Álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:28:02 (4554)

2002-02-13 18:28:02# 127. lþ. 77.14 fundur 471. mál: #A álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Sem svar við fsp. hv. þm. á þskj. 753 vil ég segja eftirfarandi:

Að þessu verkefni er unnið í samræmi við yfirlýsingu sem hlutaðeigandi aðilar undirrituðu þann 24. maí árið 2000. Miðað við yfirlýsinguna var gert ráð fyrir að ákvörðun um hvort ráðist yrði í framkvæmdirnar yrði tekin fyrir 1. febrúar sl.

Á fundi samráðsnefndar verkefnisins þann 11. sept. 2001 var tekin ákvörðun um að fresta endanlegri ákvörðun til 1. sept. nk. eða um sjö mánuði. Þeim tímaáætlunum sem unnið var eftir á grundvelli yfirlýsingarinnar frá því í maí 2000 var breytt til samræmis.

Fram til þessa hafa viðræður verið í fullu samræmi við tímaáætlunina sem aðilar settu sér og ekki er vitað til annars en að hún standi.

Ríkisstjórnin hefur ekki undirbúið aðra valkosti hvað varðar fjárfesta til að byggja álver á Reyðarfirði ef samningaviðræður á grundvelli framangreindrar yfirlýsingar verða árangurslausar. Það liggur hins vegar fyrir að áhugi erlendra fjárfesta á byggingu álvers hér á landi hefur verið að aukast á síðustu árum. Viðræður standa yfir við Norðurál um frekari stækkun og Ísal vinnur að undirbúningi þess að hægt verði að taka ákvarðanir um það hvort fyrirtækið óski eftir viðræðum um frekari stækkun. Jafnframt má geta þess að nýlega var hér á ferð sendinefnd frá rússneskum aðilum til að kanna aðstæður til súráls- og álframleiðslu á Íslandi. Þessir aðilar hafa nú stofnað fyrirtæki á Íslandi og er unnið að gerð samkomulags milli þeirra og Fjárfestingarstofunnar -- orkusviðs fyrir hönd iðnrn. og fyrirtækisins og þeirra sem að því standa um fyrirkomulag þessa samstarfs.

Þá er rétt að geta þess að stöðugt er unnið að markaðssetningu Íslands sem vænlegs fjárfestingarkosts hvað orkusækinn iðnað varðar og má geta þess að Ísland er gjarnan nefnt á alþjóðlegum ráðstefnum álfyrirtækja sem vænlegur kostur í uppbyggingu álfyrirtækja í framtíðinni.