Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:10:38 (4496)

2002-02-13 14:10:38# 127. lþ. 77.4 fundur 278. mál: #A Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. menntmrh. fyrirspurn um Íþróttamiðstöð Íslands á Laugarvatni. Segja má að forsaga málsins sé það að unnið hefur verið að björgun og endurbyggingu gamla héraðsskólahússins á Laugarvatni. Hæstv. menntmrh. á hrós skilið fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt því máli.

Í september árið 2000 skipaði hæstv. menntmrh. starfshóp til að meta forsendur fyrir eflingu Íþróttamiðstöðvar Íslands á Laugarvatni, skilgreina hlutverk íþróttamiðstöðvarinnar, gera tillögur um starfsemina, fjármögnun, rekstraráætlun og rekstraraðila. Þá var starfshópnum falið að fjalla sérstaklega um tengsl þessarar starfsemi við íþróttaskor Kennaraháskóla Íslands og nýtingu gamla héraðsskólahússins á Laugarvatni. Þá átti starfshópurinn einnig að leggja fram áætlun um framkvæmdir vegna endurbóta á húsnæði, kostnað við þær og áfangaskiptingu. Áður hafði háskólaráð að beiðni menntmrh. látið fara fram athugun á þörf fyrir uppbyggingu á Laugarvatni í tengslum við starf íþróttaskorar og m.a. var gerð framkvæmdaráætlun með nýtingu héraðsskólahússins í huga.

Starfshópurinn sem skipaður var af hæstv. menntmrh. í september 2000 var undir forustu þáv. þingmanns Árna Johnsens og skilaði lokaskýrslu sinni um mánaðamótin maí/júní 2001. Þar eru lagðar fram ítarlegar tillögur um endurbætur og uppbyggingu skóla og íþróttamannvirkja í tengslum við rekstur Íþróttamiðstöðvar Íslands á Laugarvatni. Í kostnaðaráætlun sem fylgir tillögunum kemur fram að áætlaður kostnaður vegna þessara endurbóta sé um 325 millj. kr., þar af um 250 millj. vegna brýnna endurbóta.

Í lokaskýrslu starfshópsins og einnig í skýrslu Kennaraháskólans kemur fram hversu mikilvæg lyftistöng það væri fyrir Laugarvatn, þá starfsemi og nám sem þar er stundað, að þessum tillögum yrði hrint í framkvæmd. Tillögurnar fela í sér öflug sóknarfæri fyrir staðinn og alla starfsemi þar. Ákvörðun um framhaldið var ekki tekin við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár og lítið verið framkvæmt af þeim tillögum sem fram komu nema niðurrif gamalla húsa. Það er afar mikilvægt að fylgja þeirri góðu vinnu eftir sem starfshópurinn skilaði undir forustu Árna Johnsens á síðasta vori. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir þeim niðurstöðum og tillögum sem koma fram í lokaskýrslu starfshóps um eflingu Íþróttamiðstöðvar Íslands að Laugarvatni?