Bann við umskurði stúlkna

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:26:43 (4579)

2002-02-13 19:26:43# 127. lþ. 77.21 fundur 419. mál: #A bann við umskurði stúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:26]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég fagna umræðunni sem hér á sér stað og langar að segja að ég tel að hér sé svo alvarlegt mál á ferðinni að það væri ástæða til að ræða það með öðrum hætti síðar hér á Alþingi. Ég las bók um jólin sem heitir Eyðimerkurblómið og er eftir Waris Dirie sem lenti í því að vera umskorin sjálf. Það kemur fram í þessari bók að um 80% kvenna í Sómalíu eru umskornar. Lýsingarnar á þessum verknaði fylltu mig mjög djúpri sorg og ég tel að hér sé um algjöra kúgun á konum að ræða og að þessar stúlkur eigi sér enga vörn. Þeirra eigin fjölskylda tekur þátt í þessu og skipuleggur þennan verknað og það ber að fordæma þetta á allan hátt.

Menn reyna auðvitað alltaf að sýna öðrum menningarheimum skilning og fordæma ekki menningu annarra þjóða. Menn reyna að fara varlega í því en ég tel að þetta mál sé þess eðlis að ekki sé annað hægt en að fordæma það. Ég fagna því hve hæstv. heilbrrh. var harðorður í garð þessa í svari sínu.