Aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:23:10 (4552)

2002-02-13 18:23:10# 127. lþ. 77.13 fundur 400. mál: #A aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og fagna því að gert skuli vera ráð fyrir því í væntanlegri byggðaáætlun að Ísland gerist aðili að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins. Ég held að upptalning hæstv. ráðherra sýni mætavel áhugann á Íslandi fyrir þátttöku af þessu tagi og að velflestir átti sig á að mikilvægt er að læra af reynslu annarra. Það á við um sveitarfélögin í landinu ekki síður en aðrar stofnanir eða fyrirtæki.

Herra forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að sveitarfélögin í landinu eru farin að opna gluggann til Evrópu, ef það má orða svo. Það er býsna margt sem Evrópusambandið er búið að vinna á vettvangi byggðamála, og við gætum ýmislegt af þeim lært. Ég var í gær með þingmál um stofnstyrki. Einhver vísir að þeim er líka inni í byggðaáætlun þó að okkur, flutningsmönnum þess máls, finnist að þar mætti taka fastar á. Auðvitað má búa betur um hnúta í nefndinni sem fjallar um byggðaáætlun.

Herra forseti. Ég ítreka bara að ég er ánægð með að verkefnunum skuli sýndur þessi áhugi þó að Ísland þurfi að greiða fyrir þátttöku. Ég held að samstarf á þessum vettvangi sem og ýmsum öðrum skili sér margfalt í nýjum vinnubrögðum, nýrri sýn og nýjum möguleikum til að þróa mál áfram.