Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:57:49 (4683)

2002-02-14 14:57:49# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þá hefur þingheimur fengið að heyra túlkun Halldórs Blöndals á ræðu minni. Það var hins vegar ekki ræða mín, eingöngu túlkun hv. þm., og skýrir kannski betur en margt annað hversu ríkur skilningur er alla jafna á milli mín og hv. þm.

Ramman keim, já, herra forseti, maður finnur ákveðna lykt, það er svo merkilegt, þegar hér er dreift frv. sem er í veigamiklum atriðum í hróplegu ósamræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin er þó áður búin að kynna sem sína og ætlar að láta taka gildi hér á miðju ári. Það að benda á það og þann skort á auðlindapólitík sem þetta allt ber með sér er ekki tafatækni af minni hálfu, herra forseti, hreint ekki. Það er ábending um að menn eigi að gera hlutina betur. Og auðvitað hljótum við að gera kröfu til þess.

Herra forseti. Ég veit að það þýðir ekki að eiga orðastað við hv. þm., það er löng reynsla fyrir því. Og ég treysti því að þeir sem sjálfir hlýddu á ræðu mína hafi skilið að það sem ég er að fara fram á er að það sé samræmi í hlutunum, að það heyri a.m.k. upp á sama daginn hvaða skilyrði Landsvirkjun eru sett þegar hún fær afhenta arðvænlegustu virkjunarkosti landsins og öðrum þeim fyrirtækjum sem á næstu mánuðum eða missirum ætla að fara í virkjanir eða orkuöflun, þar á meðal Rarik.