Innheimta skuldar við LÍN

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:20:44 (4530)

2002-02-13 15:20:44# 127. lþ. 77.8 fundur 463. mál: #A innheimta skuldar við LÍN# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef ekkert við þetta mál að bæta umfram það sem ég sagði. Ég veit ekki einu sinni hvaða ummæli það eru sem hv. þm. tekur nærri sér og höfð eru eftir framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna í Fréttablaðinu. Mér finnst það í samræmi við annað í málflutningi hv. þm. að draga það inn í þetta mál. Það er alveg ljóst að verið er að vinna að þessu máli lögum samkvæmt. Ég vil halda mig við efni málsins og þær leiðir sem einstaklingurinn hefur. Þær eru mjög skýrar og hann hefur nýtt sér þær. Og málið er núna til umræðu á hinu háa Alþingi. Við höfum ekkert um þetta mál að segja. Við getum kvartað yfir því og sagt að menn hefðu átt að flýta sér meira hjá málskotsnefnd og annað slíkt. En þetta mál er alveg í lögformlega réttum farvegi og það er rangt hjá hv. þm. að umboðsmaður Alþingis hafi úrskurðað í þessu máli. Umboðsmaður Alþingis úrskurðar ekki. Það er mjög mikilvægt þegar þingmenn eru að fjalla um svona mál að þeir noti rétt hugtök og athugi um hvað þessi mál snúast. Umboðsmaður Alþingis hann gefur álit. Hann gefur ábendingar. Hann segir hvað megi betur fara. En stjórnvöldum er ekki skylt að fara eftir áliti hans eða ábendingum. Það hefur oft komið fram og hefur verið hér til umræðu þegar hv. þingmenn hafa rætt skýrslu umboðsmanns Alþingis að öll tilbrigði eru til við það hvernig menn bregðast við þeim álitum. Í þessu tilviki hefur málskotsnefndin ákveðið að fara að áliti umboðsmanns og er að vinna að málinu. Ég sé því ekki að nokkur ástæða sé til þess að vera með ámæli í garð þeirra sem eru að vinna að þessu máli eins og þeir séu ekki að sinna skyldum sínum. Þeir ganga eins langt eins og þeim er skylt að gera og munu komast að niðurstöðu og við hana verða allir að una því málskotsnefndin hefur lokaorðið um þetta mál á þessum vettvangi. Menn geta að sjálfsögðu kært hana fyrir dómstólum eins og annað og leitað réttar síns fyrir dómstólunum. En á þessum vettvangi hefur málskotsnefndin síðasta orðið og ég sé ekki betur en það hafi komið fram í þessum umræðum að nákvæmlega hafi verið staðið að þessu máli eins og gert er ráð fyrir lögum samkvæmt.