa tillögu um athugun á möguleikum til að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og þá einkum með það í huga að kannaður verði möguleikinn á stofnun uppbyggingarsjóða sambærilegra við þá sem fyrirfinnast á svæði Evrópusambandsríkja og Noregi, eins og segir í tillögutextanum.

Þetta er ein af allmörgum tillögum sem fjalla um aðgerðir á sviði atvinnu- og byggðamála, byggða- og atvinnulífstengdar aðgerðir gætum við sjálfsagt kallað þær. Þær eiga það flestar sameiginlegt að nauðsynlegt þykir að grípa til aðgerða eða bæta eins og kostur er skilyrði til atvinnuuppbyggingar, nýsköpunar og þróunar hér á landi. Þar eru auðvitað margir með landsbyggðina sérstaklega í huga vegna þeirra erfiðleika í atvinnu- og byggðamálum sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir.

Ég tel þessa tillögu ágætt innlegg í þau mál, hún á fullt erindi í þá umræðu. Í úttekt á þessum þætti yrði borið saman hvaða áhrif fjárfestingarstyrkir, stofnstyrkir hafa í atvinnuuppbyggingu í samkeppnislöndunum og svo aftur þær aðstæður sem menn standa frammi fyrir hér á landi við að reyna að koma sambærilegri atvinnustarfsemi á fót, eða jafnvel í einstökum tilvikum beinlínis keppa um mögulega staðsetningu fyrirtækja sem geta lent hvorum megin hryggjar sem er, hér á landi eða í einhverju af nágrannalöndunum.

Þessi tillaga á ýmislegt sameiginlegt með tillögu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum flutt og snýr að svæðisbundnu átaki í atvinnulífi í landinu. Þar er gert ráð fyrir að vinna hlutina meira á grundvelli svæðisáætlana sem er reyndar yfirleitt hluti af áætlanagerð og skipulagi þessara mála að því er ég best þekki hjá þeim sem vísað til í þessari tillögu, þ.e. á vettvangi Evrópusambandsins og hjá Norðmönnum.

Hvað varðar stöðu Noregs í þessu sambandi tel ég mig vita að þeir völdu þá leið að gerast með beinum hætti aðilar að byggðaþróunaráætlunum Evrópusambandsins. Þeir eru aðilar að svonefndu Interreg-samstarfi en Íslendingar hins vegar ekki. Af aðild Norðmanna má ráða að Íslendingum hafi staðið slík aðild til boða ef við hefðum svo kosið. Þannig er að Norðmenn greiða einfaldlega sjálfir þann hluta styrkjanna sem ella hefði komið úr sjóðum Evrópusambandsins væru þeir aðilar. Það er þessi þróunarsjóður sem nefndur er í tillögunni. Hann greiðir yfirleitt helming af stofnstyrkjum á móti mótframlögum heimaaðila í þeim tilvikum sem hér um ræðir.

Það er alveg ljóst að þessir styrkir hafa áhrif á samkeppnisstöðuna. Þeir hafa auðvitað áhrif á samkeppnisstöðuna í rekstri því að það skiptir máli um samkeppnishæfni atvinnulífs ef það fær stuðning við að ráðast í fjárfestingar og koma þeim á fót. Það skiptir auðvitað miklu máli þegar reiknuð er út fjárfestingin sem slík, tiltekin uppbygging í fyrirtæki eða staðsetning þess.

Ég hef starfað í nefnd á vegum Norðurlandaráðs sem vann við að bera saman byggðaaðgerðir og stuðning við atvinnuuppbyggingu og þróun á Norðurlöndunum. Þessi nefnd skilaði skýrslu fyrir nokkru og sú skýrsla er nú til umfjöllunar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og þeirri nefnd sem nú fer með þessi mál samkvæmt nýju skipulagi, svonefndri atvinnumálanefnd. Þar er einmitt fram undan að taka ákvarðanir um hvernig þessari skýrslu verði fylgt eftir, þá í samstarfi við Byggðastofnun Norðurlanda, Nordregio, sem er ung stofnun sem nýlega hefur verið komið á fót. Ég held að viðfangsefni af því tagi sem fjallað er um í tillögunni gæti átt bærilega heima í þessu samhengi. Eitt af því sem menn gætu nýtt þetta norræna samstarf til að gera er að leggja grunn að raunhæfum samanburði að þessu leyti, þar sem Ísland hefur nokkra sérstöðu. Við erum ekki með neina umtalsverða beina stofnstyrki eða uppbyggingarstyrki til okkar atvinnulífs, ekki einu sinni á landsbyggðinni, ekki einu sinni í þeim landshlutum þar sem menn hafa helst átt í vök að verjast í byggðamálum. Þar skerum við okkur þó nokkuð úr.

Ég held að það sé ekki of djúpt í árinni tekið að orða þetta svo. Auðvitað eru til lítils háttar styrkveitingar. Nefna má styrki Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til búháttabreytinga í sveitum. Endrum og sinnum hrjóta e.t.v. einhverjir smámolar af borði Byggðastofnunar, sem flokka má sem styrki. En séu þeir styrkir settir í stærra samhengi þá eru þeir hverfandi hér á Íslandi, borið saman við þá umtalsverðu fjárfestingarstyrki upp á allt að 30--40% af stofnkostnaði, í ákveðnum tilvikum, sem atvinnulíf sums staðar á byggðaþróunarsvæðum í Evrópu hefur aðgang að. Þarna skerum við okkur verulega úr og væri ástæða til að fara yfir þá hluti.

Ég nefni sem dæmi stöðu skipaiðnaðarins í þessu sambandi, af því að það vill svo til, herra forseti, að síðar á dagskrá þessa fundar er tillaga um skipaiðnaðinn. Skipaiðnaðurinn, hvernig hann hefur hrunið á Íslandi á sama tíma og nágrannaþjóðirnar og sérstaklega auðvitað Norðmenn hafa varið skipaiðnað sinn þannig að hann hefur jafnvel blómstrað á nýjan leik, er klassískt dæmi um að atvinnugrein hafi verið studd í gegnum erfiðleikatímabil með opinberum stuðningi. Skipaiðnaðurinn hefur auðvitað eins og aðrar greinar notið góðs af stofnstyrkjum en hann hefur fengið viðbótarstuðning í formi vaxtaniðurgreiðslna og fleiri þátta. Munurinn, þegar upp er staðið, er sá að Norðmenn hafa áfram skipaiðnað og hann er undir fullum seglum núna. Þó að hann nýti sér í einhverjum mæli stálvinnu eða annað í Póllandi þá fara samsetningar, bygging og niðursetning búnaðar fram í Noregi, á sama tíma og nýsmíðar stærri fiskiskipa eru aflagðar á Íslandi. Atvinnugrein sem áður var blómleg og veitti þúsundum manna störf er nánast að engu orðin hér á landi. Það er borðleggjandi að munur á samkeppnisskilyrðum hefur þarna gert gæfumuninn. Hvað sem ræðuhöldum manna um skaðsemi opinberra afskipta eða styrkja af þessu tagi líður --- ég heyrði að hv. þm. Pétur Blöndal var á gamalkunnugum slóðum í málflutningi sínum í þeim efnum --- blasa þessar staðreyndir við okkur. Það gerir það að verkum að það er fullkomin ástæða til að skoða þetta.

Ég vil því segja, herra forseti, bæði um þessa tillögu og aðrar byggða- og atvinnulífstengdar tilögur sem þingmenn hafa verið að flytja hér og ekki að tilefnislausu, að ég tel að þær eigi allar að fara í skoðun með þeirri byggðaáætlun sem hingað er væntanleg. Þetta er auðvitað nátengt því máli. Alþingi ætti að reyna að sjá sóma sinn í og leggja metnað í að afgreiða þessa hluti myndarlega með samræmdum hætti. Ég tel auðvitað að skynsamlegast væri að samþykkja líka tillögu okkar þingmanna Vinstri grænna um byggðaþing og þetta væri viðfangsefni af því tagi sem menn ættu að fjalla um á sérstöku byggðaþingi og hafa þá allt málið undir.